HILDUR KRISTÍN STEFÁNSDÓTTIR

0

hildur-7

Tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir er heldur betur búin að slá í gegn að undanförnu með laginu „I´ll Walk With You.“ Lagið fór í fyrsta sæti vinsældarlista rásar 2 og víðar og fóru viðtökurnar fram úr hennar björtustu vonum og er hún ennþá jafn hissa í hvert skipti sem hún heyri lagið í bílnum eða útí búð. Hildur er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hún okkur meðal annars frá því hvenær hún byrjaði í tónlist, hvernig er að eiga eitt vinsælasta lag landsins og hvað er framundan.


Hvenær byrjaði þinn tónlistaráhugi, hvenær byrjaðir þú að semja tónlist og hvernig kom það til?

Ég hef alltaf haft rosalega mikla þörf fyrir að skapa, sem barn var ég alltaf að búa eitthvað til, sögur, ljóð og myndir en ég held að ég hafi ekki fattað að ég gæti búið til tónlist þangað til ég var svona 12 ára og bað um Cubase tónvinnsluforrit í afmælisgjöf. Ég hef alltaf verið mjög áhugasöm um tónlist, síðan ég man eftir mér og fann snemma hvað tónlist hafði bein áhrif á mig og hvað söngur var tjáning sem lá beint við fyrir mig. Ég vildi sjúklega mikið læra á hörpu þegar ég var lítil en mamma sannfærði mig um að fara frekar að læra á selló því það var eitthvað erfitt að finna hörpukennara á þeim tíma. Ég lærði á selló í 8 ár en ég fann alltaf að mér fannst skemmtilegast þegar ég mátti skapa mín eigin lög og pæla, frekar en að læra einhver klassísk lög utan af. Fyrsta hljómsveitin sem ég byrjaði í var sveitin Parent með Héðni og Jóni Ben vinum mínum þegar  við vorum 15 ára og það var í kringum þann tíma sem ég tók líka í fyrsta skipti þátt í söngkeppni og prófaði að koma fram. Ég man samt að á þeim tíma var ég svo sjúklega óörugg og feimin að þótt ég elskaði að búa til tónlist var það að koma fram fyrir framan annað fólk hræðilega erfitt og ég man eftir að hafa hugsað að kannski væri það bara alls ekki fyrir mig. Það var nú samt einhver jákvæður fiðringur líka sem hélt í mig og það er fyndið til þess að hugsa hvernig þetta getur umturnast því núna er það að vera uppi á sviði það skemmtilegasta sem ég geri!

hildurv

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hverjir hafa verið þínu helstu áhrifavaldar í gegnum tíðina og hvað veitir þér innblástur?

Fyrstu tónlistarmennirnir sem ég virkilega spáði í voru Bítlarnir. Pabbi hlustaði mikið á þá og ég tók eftir hvernig hann söng alltaf með bassalínunni og fór að gera það líka. Þá fór ég að spá í hvað það væri margt að gerast í hverju lagi og fannst það sjúklega áhugavert. Ég elskaði líka hvað Bítlarnir gerðu bara lög í öllum tónlistarstefnum og það kenndi mér að meta allskonar stíla. Svo man ég líka sterkt eftir upplifuninni þegar ég hlustaði almennilega á Björk í fyrsta sinn. Hún var nýbúin að gefa út Homogenic, ég var 9 ára og ég gjörsamlega kolféll fyrir laginu Jóga. Ég man að ekkert lag hafði haft jafn mikil áhrif á mig og ég fór að semja einhverja tjáningardansa til að reyna að koma öllum tilfinningunum út (hlátur)! Mér fannst líka svo áhugavert að fylgjast með ímyndinni og visual partinum af tónlistinni sem Björk vann svo sterkt með. Ég fæ rosalega mikinn innblástur frá hverju sem er. Ég get heyrt bara random hljóð í sundi og ákveðið að nota svona hljóð í næsta lag sem ég geri. Ég elska líka bara að  hlusta á allskonar tónlist og fá innblástur þótt ég vilji svo gera allt öðruvísi lag t.d fæ ég mikinn innblástur úr rappi þótt mig langi ekkert að gera rapplag. Mér finnst líka rosalega hvetjandi að fylgjast með flottum kvenkyns lagahöfundum og pródúsentum því að því miður eru konur í rosalegum minnihluta þar en þessvegna finnst mér t.d ótrúlega gaman að fylgjast með Grimes og Låpsley sem eru báðar að pródúsera mikið af eigin dóti.

hildur-10 (1)

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á og hvað gerir góða tónleika að þínu mati?

Eftir að ég byrjaði á þessu sólóverkefni hef ég reyndar bara spilað á 2 tónleikum sem eru báðir jafn eftirminnilegir, Sónar og svo tónleikar sem ég skipulagði á Húrra. Það eru algjörir töfrar sem fylgja því að spila í fyrsta sinn ný lög og það fann ég svo ótrúlega sterkt þegar ég var að frumflytja þetta verkefni. Að sama skapi var til dæmis ótrúlega gaman þegar ég spilaði á seinni tónleikunum og „I’ll Walk With You“ var orðið vinsælt að heyra allan salinn syngja með. Maður verður klökkur þegar það gerist í fyrsta sinn! Annars hef ég örugglega samtals spilað mörghundruð tónleika með Rökkurró á þessum 10 árum sem bandið hefur verið virkt svo að ég á rosalega erfitt með að velja eina eftirminnilegustu tónleika! Mér finnst það alltaf vera mjög sterk upplifun þegar tengingin við tónleikagestina er mikil. Þannig að litlir og fámennir tónleikar geta jafnvel verið meira powerful en í einhverjum risasal með öflugu hljóðkerfi.

hildur-9

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvaða fimm plötur hafa haft áhrif á þig sem tónlistarmann og getur alltaf skellt á fóninn?

1. Portishead-Dummy

Sennilega sú plata sem ég hef hlustað oftast á í lífinu. Hún náði mér fyrst þegar systir mín var alltaf að hlusta á hana þegar ég var lítil og ég stal henni úr herberginu hennar og lá svo dáleidd og hlustaði. Mörgum árum seinna fattaði ég að þetta var platan sem ég var alltaf að stela frá henni og ég hef haldið mikið upp á hana síðan. Beth Gibbons mótaði líka frekar mikið söngstílinn minn á tímabili.

2. Kanye West – My BeautifulDark Twisted Fantasy

Ég kolféll fyrir þessari plötu og finnst hún ennþá ein af allra bestu plötum sem ég hef heyrt. Hún er bara svo mikið listaverk á mörgum levelum og opnaði augu mín fyrir hversu mikið er hægt að vinna með listformið sem plata er.

3. Björk – Homogenic

Ein besta Bjarkar platan og ótrúlega tímalaus í rauninni. Þessi plata kveikti á ást minni til Bjarkar.

4. Fleetwood Mac – Rumours

Sagan bakvið þessa plötu gerir hana þúsund sinnum áhugaverðari. Það er magnað að lesa sér til um  það og hlusta svo á textana og tilfinningarnir. Svo eru lagasmíðarnar bara ótrúlega góðar, það eru eiginlega bara slagarar á þessari plötu.

5. Jon Hopkins  – Immunity

Fyrsta electro platan sem heillaði mig uppúr skónum. Það eru ótrúlegar tilfinningar í þessari plötu og ég get bara alls ekki fengið leið á henni. Mér finnst líka svo ótrúlega gaman að hlusta á Jon Hopkins tala um tónsmíðar og tónlist – mæli með, ég er algjör „fangirl!“

hildur-13

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Er einhver ein tónlistarstefna sem hefur fylgt þér alla æfi og hvernig tónlist hlustar þú á í dag?

Popp! Ég hef átt allskonar tímabil, allt frá hörðu hardkor og pönk-tímabili þegar ég snoðaði mig og mætti á endalaust marga tónleika í Kaffi Hljómalind yfir í algjört indítímabil og yfir í dubstep tímabil og ég veit ekki hvað og hvað. Mér finnst oft gaman að sökkva mér inn í nýjar stefnur og spá í þeim. En það er ein stefna sem ég fæ ekki nóg af og hef alltaf haldið upp á – og  það er popp, bara spurning hversu mikið ég hef viðurkennt það svona í gegnum tíðina! Mér finnst eitthvað ótrúlega magnað við hvernig popptónlist nær til svona ótrúlega stór hóps – það er svo mikil fegurð í einfaldleika og endurtekningu. Eftir að ég fór svo að gera popptónlist síðasta árið hefur það bara aukið ennþá meira á poppástina og ég er farin að kryfja popptónlist ennþá meira. Annars hlusta ég eiginlega mest á hip hop og elektró og hef eiginlega alveg lagt allt rokk á hilluna núna.

hildur-18

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Þú sendir frá þér lagið „I´ll walk with you“ ekki fyrir svo löngu og er það eitt vinsælasta lag landsins um þessar mundir. Komu viðtökurnar þér á óvart og hefur þetta breytt einhverju fyrir þig?

Já viðtökurnar fóru fram úr mínum björtustu vonum, ég er ennþá jafn hissa í hvert skipti sem ég heyri lagið í bílnum eða útí búð! Ég vissi að lagið væri grípandi en að sama skapi vissi ég ekkert hvernig fólk myndi kveikja á laginu. Það sem kemur mér mest á óvart er hversu breiður hópur virðist hlusta. Ég er oft að fá snappchöt af börnum að syngja lagið og svo eru gamlar frænkur úti á landi líka alveg að missa sig og allt fólkið þarna á milli líka. Það er magnað. Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég gef út „hresst” lag og það er svolítið skemmtileg reynsla fyrir mig, því það er eitthvað svo geggjað við að gera lag sem kemur fólki í gott skap. Rökkurró var ekki mikið í partíslögurum við vorum meira í að gera lög sem fengu fólk til að gráta og Eurovision lagið sem ég samdi var líka frekar þungt popplag. Þetta hefur því ýtt mér út í að prófa mig meira áfram í glöðu tónunum og ég get fullyrt það að næsta  lag sem ég er að vinna í er í sama hressa dúr – sem passar fullkomlega svona í byrjun sumars!

Eru fleiri lög á leiðinni og er kannski plata í bígerð?

Já ég er að vinna á fullu núna í næsta lagi sem ég ætla að gefa út fyrir sumarið. Í stærra samhenginu er ég líka að vinna í EP plötu. Ég er ekkert búin að ákveða með útgáfu en ég er allavega komin langt á leið með að vinna öll lögin og er virkilega spennt að deila því með heiminum.

Hvað er framundan hjá þér?

Ég er að plana sumarið bara núna, ég er mjög spennt að spila slatta í sumar og hafa gaman. Næsta mál á dagskrá er svo að klára þetta lag sem ég er að vinna í sem næsta single og gera vídeó við það. Það skiptir mig máli að gera flott vídeó líka – það er mikið listform að láta það tala með laginu og gott vídeó getur gert lagið sjálft bara betra!

Hægt er að fylgjast nánar með Hildi hér:

https://www.facebook.com/hihildur

https://twitter.com/hihildur

https://www.instagram.com/hihildur/

https://soundcloud.com/hihildur

Comments are closed.