HLJÓMSVEITIN ENSÍMI SENDIR FRÁ SÉR LAGIÐ HERÐUBREIÐ OG HELDUR TÓNLEIKA Á AKUREYRI

0

Birta Rán

Hljómsveitin Ensími gaf út nýverið sína fimmtu breiðskífu ,,Herðubreið„. Sveitin hljóðritaði plötuna sjálf og sá Hrafn Thoroddsen um upptökustjórn. Platan var hljóðblönduð af Arnari Guðjónssyni hjá Aeronaut Studios og tónjöfnuð af Grammy verðlaunahafanum Mandy Parnell hjá Black Saloon Studios í Bretlandi. Linda Loeskow sá um hönnun umslags.

Fyrsta lagið af plötunni í spilun var ,,Aukalíf“ og vakti mikla lukku. Það náði á topp vinsældarlista X977 og situr þar enn þegar þetta er ritað.

Næsta lag sem fer í spilun af plötunni er titillag plötunnar ,,Herðubreið„.

 

 

Útgáfutónleikar á Akureyri

Ensími hélt vel heppnaða útgáfutónleika í Gamla Bíó í júní og mun halda sérstaka útgáfutónleika fyrir norðan á Græna Hattinum þann 23. Júlí næstkomandi. Sveitin mun leika Herðubreið í heild sinni ásamt vel völdum slögurum úr sarpi sveitarinnar. Hægt verður að versla plötuna á tónleikunum og fá hana áritaða af meðlimum Ensími. Forsala miða er hafin í Eymundsson.

Ensími mun einnig troða upp á Bræðslunni en löngu er orðið uppselt á hátíðina.

 

Hljómsveitin

Hljómsveitin Ensími var stofnuð árið 1996 til að svala þorsta liðsmanna í tónlistarsköpun. Í upphafi var ekki stefnan að gera eiginlega hljómsveit en eftir eðlilegan meðgöngutíma hljóðrituðu liðsmenn prufuupptökur af nokkrum lögum sem rötuðu í hendurnar á útgefendum sem vildu ólmir gefa efniviðinn út. Frumburður sveitarinnar „Kafbátamúsík“ leit dagsins ljós árið 1998 og hlaut einróma lof gagnrýnenda og tónlistarunnenda þrátt fyrir að sveitin hafði aldrei komið fram opinberlega og því ekkert þekkt. Hljómsveitin var valin bjartasta vonin og lagið ,,Atari“ var valið besta lagið á Íslensku tónlistaverðlaununum það árið. Haustið 1999 hófust upptökur á annarri plötu Ensími. Var hún að stórum hluta unnin af upptökustjóranum Steve Albini, sem þekktastur er fyrir starf sitt með sveitum eins og Nirvana og Pixies. Fyrir vikið hafði ,,BMX“ yfir sér hrárri hljóm að hluta heldur en frumburðurinn. Þriðja plata sveitarinnar var unnin af liðsmönnum Ensími og kom út árið 2002 og var samnefnd sveitinni. Fjórða platan „Gæludýr“ kom svo út árið 2010. Ensími er rómuð fyrir öflugan lifandi flutning enda liðsmenn fagmenn sem koma reglulega fram með helstu tónlistarmönnum samtímans. Ensími er sparsöm á tónleikahald og því sjaldgefið tækifæri að bera hana augum og eyrum þegar hún fer á stjá.

Hér er hægt að lesa um tónleikana á Akureyri á event síðu Ensími á facebook

Hrafn Thoroddsen – Söngur / Gítar

Franz Gunnarsson – Gítar / Söngur

Guðni Finnsson – Bassi / Söngur

Arnar Gíslason – Trommur

Þorbjörn Sigurðsson – Hljómborð / Söngur

 

https://www.reverbnation.com/ensimi

https://twitter.com/ensimi

https://www.youtube.com/user/icelandmusicfactory/videos

 

Comments are closed.