Hátíðlegir tónleiklar með húmor: Orkumikill og Fantagóður

0

Um miðja nótt þegar flestir eru í fasta svefni sátum við Eyþór Ingi saman og spjölluðum um daginn og veginn. Í því spjalli bauð hann mér að koma á tónleika sína í Lindakirkju, sem ég að sjálfsögðu þáði. Þar sem við erum báðir nokkuð ofvirkir komu fram þarna um nóttina margar hugmyndir, misgóðar reyndar, en skemmtilegar. Við ákváðum að skella í jólaleik, sem síðar varð Risa jólaleikur. Þegar við hættum öllum pælingum tveimur tímum seinna höfðum við ákveðið að Albumm myndi taka tónleikana upp. Ég talaði þessu næst við Þröst snilling hjá Artic Warrior Photos  sem var til í að taka upp tónleikana og klippa fyrir okkur.

Ógleymanleg kvöldstund skipulögð

Þegar tónleikadagurinn rann upp mættum við Þröstur að hitta Eyþór í Lindakirkju til að kynna okkur aðstæður. Við okkur blasti ákaflega falleg og skemmtileg kirkja. Lýsingin fyrir tónleikana eins fagleg og hugsast getur, enda valin maður í hverju horni. Þröstur var búinn fá Svavar Sigurtseinsson til að taka ljósmyndir á tónleikunum og má sjá myndir hans hér fyrir neðan. Magnús Helgi Kristjánsson ljósa- og grafíkhönnuður miðlaði af reynslu sinni og setti okkur orkuboltunum reglurnar varðandi það hvað má og hvað ekki, því ekki má trufla upplifun gesta, sem hafa borgað sig inn. Við hétum því að vera stilltir þar sem við værum jú í kirkju. Eyþór, ég og Þröstur erum hver öðrum ofvirkari en sögðum já og amen eins og skólastrákar undir yfirlestrinum. Eyþór skaut reglulega inn í: “… bara að þetta verði flott strákar, þá er mér alveg sama. Ef áheyrendurnir njóta kvöldsins er ég sáttur. Það eitt skiptir máli.” Við lofuðum Eyþóri því að vanda okkur og trufla ekki hátíðlega tónleika. Að sjálfsögðu gat húmoristinn Eyþór ekki sjálfur staðist þá freistingu að kynna leynigest kvöldsins á svið með vænum brandara. Og brandarar hans urðu fleiri um kvöldið.

Miðasölustrákurinn og fagmennirnir

Allir vorum við mættir tímanlega til að undirbúa komu tónleikagesta og yfirfara hvert smáatriði til að tónleikarnir gengju hnökralaust fyrir sig. Ég get ekki sagt að ég sé mikið jólabarn en ég elska tónlist og hef verið svo heppinn að vinna mikið í kringum það áhugamál bæði sem tónleikahaldari og umboðsmaður, en VÁ, að sjá hvað Benni Sveinsson og hans teymi eru miklir fagmenn fram í fingurgóma. Frábær umgjörð frá A til Ö. Benni Sveins hefur verið hægri hönd Eyþórs í fjögur ár og veit því upp á hár hvað söngvarinn vill. Eyþór kann svo sannarlega að velja sér samstarfsfélaga. Ég varð spenntari með hverri mínútunni sem leið.

Klukkan var orðinn 18:55 og aðeins fimm mínútur í að húsið yrði opnað. Ég sat baksviðs og beið fullur tilhlökkunar, eiginlega vandræðalega spenntur. Heyrði ég þá Eyþór kalla hástöfum: “STEINDÓR.”  Ég hrökk í kút og gekk á hljóðið. Eyþór stóð þarna yfirvegaður og spurði: “Getur þú aðeins hjálpað mér?” Grúppían sem ég er segi að sjálsögðu já umhugsunarlaust. Mitt plan hafði þó verið það, að stelast tímanlega í sæti fremst til að njóta tónleikanna á besta stað. “Flott, ég ræð þig í vinnu,” sagði Eyþór. “Hér er bíb-tæki. Þú verður í dyrunum og skannar miða”. Ég blóta honum í hljóði, en það átti eftir að koma á daginn að ég var á besta stað í salnum, beint á móti Eyþóri og fékk því allt beint í æð.

Jólatónleikar sem ég gleymi aldrei

Fólk byrjaði að tínast inn úr grenjandi rigningu og roki. Greinilegt að fólk lætur ekki óblítt veður stoppa sig í að sjá Eyþór Inga og kór Lindakirkju. Upplifun sem lætur mann gleyma öllu daglegu amstri í eina kvöldstund. Ekki spillti fyrir innkoma óvænts leynigests á svið. Nokkuð sem sló vægast sagt rækilega í gegn.

Það er ekki annað hægt en að hrósa Magnúsi Helga fyrir frábæra umgjörð þegar kom að ljósum og grafík. Hann náði fullkomlega að mynda jólalega og hátíðalega stemmningu strax þegar gengið var í salinn. Lýsing skiptir afskaplega miklu máli til að laða fram réttu stemmninguna á tónleikum og ramma inn hvert lag. Það tókst Magnúsi óaðfinnanlega út alla tónleikana. Lýsing er meðal fjölmargra atriða sem huga þarf að fyrir tónleikahald, en fæstir tónleikagesta leiða hugann að því hve mörg þau atriði eru sem þurfa að vera vel útfærð og pottþétt til að þeir fái notið stundarinnar sem best.

Þegar Eyþór steig á svið í upphafi tónleikanna greip hann í gítar og byrjaði að raula lagstúf til að losna við við stressið. Hann sló á létta strengi til að létta líka andrúmsloftið í salnum á meðan fólk hagræddi sér í sætum sínum. Kvöldið átti eftir að vera magnað sambland af uppistandi, hátíðartónleikum og ljúfri kvöldstund. Eyþór Ingi er ekki bara einn af okkar bestu söngvurum heldur er hann skemmtikraftur af Guðs náð. Hann nær að mynda skemmilega stemmningu strax frá fyrsta tón. Á milli laga segir hann stundum sögurnar á bakvið lögin, eins og þegar hann og Davíð, eiginmaður Jóhönnu Guðrúnar, tóku í gegn textann við lagið Takk fyrir jólin, sem er íslensk útgáfa af Queen-laginu „Thank God its Christmas.” Hann lýsti því líka þegar hann átti samtal við Gunna Þórða. Lék hann Gunna eins og Don Carlione úr Guðföðurnum, þegar hann sagði söguna á bakvið tilurð lagsins Færðu mér jólin þín, en ég ætla ekki að reyna að hafa brandara Eyþórs eftir. Það er upplifun sem þú verður að upplifa sjálfur, lesandi góður. En þessar sögur og eftirhermur söngvarans Eyþórs gera hann að því sem hann er, einlægum og skemmtilegum performer sem nýtur vinsælda meðal fjöldans. Um leið og hann þenur raddböndin gleymir maður stund og stað.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar Eyþór tók óvænt á móti leynigestinum á svið. Engum öðrum en Páli Óskari. Honum brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn. Horfðu á upptökuna frá tónleikunum hér á Albumm. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari. Góð skemmtun að sjá tvo af okkar bestu skemmtikröftum eiga saman frábært uppistand. Eitthvað sem þú einfaldlega verður að sjá.

Einvala lið Eyþórs Inga

Ég verð að enda þetta á því að hrósa þeim sem standa á bakvið Eyþór Inga því í samspili þeirra liggur galdurinn. Það er nefnilega ekki nóg að vera með einstaka rödd eða húmorinn í lagi. Til að svona ógleymanlegir tónleikar geti orðið að veruleika verður maður að hafa gott bakland og það er Eyþór Ingi svo sannarlega með. Á  þessum tónleikum var það kór Lindakirkju sem söng með undir stjórn guðföðurs Gospel á íslandi, honum Óskari Einarssyni, sem jafnframt spilaði á flygil. Áðurnefndur Helgi og síðast en ekki síst Benni, sem fyrir utan það að passa uppá að allt hljóð og umfang sé alltaf eins faglegt og hugsast getur á tónleikm söngvarans, gætir hann þess líka meðal annars að Eyþór gleymi ekki gítarnum á bílastæðum flugvalla landsins eða týni iPadinum sem inniheldur alla textana.

Orð fá því ekki lýst því hversu vel ég naut þessara tónleika, en svo mikið er víst, að framvegis verður það hefð hjá mér að fara á jólatónleika Eyþórs. Ég mæli eindregið með því að þú, sem þessar línur lest skellir þér á tónleikana hans. Í senn hugljúf og bráðskemmtileg kvöldstund sem mun klárlega koma þér í jólaskap.

Og undanfarið hefur verið uppselt á nær alla tonleik sja nánar hér

Skrifaðu ummæli