HIÐ ÍSLENSKA GÍTARTRÍÓ Á HÁSKÓLATÓNLEIKUM 11. NÓVEMBER

0

Hið íslenska gítartríó

Hið íslenska gítartríó skipa Svanur Vilbergsson, Þórarinn Sigurbergsson og Þröstur Þorbjörnsson. Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 miðvikudaginn 11. nóvember í Kapellu Háskóla Íslands. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Hið íslenska gítartríó var stofnað 2011 og hefur verið leiðandi hópur í flutningi á klassískri gítartónlist. Það hefur flutt ný íslensk verk, samin fyrir hópinn, ásamt þekktari verkum tónbókmenntanna og þannig markað sér sérstöðu á alþjóðlega vísu og fjölgað verkum fyrir þessa hljóðfæra­samsetningu svo um munar. Af fyrri verkefnum tríósins má nefna tónleika í Hofi á Akureyri og afmælistónleika Olivers Kentish í fyrra. Á næstu misserum heldur hópurinn svo til Toronto og Kaupmannahafnar þar sem frumflutt verða þrjú ný íslensk verk.

Svanur Vilbergsson hóf gítarnám sitt við Tónlistarskóla Stöðvarfjarðar og Tón­listar­­skólann á Egils­stöðum. Sautján ára hélt hann til náms við King Edwards VI mennta­skólann í Totnes þar sem gítarkennari hans var Colin Spencer og útskrifaðist þaðan af tónlistar- og líffræðibraut árið 2001. Þaðan hélt hann til Spánar og sótti þar einkatíma hjá Arnaldi Arnarsyni. Árið 2002 hóf Svanur nám hjá ítalska gítarleikaranum Carlo Marchione við tónlistarháskólann í Maastricht og lauk þaðan B.Mus.-prófi vorið 2006. Sama ár hóf hann meistara­nám hjá Enno Voorhorst við Konunglega tónlistarháskólann í Haag sem hann lauk vorið 2008. Þá hefur hann einnig sótt tíma hjá Sonju Prunnbauer í Freiburg.
Svanur hefur haldið einleikstónleika austan hafs og vestan. Honum er reglu­­lega boðið að spila í Casa Eulalia tónleikaröðinni á Mallorca og á nútíma­tónlistar­hátíðinni Klanken Festival í Maastricht. Á meðal nýlegra verkefna hafa verið tónleikar á Inishowen International Guitar Festival á Írlandi, Semersooq gítar­hátíðinni á Grænlandi og Sommer Melbu hátíðinni í Noregi. Hann hefur komið fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum og á Spáni og var valinn fyrir Íslands hönd til þátttöku í norsk-íslenska menningarverkefninu Golfstraumurinn. Spænska tónskáldið Mateu Malondra Flaquer hefur tileinkað honum verk fyrir ein­leiks­gítar og í febrúar 2014 frumflutti hann ásamt Kammersveit Reykja­víkur gítarkonsertinnHalcyon Days eftir Oliver Kentish sem hann tileinkaði Svani. 2011 kom út fyrsti einleiksdiskur Svans, „Four Works“ og hefur honum verið einkar vel tekið. Svanur er listrænn stjórnandi alþjóðlegu gítarhátíðarinnar Midnight Sun Guitar Festival. Hann kennir klassískan gítarleik við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónlistarskólann í Reykjavík og LHÍ.

Þórarinn Sigurbergsson lærði á gítar hjá Eyþóri Þorlákssyni í Tónlistar­skóla Hafnar­fjarðar og útskrifaðist 1980. Hann stundaði framhaldsnám hjá José Luis González í Alcoy frá 1980 til 1984. Einnig hefur hann sótt einkatíma og master­klassa hjá Manuel Barrueco, heimskunnum gítarleikara. Sumarið 2010 naut hann leiðsagnar Ignacio Rodes í Alicante. Þórarinn hefur spilað á fjölda einleiks- og samspilstónleika, m.a. með Kammersveit Reykjavíkur og sem einleikari með Sin­fóníu­hljómsveit áhugamanna. 1987 kom út hljómplata með leik hans. Árið 2010 frumfluttu Þórarinn og Signý Sæmundsdóttir verkið „Fjórar Shakespeare–Sonnettur“ eftir Oliver Kentish. Hann hefur verið dómari í alþjóð­legri gítarkeppni og og kennt á alþjóðlegri gítarhátíð. Þórarinn sinnir nú kennslu.

Þröstur Þorbjörnsson gítarleikari útskrifaðist úr kennaradeild Tónskóla Sigur­sveins D. Kristinssonar 1994. Hann hefur verið virkur þátttakandi á meistara­nám­skeiðum hjá Manuel Barrueco og David Russell. Þröstur hóf gítar­kennslu að námi loknu. Hann hefur kennt við ýmsa skóla, nú við Tónlistarskóla Hafnar­fjarðar og í námsflokkum Hafnarfjarðar.

Hið íslenska gítartríó flytur ný íslensk verk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur og Hróðmar Inga Sigurbjörnsson. Verkin hafa ekki áður verið flutt hérlendis.

Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson lauk tónsmíðaprófi frá Tónlistar­skólanum í Reykja­vík árið 1984; kennarar hans voru Þorkell Sigur­björns­son og Atli Heimir Sveinsson. Hann stundaði framhaldsnám í tón­smíðum hjá hollenska tónskáldinu Joep Straesser við konservatoríið í Utrecht en þaðan lauk hann prófi 1988. Síðan þá hefur hann unnið sem tónskáld auk þess að sinna kennslu í tónsmíðum og tónfræðum. Hann er nú lektor og fagstjóri í tónsmíðum við tónlistardeild LHÍ. Hróðmar hefur samið verk fyrir einleikshljóðfæri, kammer­hópa af ýmsum toga og kóra en líka hljómsveitarverk, konserta og óperu auk tónlistar fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir. Fjórar þriggjagítarastúdíur voru samdar á liðnu sumri fyrir Hið íslenska gítartríó. Í verkinu fléttast ýmsar stúdíur tónsmíðalegs eðlis við þær sem lúta að tæknilegum atriðum gítarsins.

Elín Gunnlaugsdóttir lauk tónsmíðanámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1993. Kennarar hennar voru Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Guðmundur Haf­steins­son. 1998 lauk hún framhaldsnámi frá tónlistar­háskólanum í Den Haag. Kennarar hennar voru Theo Loevendie og Diderik H. Wagenaar. Elín hefur samið kammer­og söngverk og hún hefur skrifað verk fyrir þekkta innlenda og erlenda hópa. Verk hennar hafa verið flutt hér heima og erlendis. Hún hefur þrisvar verið staðar­tónskáld sumartónleika í Skálholti. Síðustu ár hefur Elín skrifað tónlist fyrir börn. Tónlistar­ævintýrið „Englajól“ kom út á diski árið 2012 og snemma á þessu ári var frumsýndur söngleikurinn „Björt“ í sumarhúsi eftir Elínu og Þórarin Eldjárn og fékk sýningin afar góða dóma. Hún vinnur nú að nýju tónlistarævintýri fyrir rödd og sinfóníuhljómsveit.

 

Comments are closed.