HEIMA Í HAFNARFIRÐI Á BJÖRTUM DÖGUM

0

bjartir 2

Menningarhátíðin Bjartir dagar verður sett síðasta vetrardag, 20. Apríl og munu hátíðarhöld standa yfir til sunnudags. Hátíðin hefst með tónlistarhátíðinni HEIMA á miðvikudagskvöld þar sem fjöldi tónlistarmanna treður upp í fjórtán heimahúsum miðsvæðis í Hafnarfirði. Fyrirkomulag tónlistarhátíðarinnar er mjög frjálslegt þar sem tónlistargestir rölta á milli húsa og hlýða á ljúfa tóna heima í stofum húseigenda.

Leikskólalist færir hátíðlegan blæ yfir bæinn

Á Björtum dögum í ár er sérstök áhersla lögð á barnamenningu og þátttöku barna og unglinga og er  Sumardagurinn fyrsti, sem er í umsjá skátafélagins Hraunbúa, hluti hátíðahaldanna. Leikskólabörn taka virkan þátt í undirbúningi Bjartra daga og skreyta fyrirtæki, verslanir og stofnanir í Hafnarfirði með list sinni.  Þannig sér Leikskólinn Arnarberg um að skreyta Verslunarmiðstöðina Fjörð, Leikskólinn Hamravellir um að skreyta Ásvallalaug og Leikskólinn Norðurberg um að setja glaðlega steina í gosbrunn við Hrafnistu. Allir leikskólar í Hafnarfirði taka þátt í verkefninu og færa þannig hátíðlegan listablæ yfir bæinn. Hægt er að velja á milli rétt um 50 viðburða og sýninga sem í boði verða á Björtum dögum; samsöngur, sýningar, hlaup, söguganga, ömmu- og afabíó, samflot og hæfileikakeppni.

bjartir 3

bjartir

Gakktu í bæinn – kindarlegt keramik og laglegir leirmunir

Á föstudagskvöld verða söfn og vinnustofur listamanna í Hafnarfirði opnar fram á kvöld þar sem kindarlegt keramik, laglegir leirmunir og handverk og vopn víkinga verður meðal þess sem hægt verður að skoða. Listalífið í Firðinum er mikið og margbreytilegt. Opið verður m.a. í Íshúsi Hafnarfjarðar þar sem 28 hönnuðir, lista- og handverksfólk eru með aðstöðu fyrir vinnu sína og sköpun. Allt er þetta í göngufæri og því tilvalið að rölta á milli og njóta þess sem listafólk bæjarins hefur upp á að bjóða.

Comments are closed.