„HAUSI“ HEITIR TÍUNDA BREIÐSKÍFA HLJÓMSVEITARINNAR STAFRÆNN HÁKON

0

„Hausi” heitir tíunda breiðskífa jaðarrokk hljómsveitarinnar Stafrænn Hákon. Að gefa út plötu er kostnaðarsamt verkefni og um leið krefjandi. Stafrænn Hákon hefur því hafið söfnun í samvinnu með Karolina Fund til að fjármagna framleiðslu plötunnar.

„Okkur þykir vænt um að geta boðið ykkur uppá þessa plötu sem vinyl, geisladisk eða stafrænt niðurhal að söfnun lokinni. Við erum afar stoltir af þessari plötu og hlökkum til að hleypa henni á tölt í eyrum yðar.“ – Stafrænn Hákon

Platan inniheldur 9 lög sem samin voru af hljómsveitar meðlimum ágúst 2016 – mars 2017. Áætlun er að gefa út plötuna um leið og söfnun hefur heppanst.  En söfnunin stendur yfir á Karolina Fund.

Upphaf plötunnar má rekja til ársins 2016 þegar hljómsveitin kom fram á tónleikum Vinnslunar í Tjarnarbíó og spann þar 20 mínútna verk byggt í kringum hörpuleik Lárusar Sigurðssonar, einn af meðlimum hljómsveitarinnar. Eftir vel heppnað spunaverk var ákveðið að vinna frekar með töfrandi hörpuleikinn og lögin tóku að hrannast upp í kjölfarið. Hljómsveitin kom sér vel fyrir á Sólheimum í ágústmánuði og tók upp þar nokkur lög sem gáfu grunntóninn að þessari skífu. Upptökum lauk svo í mars mánuði 2017.

Hausi er viss stefnubreyting fyrir hljómsveitina. Hljómsveitin hefur þroskast all verulega síðustu ár frá því að vera hliðarsjálf Ólafs Josephssonar yfir í eiginlega fjögurra manna hljómsveit. Nú hefur Stafrænn Hákon loks myndað kjarna og fundið jafnvægi sem hentar öllum meðlimum hljómsveitarinnar.

Eftir síðustu plötu Stafræns Hákons, Eternal Horse, sem umvafinn var sungnum ballöðum og fljótandi poppskotnum, en þó þungum lögum inn á milli, kveður við dýpri tón í þetta skiptið. Heyra má hvernig hljómsveitin leikur við hvern sinn fingur í instrumental forminu og er útkoman vægast sagt falleg. Hugljúfur hörpuleikur Lárusar Sigurðssonar er uppsprettan að plötunni og má heyra hvernig hann leikur sér að þessu annars stórfenglega hljóðfæri.

Glöggt má heyra að hljóðheimur Hausa minnir að vissu leyti á plötu Stafræns Hákons Ventill/Poka frá árinu 2004. Hér eru þó lagasmíðarnar heldur þroskaðri og útpældari. Árni Þór bassaleikari tekur upp baritone-bassagítar á plötunni og skapar með honum afar þéttan en um leið melódískan hljóðheim. Selló og básúna eiga ekki hvað síst stóran þátt í þessum hljóðheimi og er það þeim Þórði Hermannssyni og Þresti Sigurðsyni að þakka. Tónáferð Hausa er seiðandi en þó tekst hljómsveitinni að skapa ansi rokkaðan hljóðheim sem svíkur engan sannan rokkhund. Dýnamískur hljóðheimur er því að sönnu aðalsmerki þessarar 10. breiðskífu hljómsveitarinnar.

Sem fyrr segir þá leikur Lárus Sigurðsson á hörpu og píanó, Árni Þór Árnason sér um bassaleik og baritone gítarspil. Ólafur Josephsson sér um gítarleik, forritun og hljómborð og Róbert Már Runólfsson leikur á trommur. Þórður Hermannsson skreytir svo Hausa með fallegum sellóleik og Þröstur Sigurðsson mundar básúnuna eins og sannur hermaður.

Skrifaðu ummæli