Heimsklassa jazzleikarar spila fyrir íslendinga

0

Ný tónleikaröð hófst í Salnum í Kópavogi í síðasta mánuði með tónleikum bandaríska jazz píanistans Marc Copland. Tónleikaröðin ber titilinn Jazz í Salnum og eru 5 tónleikar framundan þetta tímabilið.

Föstudaginn 16. Nóvember næstkomandi mun franski píanistinn Jacky Terrasson koma fram og spila einleik í Salnum. Jacky sótti Ísland heim síðast 1997 er hann lék á RúRek Jazzhátíðinni á Hótel Sögu. Samkvæmt franska tímaritinu Telerama er hann píanisti hamingjunnar og sækir efnivið í franska tónlist, jazz standarda, Bítlana og fleira. Jacky fellir saman það skemmtilegasta frá bestu píanistum sögunnar við sína eigin nálgun með ferskleika og gleði. Hann bar sigur úr býtum í Thelonious Monk Piano Competition 1993 og bauðst sæti í hljómsveit Betty Carter í framhaldi. Jacky hljóðritaði nokkur albúm fyrir Blue Note en færði sig svo yfir til Universal útgáfunnar.

Jacky hefur ætíð töfrað hlustendur með samvinnu sinni við t.d. Dee Dee Bridgewater, Dianne Reeves og Jimmy Scott m.a. eða með leik sínum fullum eldmóðs og innlifunar ásamt tríó sínu sem var talið eitt hið besta undir lok 20. aldarinnar. Jacky fellir saman það skemmtilegasta frá bestu píanistum sögunnar við sína eigin nálgun með ferskleika og gleði.

Mánuði seinna eða 16. des koma fram tveir fremstu jazz píanistar Ítalíu af yngri kynslóðinni og eiga samtal á tvo flygla. Það eru þeir Giovanni Guidi og Alessandro Lanzoni. Þeir koma nær beint frá Jazzhátíð Lundúna til Íslands. Guidi hefur hljóðritað fyrir ECM útgáfuna og Lanzoni fyrir CAM JAZZ en báðir eru snillingar í túlkun jazz standarda, dægurlaga og frjálsum spuna. Leikur þeirra einkennist af lýrík, ástríðu og spennu.

Eftir áramót, þann 17. febrúar, mun gítargoðsögninni John Scofield koma fram en hann er að fara í fyrsta skipti í einleiks-tónleikaferð eftir langan feril þar sem hann hefur heillað unga sem aldna með einstökum stíl sem fellur einhvers staðar á milli post-bop, fönkaðs jazz og ritmablús.

„Ég hef alltaf fundið mig best sem hluti af hljómsveit, þar sem hljóðfæraleikarar eru að hlusta hver á annan og skapa tónlist saman. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hef ég forðast að spila einleik þar til nú, og ég hef aðeins einu sinni komið fram einsamall opinberlega síðan að ég var barn. Að spila Greensleeves fyrir bekkinn minn þegar ég var 12 ára gefur mér enn martraðir stöku sinnum. Það er frekar einmanalegt að spila einsamall og ég hafði aldrei íhugað einleik sem fullkomna nálgun fyrir spuna. Þar að auki er ég enginn Segovia! (gítar virtuos). Þrátt fyrir allt þetta, eftir að hafa leikið á gítar í 56 ár, þá er ég loksins tilbúinn að leggja í hann einsamall.„ – Scofield

Það tók Scofield áratug að fatta að hann hefur verið að spila einsamall heima eða í hótelherbergjum á hverjum degi síðan 1962! Hann velti því mikið fyrir sér hvernig hann gæti sett fram heila tónleika af einleik með ástríðu og skynsemi.

„Mín hugmynd er að byggja leikinn á lögum, spila jazz, country og rokk lög sem ég elska í bland við mínar eigin tónsmíðar. Ég stefni á að nota Looper pedalinn minn á stöku stað til að búa mér til undirleik sem ég spila svo yfir. Ég hef verið að undirbúa mig í næstum því eitt ár þar sem ég beini fókus mínum í nýja átt með tilhlökkun og ögn af kvíða. Ég vona að þú njótir að verða samferða mér í þessu verkefni.” – Scofield

Þann 8. mars kemur annar píanisti frá Ítalíu, Rita Marcotulli, en hún hefur verið í fremstu röð ítalskra jazzleikara síðustu 30 ár.  Hún hefur komið fram víða um heim með fremstu jazzleikurum Bandaríkjanna og Evrópu eins og Pat Metheny, Peter Erskine, Joe Henderson, Palle Danielsson og lengi mætti telja. Hún er fágaður píanisti með melódíska nálgun og sækir innblástur jafnt í jazzhefðina sem og brasilíska og afríska tónlist.

Þann 26. mars leikur svo breski píanistinn Gwilym Simcock. Hann þykir einn hæfileikaríkasti píanistinn á evrópsku jazzsenunni. Hann fer áreynslulaust milli jazz og klassískrar tónlistar með harmonískri fágun og hefur verið hampað sem píanista með frábæra og jafnt töfrandi hæfni. Leikur hans er spennandi, óvæntur, melódískur, aðgengilegur og óheyrilega bjartsýnn. Simcock vermir píanóstólinn í kvartett Pat Metheny’s og kom fram með honum á Íslandi 2017.

Salurinn býður afslátt ef keyptir eru miðar á þrenna eða fleiri tónleika í röðinni í einu. Hægt er að nálgast miða á Tix.is

Skrifaðu ummæli