HÁTÆKNILEG BORG Á HAFSBOTNI MEÐ TENGSL VIÐ AÐRA HNETTI

0

Tónlistarkonan Dj Flugvél Og Geimskip eða Steinunn Harðardóttir eins og hún heitir réttu nafni var að senda frá sér brakandi ferskt myndband við lagið „The Sphinx” en það gerist í Atlantis.  Lagið er tekið af plötunni Our Atlantis en hún kemur út snemma á næsta ári. ,,Our Atlantis” tengir saman síðustu tvær plötur Glamúr í geimnum  og Nótt á hafsbotni og fjallar um Atlantis sem sögur segja að hafi verið hátæknileg borg (mögulega með tengsl við aðra hnetti og geimverur), sem sökk niður í hafdjúpin, og er þar kannski enn!  

Platan ,Our Atlantis eða Okkar AtlantiS fjallar um valið sem við höfum til að ákveða okkar heimssýn. Hver og einn lifir að stórum hluta í þeirri veröld sem hann hefur skapað sér, tónlistin á nýju plötunni tengir saman óravíddir og glamúr geimsins, dularfull undirdjúp hafsins, og val hvers og eins til að mynda sér sína eigin skoðun á hlutunum. Alls staðar í kringum okkur er endalaust framboð á hugmyndum um það hvernig best er að lifa, en gott er hafa það í huga að við höfum val. Enginn getur sagt okkur hvað er ,,rétt”. Ekki frekar en nokkur getur sagt okkur hvernig Atlantis var í alvörunni. Sagan um Atlantis er goðsögn, en er hún ósvikin goðsögn? Þitt er valið!

Tónlistin á plötunni er framandi raftónlist með áhrifum hvaðanæva að frá Sýrlandi, Indlandi og Suður Ameríku svo eitthvað sé nefnt. Hér gætir áhrifa frá 90´s drum and bass, bollywood, og pönki.

Ekki er allt komið enn því Dj Flugvél Og Geimskip sendir einnig frá sér tölvuleik en hann verður frumsýndur á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves! Í leiknum er hægt að labba í gegnum lögin af plötunni Our Atlantis og sjá hvernig þau líta út, Mjög spennandi! Hægt verður að spila þrjú borð úr leiknum, sem eru fyrstu þrjú lögin af plötunni. Til að spila þarf ekki að vera með miða á hátíðina, leikurinn verður bæði sýndur í Bíó Paradís og í Mengi.

Myndbrot úr leiknum má sjá hér fyrir neðan:

 

Dj. Flugvél Og Geimskip kemur þrisvar sinnum fram á Iceland Airwaves, þar af eina off venue tónleika í Mengi. Á tónleikunum verða flutt lög af nýju plötunni.

Hér fyrir neðan má sjá dagsetningar tónleikanna á Iceland Airwaves:

fimmtudagurinn 2. nóvember: Húrra kl. 23:20

laugardagurinn 4. nóvember: Mengi (off venue)

laugardagurinn 4. nóvember: Hressingarskálinn kl. 23:30

Skrifaðu ummæli