HEIÐA BIRGISDÓTTIR

0

heida-4

Heiða Birgisdóttir er margt til lista lagt en hún hefur komið víða við á viðburðarríkum ferli. Heiða stofnaði fatamerkið Nikita ásamt Rúnari Ómarssyni en merkið fór sigurför um heiminn. Heiða sagði skilið við Nikita ekki fyrir svo löngu og hannar nú undir merkjum Cintamani. Heiða er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hún okkur frá Nikita ævintýrinu og hvernig það byrjaði allt saman, snjóbrettaiðkun sinni og nýja starfinu hjá Cintamani svo fátt sé nefnt.


Hvernig kom til að þú fórst að hanna og búa til föt og hefur tíska alltaf vakið áhuga þinn?

Ég hef alltaf haft gaman að því að skapa eitthvað, teiknaði mikið sem barn og unglingur. Ég ætlaði mér lengi að verða listmálari. Var í Fjölbraut í Breiðholti á myndlistabraut og ætlaði mér síðan í meira listnám. Ég hafði alltaf gaman af því að eiga flott föt sem barn en var ekkert mikið að spá í því fyrr en í framhaldsskóla.  Ég fór að prufa mig áfram við að sauma fyrir sjálfa mig, sem þróaðist útí það að ég var farin að sauma og hanna fyrir aðra. Ég tók smá pásu eftir fjölbraut og fór að vinna í tískuverslunum í smá tíma og fékk þá smá saman enn meiri áhuga á tísku og hönnun. Ég stefndi síðan á fatahönnunar nám erlendis.

heida-31

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Þú stofnaðir fatamerkið vinsæla Nikita. Hvenær og hvernig kom það ævintýri til og kom velgengnin þér á óvart?

Ok, í mjög stuttu máli: Árið 1996 keypti ég hlut í versluninni Týnda Hlekknum sem seldi þá snjóbretta varning og fjallahjól. Fljótlega breyttum við búðinni í snjóbretta og hjólabretta búð. Ég var þá ný byrjuð að renna mér á snjóbretti og varð fljótt algerlega forfallinn, var alltaf uppí fjalli að renna mér. Það snérist hreinlega allt um snjóbretti. Við fluttum inn mikið af vörumerkjum aðallega frá Bandaríkjunum, snjóbretti, hjólabretti og allt tilheyrandi eins og fatnað og skó. Ég fann fljótlega fyrir því að það var ekki mikið til af slíkum varningi fyrir stelpur sem stunduðu sportið á þessum tíma, þá sérstaklega var vöntun á fatnaði, bæði til að vera í uppí fjalli og götufatnaði. Þar sem áhuginn var mikill fyrir því að hanna og sauma fór ég að prufa mig áfram með flíkur fyrir búðina. Þetta voru aðallega hettupeysur sem voru úr flísefni. Þær voru hugsaðar til að nota uppí fjalli undir jakkann og síðan bara við gallabuxurnar þegar maður var ekki í fjallinu. Þessar peysur urðu fljótlega ótrúlega vinsælar og fljótlega vorum við farin að láta framleiða þær á saumastofu fyrir norðan í töluverðu magni. Um 1998 var vörulínan orðin aðeins breiðari og við búin að finna henni nafnið Nikita. Nikita var þá orðið eitt mest selda vörumerkið í búðinni okkar. Þarna vorum við farin að spá hvort ekki væri vöntun á svona vöru annars staðar í heiminum, sem var greinilega raunin, það voru fullt af stelpum útum allt sem upplifðu það sama og ég. Út frá þessu stofnum við svo fyrirtæki í kringum þetta, seljum búðina og herjuðum á erlenda markaði. Við stefndum alltaf langt með merkið, þannig ég veit ekki hvort velgengnin kom mér á óvart, já og nei. En ég er óendanlega stolt af því sem við byggðum upp.

16983_10151285729358342_1954525088_n

Þú hefur eflaust lent í allskyns ævintýrum á þeim árum sem þú rakst Nikita. Hvað er það eftirminnilegasta frá þessum árum og var þetta ekki hrikalega gaman?

Jú, það eru mörg ævintýrin, svo margt sem í raun stendur uppúr. Ég er búinn að ferðast svakalega mikið og koma til staða sem líklega maður hefði ekkert endilega farið til ef það hefði ekki verið í tengslum við Nikita. Ég hef kynnst svo mikið að frábæru fólki í gegnum vinnuna og rennt mér á snjóbretti á ótal stöðum í heiminum. Hef líka ferðast til óteljandi staða til að taka myndir fyrir bæklinga. Ég gæti skrifað heila bók um þetta allt, en það kemst ekki fyrir hér.

heida-5

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Þú hefur rennt þér á snjó og hjólabretti í fjölmörg ár, voru margar stelpur að stunda þetta þegar þú byrjaðir og hvaðan kom þinn áhugi fyrir þessu?

Þegar ég byrjaði voru bara örfáar stelpur að renna sér. Ég var mjög oft ein að renna mér með strákunum, sem var mjög hvetjandi en það hefði verið gaman að hafa fleiri stelpur. Það varð mikill uppgangur í sportinu á árunum 1995-2000.  Við vorum dugleg að byggja upp sportið í kringum búðina, halda allskyns mót og skipuleggja hópferðir útá land. Það voru alltaf fleiri og fleiri stelpur að koma inní sportið á þessum tíma. Stelpurnar eru orðnar rosalega öflugar í sportinu í dag Ég byrjaði á skíðum þegar ég var um 9 ára og fannst það alltaf rosalega gaman. Ég sóttist alltaf í að stökkva og svoleiðis en á þessum tíma voru ekki beint til nein freestyle skíði. Ég man að ég og vinkona mín urðum okkur út um einhver lítil skíði og spreyjuðum þau silfurlituð og settum fullt af límmiðum á þau, þetta áttu að vera freestyle skíði. Þegar ég heyrði fyrst um snjóbretti kringum 1988 var ég stödd í Bandaríkjunum sem skiptinemi. Ég fór í skíðaferð til Jackson Hole og í ferðinni var einn strákur á snjóbretti. Mér fannst þetta rosalega spennandi og átti að fá að prufa en það varð einhvernveginn ekki úr því. Ég vissi strax að þetta var eitthvað fyrir mig. Það var hinsvegar ekki fyrr en 1995 að ég kynntist þessu hér heima og fékk mér loksins bretti, þá var ekki aftur snúið. Ég ætlaði aldrei að byrja á hjólabretti en fannst það samt alltaf mjög spennandi. Við vorum auðvitað að selja bretti og ég að skrúfa þau saman fyrir kúnnana okkar alla daga. Svo var ákveðið að smíða mini ramp í bakgarði Týnda Hlekksins og þá varð ég að prufa. Ég hef samt aldrei stundað það eins mikið og snjóbretti en finnst það samt mjög gaman.

12782144_10153782790845860_486985530_n

Þú hefur sagt skilið við Nikita og ert að feta á nýjar slóðir, afhverju sagðirðu skilið við Nikita og var það erfitt?

Fyrir rúmum fjórum árum seldum við fyrirtækið til Amer Sports, sem er stórt fyrirtæki í sport bransanum, þeir eiga meðal annars Salomon, Arcteryx og fleiri merki. Ég var samningsbundin í 2 ár en var í næstum 4 ár. Þeir vildu því miður breyta áherslunum of mikið að mínu mati og voru að færast of langt frá upprunanum, en samstarfið gekk þó ágætlega. Þeir töpuðu niður sölunni alltof hratt og á endanum ákváðu þeir að selja fyrirtækið aftur. Nýju eigendurnir vildu halda mér inní fyrirtækinu og það leit allt út fyrir að ég mundi halda áfram að vinna með þeim, en á endanum náðum við bara ekki saman. Ég hætti að vinna fyrir þá núna í Nóvember, en það eiga þó tvær línur sem ég hannaði eftir að koma í verslanir þar sem hönnunar og framleiðsluferlið er svo langt. Nikita er búið að vera partur af manni í svo mörg ár að þetta var ansi stór og erfið ákvörðun en ég held að þetta hafi bara verið góð tímasetning.

194162_1745395447203_3453289_o

Nú ert þú orðin yfir hönnuður Íslenska fatamerkisins Cintamani hvernig kom það til og hvernig legst það í þig að taka við þessari stöðu hjá Cintamani?

Kristinn Már, eigandi Cintamani hafði samband við mig í október á síðasta ári. Þá var ég lengi búin að velta fyrir mér hver mín framtíð yrði með Nikita. Hann var búinn að bjóða Davíð Young vinnu hjá fyrirtækinu, en Davíð vann með mér í Nikita í 10 ár. Þá kom upp sú hugmynd að tékka líka á mér. Guðrún Lárusdóttir sem einnig vann hjá Nikita í mörg ár var búin að vinna hjá þeim í nokkra mánuði þannig að við 3 sameinuðumst aftur hjá Cintamani.  Þetta er virkilega spennandi tækifæri og legst mjög vel í mig.

12752020_10153782789050860_1915603447_o (1)

Á fatnaðurinn hjá Cintamani eftir að taka miklum breytingum og ef svo er hvernig þá?

Fólk mun sjá breytingar, en góðir hlutir gerast hægt.  Þetta á allt eftir að koma í ljós fyrr en seinna. Fyrsta línan sem ég hanna frá grunni kemur í búðir haust/vetur 17/18. En það munu þó sjást einhverjar breytingar næsta haust.  Það eru virkilega spennandi tímar framundan hjá Cintamani.

heida-23

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Ertu enn að renna þér á snjóbretti og hjólabretti og hvað er það við það sem heillar þig?

Ég held að ég hætti því ekkert á meðan ég get fest á mig brettið. Ég elska að fara í fjöllin. Ég renni mér mikið með syni mínum sem er 10 ára, hann byrjaði á bretti þegar hann var 3ja og nú getum við rennt okkur í flestum aðstæðum saman. Núna er ég ný búin að fá mér Splitboard og þá bætast enn fleiri tækifæri við. Ég fer líka á hjólabretti annað slagið.

Comments are closed.