Hefði getað fært honum súkkulaði og sagt: „ég sé þig og er hér ef þú þarft á mér að halda“

0

Tónlistarkonan Kira Kira eða Kristín Björk Kristjánsdóttir eins og hún heitir réttu nafni hefur svo sannarlega komið víða við á sínum tónlistarferli en hún var að senda frá sér plötuna Alchemy & Friends.

Kira Kira blæs til heljarinnar útgáfutónleika í Iðnó á sunnudaginn sem kemur og er óhætt að segja að mikið er lagt í herlegheitin. Albumm náði tali af Kiru Kiru og svarði hún nokkrum spurningum um plötuna og tónleikana svo sumt sé nefnt.


Nú ert þú að blása til heljarinnar útgáfutónleika í Iðnó vegna útkomu plötunnar Alchemy & Friends. Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Já, þessi tónlist fór að spretta fyrir 6 árum síðan þegar ég bjó í Berlín og deildi yndislegu stúdíói við Oranienstrasse í Kreuzberg með vinum mínum Dustin O’Halloran kvikmyndatónskáldi sem spilar á píanó í laginu sem opnar plötuna og Hildi Guðnadóttur sem spilar á selló í lokalaginu.

Dustin kynnti mig þá fyrir Rob Simonsen sem er aðaldriffjöðurin í kollektívu kvikmyndatónskálda í Los Angeles sem heitir The Echo Society. Það hófst á eftirminnilegum samræðum á ramen búllu í Mitte þar sem ég sagði honum frá minni kollektívu -Tilraunaeldhúsinu, sem ég rak með Jóhanni Jóhannssyni og Hilmari Jenssyni í sirka 10 ár. Við tengdum um mátt þess að sameina skapandi krafta í stað þess að vinna hvert í sínu horni, hvernig gott samstarf getur leitt okkur dýpra og stutt við umsköpunarmátt hvers þess sem við höfum fram að færa. Og með þetta sem kjarna okkar vináttu -að lyfta hverju öðru upp á andlegri og tónlistarlegri vegferð okkar, opnaðist mér ný tónlistarleg vinafjölskylda í LA sem syngur og spilar á plötunni ásamt með vinum frá Berlínarárunum og ljósmolum hér heima.

Á engum tímapunkti hugsaði ég: „Ég ætla að fá 46 manns til þess að spila á plötunni minni,” það var eitthvað sem gerðist algjörlega organískt í gegnum vináttu, gefandi samtöl og orkuskipti. Hvert og eitt hljóðfæri er tekið upp sér í prívatsamtali á milli tveggja, nema kórinn og svo orkestran í laginu „Call it Mystery -Alchemy for Patience,” sem er hljóðritað live í Los Angeles.

Tónsmíðar mínar eru algjörlega samofnar tilveru minni frá degi til dags og þessi plata er safn af alkemískum andans elixírum sem urðu til á þessum árum frá 2012-2017. Innblásturinn að baki hvers lags á plötunni sprettur út frá ákveðnum draum um eða fúsleika til þess að leggja eitthvað að mörkum sem gæti hjálpað fólki með einhverjum hætti. „Talk To Your Hands” var til dæmis samið til píanóleikara, vinar míns sem gat ekki hreyft hendurnar sínar í ár og þar af leiðandi ekki spilað. Hugmyndin er einföld -að allt sem við þurfum að vita búi nú þegar innra með okkur, jafnvel eitthvað eins og hvers vegna við getum ekki hreyft á okkur hendurnar, og að þess vegna séum við okkar eigin bestu heilarar. Þetta lag fór í gegnum ansi mörg hamskipti og var nokkuð lengi í vinnslu, en um síðir öðlaðist þessi vinur minn mátt í höndunum á ný og það var mjög andaktug stund þegar hann spilaði að lokum sjálfur inn á upptökuna. Ég er ekki læknir, kírópraktor eða einhver sem getur fært bein í réttar skorður. En eins og allar manneskjur þá get ég gert mitt besta til þess að vera til staðar fyrir fólkið mitt. Ég hefði getað fært honum súkkulaði og sagt ég sé þig og er hér ef þú þarft á mér að halda. Ég gerði það líka. En það dýrasta sem mér fannst ég geta gefið honum og reyndar öllum þeim vinum sem lögin á plötunni eru samin til, var tími sem ég fyllti með hlýhug og óskum honum til heilla á meðan ég óf handa honum hljóðheim sem varð lagstúfur. Það sagt, þá eru öll lögin á plötunni hugsuð sem universal sálarsmurning sem hver sem hana vill þiggja getur notið. Dropi af hugrekki, húmor, blíðu, áræðni -hvað sem er. Þetta er allt innra með hverju mannsbarni í einhverju formi. Hér eru bara litlir speglar í formi tækifæra til þess að magna upp ljós og frið, fiðring og ást.

Getur þú lýst plötunni í þrem orðum og er eitthvað lag á plötunni sem er þér kærkomnara en önnur?

Allir saman nú! „Call It Mystery” kemur fyrst upp í hugann. Það varð til út frá einlægum ásetningi til þess að finna frið og sátt í óvissuástandi. Það er svo margt sem við fáum aldrei svör við og ef við náum að gefa Almættinu hugarangur okkar áður en það spíralar og tekur yfir æðruleysi okkar, þá erum við frjáls og ástvinum okkar, sjálfum okkur og samfélaginu til mun meira yndis og gagns en ella. Þannig að ef við látum af því að kryfja til mergjar fólk eða mál sem munu alltaf vera okkur hulin hvort sem er, þá skapast ómælt hugarrými til góðra verka.

Tónlistin byrjaði sem rannsóknarleiðangur með rykfallinn rússneskann marxófón í mjög frjálslegri stillingu sem ég fékk lánaðann hjá Dustin. Með tímanum varð svo til hljóðheimur sem Gyða Valtýss vinkona mín og sellóleikari steig inn í með sína óviðjafnanlegu sólargeisla. Ég prógrammeraði svo púlsa úr sömplum sem ég gerði úr analog hljóðgerflum þar til úr varð hljóðheimur sem Ingi Garðar Erlendsson, básúnuperla, hjálpaði mér að þýða fyrir 15 manna orkestru sem flutti verkið í gömlu sjarmerandi kvikmyndaveri í Los Angeles. Ég hafði aldrei á ævinni heyrt tónleikaupptöku sem mér fannst endurspegla tónlistina mína þannig að ég hreinlega grét þegar ég fékk upptökuna senda. Tilfinningin var svolítið eins og að fá verðlaun fyrir að trúa á engla allt sitt líf án þess nokkurn tíma að hitta slíkann. Svo bara kemur einn svífandi, eldhress, eftir heila ævi af því að hafa engar sannanir fyrir himneskri tilvist, aðeins sannfæringu.

Þannig kraftaverk fannst mér þessi upptaka vera og kannski þykir mér sérstaklega vænt um þetta verk þess vegna.

Mikið er lagt í tónleikana. Við hverju má fólk búast og verður platan spiluð í heild sinni?

Já, heldur betur. Ég setti saman sveim orkestru með nokkrum ljósríkum töffurum, sem mér finnst hver og einn búa yfir ákveðnum ofurkrafti. Orri Analog úr Slowblow spilar á píanó, Hermigervill leiðir í gegnum sig elektróník, syngur og spilar á fiðlu og þeremín, Teitur Magnússson syngur með mér í einu lagi, Eiríkur Orri Ólafsson spilar á trompet, Samúel J Samúelsson á básúnu, Tumi Árnason á sax, Hilmar Jensson, Úlfur Hansson og Pétur Hallgrímsson á gítarara, Sara Sólveig á selló, Hlynur Aðils á selestu, Ægir Sindri á trommur og Kapteinn Ást keyrir módúlarkerfi.

Góður hópur af söngvurum og vinum kemur svo og spinnur með okkur í kór en Thoracious Apotite verður visúal meistari með analog videó feedback sem bregst við hreyfingum allra þessarra gullmola.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Yfir sumarið er ég að klára að semja tónlist fyrir nýja seríu af “Dream Corp Llc” -Heimspekilegum sci-fi gamanþætti sem er framleiddur í Los Angeles fyrir Cartoon Network (/Adult Swim). Svo erum við Eskmo að fara að mastera plötu sem við gerðum saman í LA í júní og við Hermigervill að búa sándtrakkið okkar fyrir „Sumarbörn” til útgáfu á vínyl.

Annars bara að lifa og elska, draga andann djúpt, vökva blómin og hlæja.

Skrifaðu ummæli