Hefur fengið einróma lof gagnrýnenda og aðdáenda svartmálmsins um allan heim

0

Íslenska svartmálmssveitin Misþyrming hefur verið að gera það gott undanfarin misseri en þrátt fyrir að hafa einungis gefið út eina plötu hefur hljómsveitin ferðast um víðan völl og túrað, sem og komið fram á fjölda tónlistarhátíða um Evrópu síðan 2015. Plata þeirra, Söngvar Elds og Óreiðu, hefur fengið einróma lof gagnrýnenda og aðdáenda svartmálmsins um allan heim, og endaði hún meðal annars í 9. sæti yfir plötur ársins 2015 hjá Noisey.

Nú, þann 27. júlí mun hljómsveitin efna til tónleika á skemmtistaðnum Húrra, en það verða einu tónleikar hljómsveitarinnar hérlendis á þessu ári (að undanskildu Oration festivali síðastliðinn febrúar), þar sem trymbill sveitarinnar býr erlendis um þessar mundir. Ekkert verður til sparað og má búast við að strákarnir í Misþyrmingu verði í feiknarformi á tónleikunum. Þeir eru nýkomnir heim af stærstu þungarokkshátíð Frakklands, Hellfest, en þar kom Misþyrming fram sem og Sólstafir, Iron Maiden, Judas Priest og Limp Bizkit, svo eitthvað sé nefnt. Hljómsveitin heldur svo til Tékklands í lok sumars og leika þar á hinni virtu hátíð Brutal Assault.

Sérstök upphitunaratriði fyrir Misþyrmingu á Húrra verða World Narcosis og Alvia Islandia, og hver veit nema leynigestir muni einnig stíga á stokk! Miðaverð á viðburðinn er 1.500 krónur í forsölu og 2.000 við hurð, og má nálgast miða á Tix.is.

Skrifaðu ummæli