HALLELUWAH

0

_MG_6074 2

Halleluwah er hljómsveit sem skipuð er þeim Sölva Blöndal og Rakel Mjöll en þau voru nýverið að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu. Albumm hitti Sölva og Rakel á Hótel Holt í miðbæ Reykjavíkur og sögðu þau okkur meðal annars frá nýju plötunni og hvernig það kom til að þau fóru að vinna saman.

 

Hvernig kynntust þið?

Rakel: Sölvi hringdi í mig og bað mig um að koma í stúdíó og hlusta á lag sem hann var með í bígerð. Ég kíkti í stúdíóið út á Granda og það gekk mjög vel. Við ákváðum að halda áfram að gera tónlist saman og þannig varð Halleluwah til, en alveg óvart samt.

Sölvi: Það var Blue Velvet sem var fyrsta lagið okkar. Ég hafði reyndar ekki heyrt hana syngja áður en mér fannst hún mjög spennandi listamaður.

Rakel: En það höfðu einhverjir mælt með mér, var það ekki?

Sölvi: Sunna skaut nafninu þínu að mér en hún hafði heyrt í þér með Útúrdúr. Ég fór að skoða það sem Katrín Braga var að gera, vídeó list og svona og ég bara hugsaði „þetta eru alvöru píur.“ Ég hélt ég mundi aldrei hitta manneskju sem væri meira drífandi en ég en Rakel er svo sannarlega það.

Nú er platan komin út hvað tekur þá við?

Sölvi: Já, við ákváðum að henda í plötu, eins og það sé ekkert mál (hlátur).

Rakel: Ég bý á Englandi og þegar maður er í sitthvoru landinu og er að kasta hugmyndum á milli, svo hittist maður og hugmyndirnar virka þá er það svo frábært, tónlistin verður svo áhugaverð. Áður en við urðum í rauninni hljómsveit vorum við að þróa okkar handbragð og okkar stíl, núna erum við hljómsveit.

Sölvi: Blue Velvet er fyrsta lagið sem við gerður og Moment Of Truth er síðasta lagið sem við gerðum fyrir plötuna. Það er svolítill munur þarna á.

Rakel: Það var ekkert fyrr en þú lendir í snjóbrettaslysinu að þig langaði að gera Halleluwah að einhverju alvöru en um svipað leyti var ég í sömu pælingum og var þá orðin algjörlega óhrædd við allt bæði í textagerð og söng. Þegar við tókum þá ákvörðun að demba okkur út í þetta þá byrjuðu hlutirnir að gerast miklu hraðar.

_MG_6108

Sölvi: Ég og Rakel erum rosalega gott teymi, ekki bara í tónlist heldur líka í að fylgja henni eftir. Við byrjuðum að vinna þessa plötu seinasta sumar en svo var það Sena sem kom og bauð okkur plötusamning. Við höfðum alltaf mjög mikla trú á þessu verkefni það hefur aldrei neinn jafn mikla trú á þessu og maður sjálfur. Þessi plata er mjög ávanabindandi, ég læt hana oft renna í gegn heima og ég er ekki enn kominn með ógeð á henni. Dior er t.d. mjög ávanabindandi lag, smá svona hip hop í því.

Rakel: það blandast svo skemmtilega saman hip hop og svona seventies david lynch kvikmyndatónlist.

Sölvi: Við pældum mikið í þessu 60´s, 70´s dóti, ég er með alvarlega þráhyggju fyrir 60´s tónlist.

Rakle: kannski er það þess vegna sem þú vildir fá söngkonu í þetta?

Sölvi: Já, ég var búinn að hugsa lengi hvaða söngkonu maður væri til í að vinna með. Rakel er með svolítið gamaldags rödd og hún hefur verið að vinna með 40´s og 50´s þema.

Rakel: Á því tímabili sem ég og Sölvi kynnumst var ég nýbúinn að stofna Cabaret hóp í Brighton með dragdrottningar vini mínum og tveimur dönsurum. Við komum fram á svona Burlesque klúbbum. Dragdrottningar og klúbbarnir frá árinu 1920! Þetta er eitthvað sem ég elska.

Sölvi:  Maður gerir lög og hendir þeim svo út en svo veit maður ekkert hvað gerist og hvernig þeim verður tekið.

Rakel: Dior kom mér verulega á óvart, fyrstu tvær vikurnar var komið 20.000 hlustanir á youtube og þá aðallega frá bandaríkjunum og þessu var póstað mikið á indie síðum þannig Dior fékk alveg frábærar viðtökur.

1

Semur þú (Rakel) alla textana á plötunni?

Rakel: Já ég geri það og fékk alveg lausar hendur til þess, hver texti er algjör hugarheimur og  hef ég alltaf haft gaman af ljóðum og að skrifa. Ég var í hljómsveitum þegar ég var unglingur og textarnir sem ég samdi þá fjölluðu um ekkert sérstakt kannski af því maður hafði ekki lent í neinu. Unglingsárin mín voru eins og fallegt karabískt haf. Þegar maður er ekki lengur unglingur þá byrjar maður að opna augun fyrir mjög mörgu og þá getur maður loksins skrifað um eitthvað áhugavert, maður verður að hafa lifað pínu til að hafa eitthvað að segja. Á þessari plötu eru flestir textarnir samdir á staðnum t.d. hefur eitt lag ekkert breyst frá því við tókum það upp, ég greip bara mækinn og söng yfir, nánast öll lögin eru freestyle.

Sölvi: Það finnst mér alveg magnað af því stundum varstu ekki búin að heyra neitt áður en þú komst í stúdíó en svo kemur bara heill texti útúr þér! Ég er oft búinn að spá í þessu.

Rakel: Ég hef beina tengingu í alheiminn (hlátur).

Nú búið þið í sitthvoru landinu er einhver spilamennska fyrirhuguð?

Sölvi: Já algjörlega, við ætlum að halda útgáfutónleika í maí en það verður mjög grand!

Rakel: Við erum einnig að fara til Bandaríkjanna og verðum einnig á Secret Solstice Þannig það er nóg framundan.

Sölvi: Við erum rétt byrjuð að pæla í live uppsetningunni enda platan bara rétt komin út.

Er planið að gefa hana út á vínyl?

Sölvi: Já, ég er alveg harðákveðinn í að láta það gerast.

Hvað fékk ykkur til að gefa út Cd þar sem það er á undanhaldi?

Rakel: Mér finnst við mjög heppin að fá að gefa út á föstu formi.

Var alltaf hugmyndin að gefa út í föstu formi?

Rakel: Nei ekkert endilega en það er rosalega gaman að geta haldið á einhverju sem maður hefur gert og skellt því í spilarann eða á fóninn.

Sölvi: Ég er alveg sammála því en CD verður örugglega algjörlega úr sögunni eftir svona tíu ár.

Rakel: Svo kemur hann aftur eins og allt annað (hlátur).

Sölvi: Það sem mun aldrei hverfa er að eiga eitthvað item sem maður getur skoðað og haldið á.

Einhver lokaorð?

Sölvi: Tjekkið á Dior!

Comments are closed.