HAPPY HOUR MEÐ RAGGA BJARNA Á KAROLINA FUND

0

Hljómsveitin Karl Orgeltríó hefur hafið söfnun á Karolina Fund til að gefa út plötuna Happy Hour með Ragga Bjarna.Þetta er spennandi plata þar sem Raggi og Karl Orgeltríó flytja óvænt lög í eitursvölum útsetningum með rámum jazzlúðrum og seiðandi bakröddum. Söfnunin mun standa yfir í 5 vikur og skal standa straum af kostnaði við útgáfu á geislaplötu og vinyl.

Karl Orgeltríó var stofnað árið 2013 og er skipað þeim Karli Olgeirssyni sem leikur á Hammond orgel, Ólafi Hólm trommara og Ásgeir Ásgeirssyni gítarleikara. Árið 2015 hófust útsetningar og árið eftir upptökur á þekktum poppsmellum í bland við frumsamin lög og Raggi Bjarna hefur nú sungið þau inn í hljóðveri. Þetta er réttnefnd partýplata sem á vel við þegar fólk lyftir sér upp.

Ragnar Bjarnason er fæddur árið 1934 og er því 83 ára gamall á þessu ári og er með ólíkindum hvað hann hljómar vel í dag og er gaman að heyra hann syngja nýleg popplög í þessum gullaldarstíl sem einkennir plötuna.

Meðal laga á plötunni eru I’ve Seen It All eftir Björk þar sem Salka Sól syngur á móti Ragga en það lag hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur hjá landanum og dvalið á vinsældarlistum síðan það kom út.

Katrín Halldóra sem leikur Ellý í Borgarleikhúsinu í samnefndu verki syngur einnig dúett á plötunni. Hún á stórleik í laginu Allt í fína. Þar er engu líkara en að fundist hafi týnd upptaka með Ragga og Ellý. Lagið er annað af tveimur frumsömdum á skífunni og eru þau bæði eftir Karl Olgeirsson.

Einnig er að finna á plötunni lög eins og To Cut a Long Story Short (Spandau Ballet), Call Me (Blondie), Ladyshave (Gusgus), Get the Party Started (P!nk) og From Russia With Love (James Bond).

Fleiri leggja Karl Orgeltríói lið á plötunni. Heiða Ólafs og Sigga Eyrún söngkonur syngja silkimjúkar og hressandi bakraddir og Snorri Sigurðarson og Haukur Gröndal blása í lúðra og gefa plötunni yfirbragð amerískra jazzplatna frá miðri síðustu öld.

Platan mun koma út 5.október næstkomandi og verður blásið til glæsilegra útgáfutónleika í Háskólabíói sama kvöld.

Þeir sem vilja styrkja útgáfuna geta farið inn á karolinafund.com og keypt plötu sem þeir fá í hendur nokkrum vikum fyrir útgáfudag og/eða miða á útgáfutónleikana. Öllum sem styrkja útgáfuna verður boðið í Happy Hour með Ragga Bjarna í nýupgerðum Súlnasal í haust.

Skrifaðu ummæli