HAFNFIRÐINGAR BJÓÐA FÓLKI HEIM TIL SÍN

0

Tónlistarhátíðin Heima Í Hafnarfirði er á næsta leiti en hún fer fram síðasta vetrardag 19. Apríl næstkomandi. Eins og nafnið gefur til kynna er hátíðin einstaklega heimilisleg en tónleikarnir fara fram í heimahúsum í Hafnarfirði.

Fólk má búast við ótrúlega skemmtilegri og fjölbreyttri hátíð í ár en sveitir eins og Skítamórall, Kött Grá Pje og Auður troða upp svo fátt sé nefnt.

Albumm.is náði tali af Óla Palla eins og hann er iðulega kallaður en hann er einn af skipuleggjendum hátíðarinnar.


Við hverju má fólk búast í ár?

Fólk má búast við ótrúlega skemmtilegri hátíð og fjölbreyttri. Skítamórall ætlar að slá upp balli í stofu í Hafnarfirði og Gunni Þórðar mætir með gítarinn og spilar Trúbrot og jafnvel Gaggó Vest. Svo eru það allir Hafnfirðingarnir; Auður, Andrés Þór, Sóley og Marteinn Sindri. Lay Low, Kött Grá Pje verður ber að ofan, Soffía Björg mætir ásamt Pétri Ben, Kristjana Stefáns kemur fram sem Bambaló – Helgi Jónsson og síðast en ekki síst höldum við í Færeysku hefðina og bjóðum upp á tvo Færeyska tónlistarmenn, Konni Kass sem var valin bjartasta vonin á Færeysku tónlistarverðlaununum á dögunum og Heidrik sem var valinn söngvari ársins. Frábær og fjölbreytt dagskrá!

Tónlistarmaðurinn Kött Grá Pje kemur fram á hátíðinni.

Verður hátíðin með sama sniði og undanfarin ár?

Já hún verður með sama sniði sem er þannig að Hafnfirðingar bjóða fólki heim til sín – á HEIMA er spilað HEIMA-í-stofu hjá fólki. Stofurnar eru mis stórar, sumar rúma 15-20 manns á meðan aðrar geta tekið á móti 100. En stærsta breytingin í ár frá því sem hefur verið er að núna opna Fríkirkjan og Bæjarbíó dyrnar fyrir HEIMA-gestum. Fríkirkjan er æðislegt tónleikahús eins og allir vita sem hafa hlustað þar á músík og það er Bæjarbíó auðvitað líka. En Bæjarbíó verður notað á óhefðbundinn hátt í þeytta skiptið vegna þess að tónleikagestir verða ekki úti í sal heldur uppi á sviði með tónlistarfólkinu. Þeir sem spila snúa baki í salinn og tónleikagestir umkringja listamennina á sviðinu eins og þeir gera á hinum stöðunum, í HEIMA-húsunum.

Tónlistarkonan Soffía Björg kemur fram á hátíðinni í ár.

Fyrir hvern er hátíðin Heima í Hafnarfirði?

Heima er fyrir alla, konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla. Það eru allir velkomnir, það skiptir engu í hvaða póstnúmeri fólk býr, hvort það býr á Íslandi eða er í heimsókn á Íslandi og það er ekkert aldurstakmark.

Auður kemur fram á hátíðinni í ár.

Hvenær hefst hátíðin og eitthvað að lokum?

HEIMA er eins dags hátíð og hefst þann 19. Apríl. Hátíðin verður sett í anddyri Bæjarbíós kl 19.00 á sjálfan hátíðardaginn og þar munu handhafar aðgöngumiða fá afhent armbönd, kort af hátíðarsvæðinu, HEIMA-húsunum sem spilað er í og dagskrá. Fyrstu HEIMA-tónleikarnir hefjast svo um kl. 20.00. og þeim síðustu lýkur um kl. 23.00.

Á HEIMA er boðið upp á veitingar í flestum húsanna sem spilað er í. Húseigendur baka sumir kökur, aðrir útbúa samlokur eða annað „snakk“ og á einum stað hefur undanfarin ár verið boðið upp á kjötsúpu. Þessu til viðbótar hefur verið boðið upp á drykki, kaffi, gos o.s.f.v og enginn er rukkaður. En við viljum hvetja fólk til að hafa peninga meðferðis vegna þess að það er baukur fyrir frjáls framlög í húsunum (flestum) og það sem kemur inn er hugsað á móti þeim kostnaði sem húseigendur leggja út fyrir veitingunum. Munum svo! Það er frí daginn eftir HEIMA.

Miðasala á tix.is

Rás 2 verður á staðnum og mun útvarpa hluta dagskrárinnar.
Þeir sem koma fram á HEIMA 2017 eru:

Auður
Soffía Björg
Helgi Jonsson
Marteinn Sindri
Sóley
Gunnar Thordarson
Skítamórall
Bambaló
Kött Grá Pje
Andrés Þór Tríó
Lay Low (Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir)
Kronika
Konni Kass og HEIDRIK (FO)

Skrifaðu ummæli