Hefur umhverfið áhrif á þína tónlist: „Ég hef ekki hugmynd“ – Ný plata frá Benna Hemm Hemm

0

Ljósmynd: Ómar Örn Smith.

Tónlistarmaðurinn Benedikt H Hermannsson eða Benni Hemm Hemm eins og flestir þekkja hann var að senda frá sér glænýja plötu sem ber heitið Fall. Benni hefur svo sannarlega komið víða við á viðburðarríkum ferli en hann hefur verið að grúska í nýju plötunni seinustu ár. Kappinn er búsettur á Seyðisfirði en aðspurður hvort landsbygðin hafi einhver áhrif á tónlistarsköpun hans svara hann einfaldlega „Ég hef ekki hugmynd.”

Albumm.is náði tali af Benna og svaraði hann nokkrum spurningum um plötuna.


Platan er afar forvitnileg og einstaklega skemmtileg, er hún búin að vera lengi í vinnslu og hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar?

Ég er búinn að vera að grufla í þessum upptökum síðastliðin ár, en nokkurnveginn eingöngu í júnímánuði. Þannig að það eru nokkur ár sem ég hef verið að pæla í þessum upptökum en alls ekki stanslaust í nokkur ár og ég vissi ekkert að þetta væri plata fyrr en núna nýlega. Minn helsti áhrifavaldur upp á síðkastið hefur verið Sigtryggur Berg Sigmarsson.

Nú ert þú búsettur úti á landi, hvar ertu búsettur og telur þú að umhverfið hafi einhver áhrif á þína tónlistarsköpun?

Ég bý á Seyðisfirði. Ég hef svo oft reynt að svara erlendum blaðamönnum sem spyrja þess sama um Ísland en sjaldan tekist það vel. Mér líður alveg eins núna – ég  hef ekki hugmynd!

Ljósmynd: Ómar Örn Smith.

Á að flytja plötuna á tónleikum og fáum við í Reykjavík að berja þig augum á næstunni?

Ég er búinn að spila eins lítið og ég get síðastliðin ár og held að ég haldi því aðeins áfram. Kannski eitthvað á næsta ári. Maður veit aldrei.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég er að fara að sinna píanóleikarastörfum við hirð Prins Pólós á nokkrum tónleikum á næstunni. Ég læt það duga í bili.

Skrifaðu ummæli