HEIÐAR ÖRN KRISTJÁNSSON

0

Heiðar Örn Kristjánsson ættu allir að kannast við en hann hefur t.d. gert allt brjálað með  hljómsveitum eins og Botnleðju og Pollapönk. Kappinn kom í viðtal hjá Albumm.is og sagði okkur frá hvernig hann byrjaði í tónlist, hvernig það var að vinna músíktilraunir og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.

Photos of the Icelandic band Botnledja performing live during ATP Iceland music festival at Ásbrú, the former NATO base in Keflavík, Iceland. June 28, 2013.

Hvenær byrjaðir þú að braska í tónlist og hvernig kom það til og var gítar þitt fyrsta hljóðfæri?

Held ég hafi verið í kringum 10 ára þegar ég fékk gítar í afmælisgjöf. Mig var búið að dreyma um BMX hjól í afmælisgjöf en fékk gítar. Snerti ekki mikið á honum fyrstu árin en byrjaði eitthvað að gutla á hann um fermingu. Kenndi sjálfum mér á gítar upp úr Led Zeppelin bók.

Er Botnleðja þín fyrsta hljómsveit og hvernig kom stofnun hennar til?

Við Raggi og Halli stofnuðum fyrst hljómsveit með vini okkar honum Unnari ca 1992. Sú hljómsveit fékk hin ýmsu nöfn eins og t.d. Utopia og the bland. Tveimur árum síðar hætti bandið og við Raggi förum í hljómsveitina “Rusl” með tveimur öðrum og Halli í hljómsveitina “Amma rúsína.” Þessar hljómsveitir leysast svo upp og undir lok 1994 ákveðum við Raggi að stofna hljómsveit og lá beint við að Halli yrði með í því. Hljómsveitin “Botnleðja” verður til. Við ákváðum strax að taka þátt í Músíktilraunum sem við gerðum og unnum 1995.

leðja

Raggi, Heiðar og Halli

Eftir að vinna músíktilraunir verðið þið súperstjörnur, hvernig fannst ykkur sú athygli og var rokklífsstíllinn tekinn alla leið?

Þetta var mjög skemmtilegur tími. Það einhvern veginn umturnaðist allt á einni nóttu við þennan sigur. Gruggið var í algleymingi en samt einhver ládeyða yfir íslensku rokki. Við vorum á réttum stað á réttum tíma og rokkþyrstir unglingar kokgleyptu leðjuna. Rokklífsstíllinn var nú ekkert svakalegur en við gerðum okkar besta.

Einnig fóruð þið slatta erlendis að spila og túruðuð meðal annars með Blur, hvernig voru þessar ferðir og áttu ekki eina góða rokksögu?

Blur túrinn var náttúrulega bara geðveikur. Þetta var í fyrsta skipti sem við spiluðum erlendis, Leðjan fór beint í djúpu laugina. Þetta var þvílíkt ævintýri. Við vorum að hita upp fyrir eina stærstu hljómsveit í heimi á þessum tíma! Við fórum svo nokkrum sinnum í meikferðir til útlanda, vorum mánuð í LA, hituðum upp fyrir “Sparta” í evróputúr og vorum mikið í Englandi og skandinavíu að spila. Þetta var allt saman alveg ógeðslega skemmtilegt.

Eftir Botnleðju gerir þú The Viking Giant Show hvað geturu sagt mér um það verkefni og fær fólk að heyra eitthvað meira frá því?

Þegar Botnleðja hætti fór ég í frí en hélt samt áfram að semja tónlist og stofnaði The Viking Giant Show til að “tappa af” þessum hugmyndum. Hóaði í gamla félaga úr Flensborg til að spila með mér og vinna að þessari plötu. Stefnan er að gera eitthvað meira með Víkinginn, það er allavega til nóg af efni.

Nú þekkja þig margir sem meðlim hljómsveitarinnar Pollapönk, hver er munurinn á að vera í Pollapönk og Botnleðju?

Munurinn er í raun ekki mikill. Þetta er alveg sama dínamíkin bara yngri aðdáendur.

Pollapönk fór fyrir hönd Íslands í Eurovision, hvernig fannst þér það ævintýri og mundiru fara aftur ef þér væri boðið það?

Það var mjög sérstakt að stíga inn í Eurovision-heiminn en mjög skemmtilegt. Þessi heimur er engu líkur og ekkert í líkingu við þann tónlistarheim sem við komum úr. Þetta er hálfgerður sirkus. Ég skemmti mér konunglega í þessari ferð enda ekki annað hægt verandi í þessum félagsskap sem ég var í. Já ég væri alveg til í að gera þetta aftur.

pollaponk-banner-image

Á hvaða tónlist ertu að hlusta á þessa dagana og hvaðan færð þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Ég hlusta mikið á tónlist og er Spotify besti vinur minn. Í dag er ég mikið að hlusta á nýjustu plötu Jacco Gardner sem er frábær. Nýja Tame Impala platan er líka góð og fær að rúlla um þessar mundir. Svo dettur maður líka í nett nostalgíu köst annað slagið. Annars er ég algjör tónlistarfíkill og er alltaf leitandi.

Ef það væri heimsendir eftir klukkutíma hvaða plötu mundiru skella á fóninn og af hverju sú plata?

Sú plata sem mér þykir hvað vænst um er “I see a darkness” með BonniePrinc Billy. Algjört meistarastykki frá A til Ö! Þessir textar og þessi hljóðheimur koma mér alltaf á góðan stað þrátt fyrir þennan drunga sem svífur yfir plötunni. Ég sá hann flytja þetta efni á gamla Gauknum þegar hann kom hérna fyrst ca 1995-96 og eru það enn þann dag í dag mínir uppáhalds tónleikar. Þessi tónlist hentar ákaflega vel þegar heimsendir er í nánd!

heiðar 2

Hvað er svo framundan hjá þér?

Framundan er að klára nýja Pollapönk plötu sem á að lýta dagsins ljós í vetur. Einnig er hljómsveitin Skrímslin, sem ég er í, að leggja lokahönd á barnadisk sem unnin er upp úr ljóðabók sem heitir “Súrsæt skrímsli” og á að koma út fyrir jól. Svo er brjálað að gera í hittaraframleiðslu hjá Mannakjötinu en þessi hljómsveit var til í Eurovisionlandi og spilar einhverskonar Eurovision-metal! Svo erum við Raggi alltaf eitthvað að bauka saman og aldrei að vita nema að það komi eitthvað út úr því.

https://www.facebook.com/pollaponk?fref=ts

https://www.facebook.com/botnledja?fref=ts

https://twitter.com/pollaponk

 

 

 

Comments are closed.