HJALTI OG LÁRA SENDA FRÁ SÉR PLÖTUNA „ÁRBRAUT“ OG HALDA TÓNLEIKA Á GRÆNA HATTINUM Í KVÖLD 25. ÁGÚST

0

hjalti og lára 2 ljósmynd Daníeli Starrasyni

Í dag senda Hjalti og Lára frá sér nýja plötu sem nefnist Árbraut. Nafnið Árbraut vísar í æskustöðvar Hjalta á Blönduósi, en hann er alinn upp við götuna Árbraut og reyndar býr stærsti hluti fjölskyldu hans enn við götuna. Árbraut er líka tákn fyrir eitthvað sem er stöðugt en síbreytilegt.

Árbraut er að mörgu leiti ólík fyrri plötu Hjalta og Láru, en á þeirri plötu fluttu þau að mestu lög og texta annarra. Á Árbraut er að finna tíu ný lög sem Lára og Hjalti hafa samið og útsett í sameiningu og í samstarfi við Stefán Örn Gunnlaugsson  upptökustjóra plötunnar. Þau flytja einnig Vornæturljóð Elísubetar Geirmundsdóttur og Hildur Eir Bolladóttir samdi texta við eitt laganna.

www.danielstarrason.com

Tónlistin er þjóðlagaskotið ballöðu popp með sinfónískum blæ á köflum. Á plötunni spila, ásamt Hjalta og Láru, Stefán Örn Gunnlaugsson, píanó, Ásdís Arnardóttir, selló, Ella Vala Ármannsdóttir, horn, Petrea Óskarsdóttir, þverflauta, Valgarður Óli Ómarsson, slagverk og Stefán Gunnarsson, bassi. Upptökur fóru fram á Akureyri í júní og var útgáfan  að hluta til fjármögnuð á Karolinafund.com.

Útgáfu Árbrauta verður fagnað á Græna Hattinum í kvöld fimmtudagin 25. ágúst kl. 21.00 og í Fríkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 26. ágúst kl. 20.30. Í september og október munu Hjalti og Lára ferðast víðsvegar um landið og halda tónleika.

Lára Sóley Jóhannsdóttir,  sem syngur og leikur á fiðlu, var kjörinn Bæjarlistamaður Akureyrir 2015-2016. Hún er konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og kemur reglulega fram með ýmsum tónlistarhópum á Íslandi og í Bretlandi. Hjalti Jónsson, sem syngur og leikur á gítar, starfar sem tónlistarmaður á Akureyri, en er einnig sálfræðingur.

Comments are closed.