„Hélt ég myndi aldrei vera svona spenntur yfir bangsa“

0

Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson var að senda frá sér brakandi ferskt myndband við nýútkomið lag sitt „Lost.“ Lagið er nú þegar byrjað að gera góða hluti í íslensku útvarpi en það er ansi skemmtileg saga bakvið myndbandið!

„Það var á sólríkum sunnudegi (ekki í Júní) sem hann Jón spurði mig á fésbókinni hvort ég gæti búið til myndefni fyrir nýja lagið sitt Lost. Mér leyst vel á verkefnið og settist um borð í Lost lestinni.“ – Jakob Þórhallsson leikstjóri myndbandsins.  

Leikstjórinn segir að hann hafi langað að gera myndband með Jóni. Honum fannst Jón svolítið bangsalegur og ákvað því að finna bangsa á netinu fyrir myndbandið!

Talsvert langur tími fór í að stúdera bangsa, enda aragrúi af mismunandi böngsum til og margir þeirra fokdýrir!

„Nokkrir dagar líða og ég finn bangsa sem er rosa sérstakur. Hann var fullkominn. Ég starði örugglega á bangsann í 30 mínútur því hann var svo flottur. Hélt ég myndi aldrei vera svona spenntur yfir bangsa.“ – Jakob Þórhallsson

Tekið var á það ráð að fjárfesta í þessum einstaka bangsa sem er númer 474 af 1000 sinna tegundar og honum flogið frá Los Angeles til London. Einnig var breskur bangsi pantaður frá sama fyrirtæki sem var eini bangsinn sem var til í London af sinni tegund. Það var bangsinn með sólhlífinni.

Um leið og bangsarnir, kvikmyndatökuvélin og allt var tilbúið var farið út á götu og skotið stanslaust í fjóra daga. Að sögn leikstjóranna var ótrúlegt að skjóta úti á götunni og sjá viðbrögð fólks. Það var eins og allir vildu vita söguna af þessum bangsa. “What’s this for?!” “What should I google,” “This is so cute” o.s.frv.

Ævintýrið hélt áfram þegar svo kallaði “Beast from the East” stormur skall á en það var akkúrat í miðjum tökum. Tökurnar af leikvellinum og af sólríku byggingunum eru teknar með 30 mínútna millibili á sama stað í Lundúnum.

Myndbandið er unnið af tvíburabræðrunum Jakobi og Jónasi Þórhallssonum og Patricia García Buenaventura. Jón Jónsson er höfundur lags og texta. Pálmi Ragnar Ásgeirsson stjórnaði upptökum.

Jonjonsson.is

Skrifaðu ummæli