HAM leggst í dvala sökum landvinninga í Vesturheimi

0

HAM boðar til rokkmessu á Húrra föstudaginn 1. júní kl. 21:00. Hljómsveitirnar Kontinuum og Úlfúð sjá um að kveikja á lýðnum. Þetta verða síðustu tónleikar HAM í bili fyrir utan Secret Solstice hátíðina. Helmingur hrynhluta sveitarinnar heldur í víking vestur um haf og við það skríða aðrir meðlimir í dvalaholur sínar. Á Húrra mun HAM bjóða upp á hugvíkkandi kokteil nýrra og klassískra verka og kafa djúpt í rannsóknir sínar á svikum, dauða og helvíti mannanna. Miðasala er í fullum gangi á tix.is.

HAM þarf ekki að kynna enda löngu unnið sér sess sem einhver háværasta og geðþekkasta rokksveit nútímans. HAM hafa lengi verið að og ýmislegt á daga sveitarinnar drifið. Enn á ný leggst hún í dvala sökum víkinga og þeirra landvinninga. Rokkmessan á Húrra verður því alveg einstök og alveg sérstaklega mikilvæg. HAM er öllum nauðsynleg hughreysting og andans lækning. Komið og sjáið HAM. Hlýðið á sannleikann. Húrra!

 

Skrifaðu ummæli