HITTAST ALDREI OG LÍKAR EKKERT OFSALEGA VEL VIÐ HVORT ANNAÐ

0

AXXE er raftónlistardúó stofnað í Montreal í Kanada fyrir rúmum áratug. Meðlimir AXXE eru Stína Ágústsdóttir og Douglas Chow en þau búa í Stokkhólmi annars vegar og í Montreal hins vegar. Stína er betur þekkt sem jazzsöngkona af landanum og gaf út plötuna Jazz á íslensku fyrir tæpu ári síðan og hlaut tilnefningu til íslensku tónlistarverðlaunanna.

Stína og Douglas hittast aldrei og líkar í raun ekkert ofsalega vel við hvort annað. Samstarf þeirra er öðrum ráðgáta og ætti í raun ekki að ganga upp en ást á diskódívum áttunda áratugarins, pastellituðum legghlífum og sveittum kroppum á dansgólfinu gerir það mögulegt. Hljómsveitin heldur afskaplega sjaldan tónleika en lögin berast plötusnúðum um allan heim og trylla ófá dansgólfin.

AXXE gaf út sína fyrstu smáskífu, Mainstream (Mile End Records), árið 2010 og var nefnd ein af heitustu hljómsveitum ársins í Montreal Mirror í kjölfarið og var eitt af lögunum á plötunni m.a notað í Hugo Boss herferð sama ár. Önnur smáskífa grúppunnar, Sweet Stuff (On the Fruit Music), kom svo út ári seinna og innihélt remix eftir hljómveitir eins og Ride The Universe og Dreamtrak.

Þann 25. september s.l í samstarfi við Nylo Music í New York gaf AXXE svo út þriðju smáskífu sína, Want it All, en hún er strax komin upp í 24. sæti á lista Beatport yfir bestu nu disco/indie dance útgáfur. Á plötunni má svo finna remix eftir skemmtilega listamenn eins og She Said Disco og Aux tha Masterfader.

Soundcloud.

Skrifaðu ummæli