HJALTI EGILSSON/CASANOVA

0
casa cover

Ljósmynd: Brynjar Snær

Hjalti Egilsson eða CasaNova eins og hann er kallaður er einn vinsælasti plötusnúður landsins en hann hefur þeytt skífum á öllum helstu skemmtistöðum landsins seinustu fimmtán árin. Albumm náði tali af CasaNova og sagði hann okkur frá hvernig hann byrjaði að plötusnúðast, hvar er skemmtilegast að spila og hvaða græjur hann notar svo fátt sé nefnt. 

CasaNova spilaði á Kaffibarnum á dögunum og gerði hann allt vitlaust!Albumm tók upp allt settið og hægt er að hlusta á það hér fyrir neðan.


Hvað ertu búinn að plötusnúðast lengi?

Ég er búinn að vera full on núna í um fimmtán ár.

Hvernig fékkst þú áhuga fyrir því að vera plötusnúður?

Þetta vakti fyrst áhuga minn þegar ég var um fjórtán ára gamall. Ég var með tvöfalt kassettutæki með cd spilara ég setti saman mix með því að pása á bassatrommu og setja annað lag á og setja upptöku af stað aftur á bassatrommu og það kom oft alveg furðuvel út.  Þegar faðir minn sá hvað ég var að gera og hversu mikinn áhuga ég hafði á þessu kom hann einn daginn heim með lítinn fjögurra rása mixer og gaf mér, mér til mikillar gleði. Tók ég þá gamlan Lenco plötuspilara sem hann átti og fékk annan plötuspilara lánaðan hjá vini mínum. Lenco spilarinn var með hreyfanlegri hraðabreytingu (pitch) þannig að ég gat alltaf mixað lagi af þeim spilara en því miður ekki öfugt (hlátur).

casa 3

Ljósmynd: Brynjar Snær

Hvað notarðu þegar þú ert að spila?

Lengi vel notaði ég bara SL-1200 Technics plötuspilara og Pioneer 800 mixer. Þegar ég fékk nóg af því að halda á þremur stórum plötutöskum og burðast með mína spilara og mixer hvert sem ég fór að spila skipti ég yfir í CD spilarana. í dag nota ég aðallega Pioneer CDJ-2000-Nexus spilara og Pioneer DJM-900-Nexus mixer sem er tölverð breyting frá því sem áður var þar sem ég þarf bara að vera með USB kubba sem ég tengi í spilarana og þá verður öll tónlistin aðgengileg.

Hvernig tónlist spilarðu?

Ég er hús-hundur þó ég spili mestmegnis Tech-house og Techno tengda tónlist þá er hún öll lituð af hústónlistar-rótunum mínum.  Elska flotta old school hústónlistar Vocals þannig að ég skýt því inní eins mikið og ég get í settunum mínum.

Hvar er skemmtilegast að spila?

Fyrir partýið þá er alltaf skemmtilegast að spila á Kaffibarnum. Þar stendur maður bókstaflega í mannhafinu með öllu fólkinu dansandi og spilar tónlist fyrir það. Ótrúleg tenging sem oft myndast þar við fólkið sem er þar inni. Þar spila ég líka meira af hústónlistinni og er aðeins mýkri.  Fyrir klúbbastemninguna finnst mér klárlega skemmtilegast að spila á Palóma.  Palli á Palóma er nýbúinn að setja upp eitt rosalegasta hljóðkerfi sem staður hefur upp á að bjóða hérna í Reykjavík. Function One kerfi og “soundar“ staðurinn svakalega! Ótrúlega gaman að spila á þeim stað.

casa1

Ljósmynd: Brynjar Snær

Ertu alltaf búinn að ákveða fyrirfram hvað þú ætlar að spila hverju sinni?

Já nokkurn veginn. Ég fer yfir það sem ég á og strúktura kvöldið aðeins.  Oftast ákveð ég bara hvað ég ætla að spila fyrst og svo þegar ég er búinn að lesa fólkið aðeins þá ákveð ég framhaldið.

Hvar nálgastu tónlistina sem þú spilar?

Hérna áður fyrr fór maður alltaf í Þrumuna og keypti vínyl af Grétari. Á þeim tíma byrjaði ég líka að nota netið og keypti mikið af vínyl af www.juno.co.uk.  Núna í dag nota ég tvær síður aðallega en þær eru: www.whatpeopleplay.com og www.beatport.com ég nota whatpeopleplay til að browsa og kaupi svo efnið af Beatport.

Hvaðan kemur nafnið Casanova?

Það var/er hefð hérna í DJ senunni að þú velur aldrei þitt fyrsta DJ nafn, þér er gefið það. Þannig að tveir af mínum bestu vinum, Árni Einar (Alfons X) og Stephan Stephensen (President Bongo) tóku sig til og gáfu mér þetta nafn á sínum tíma.  Merkingin sem þeir vildu leggja í þetta var „Nýtt Hús“  með tengingu í hústónlistina sem ég spila, CasaNuevo.

casa 4

Ljósmynd: Brynjar Snær

Hvernig er Dj menningin á Íslandi?

Mér sýnist hún vera að blómstra. Það er mikil gróska í gangi í dag. Sérstaklega með þeirri nýju tækni sem er að brjótast fram, sem gerir þetta aðeins auðveldara. í sumum tilfellum kannski einum of (hlátur). Ég held að það sé ekki mikið af nýjum DJ-um sem get staðið fyrir framan SL-1200 spilara og beatskipt.

Hvað er skemmtilegast við að vera plötusnúður?

Það er klárlega tengingin við fólkið þ.e. að fá svörun (feadback) frá fólkinu, sjá gleðina sem ég næ að búa til, hendur á lofti og öskur út í sal. Hef hreint út sagt ótrúlega gaman að þessu.

Facebook: https://www.facebook.com/pages/CasaNova/186635051385557

Soundcloud: https://soundcloud.com/hjalti

Resident Advisor: http://www.residentadvisor.net/dj/casanova

 Í BOÐI 

Logo HHTB cropped

 

Comments are closed.