Hægt er að panta stofutónleika með sjálfum höfundinum

0

Tónlistarmaðurinn Karl Olgeirsson gefur út Mitt bláa hjarta – 14 nýja jazzsöngva í nótnabók og á geislaplötu á næstunni. Jafnframt safnar hann fyrir útgáfu tvöfaldrar vínylplötu á hópfjármögnunarvefnum Karolina Fund. Þar er í boði að kaupa sér eintak af plötunni fyrirfram, hvort heldur sem er í stafrænu niðurhali, á geislaplötu eða vínyl. Einnig er hægt að kaupa nótnabókina og jafnvel stofutónleika með höfundinum.

Á plötunni sem tekin var upp í júlí síðastliðnum syngja 12 söngvarar en auk þeirra koma 8 hljóðfæraleikarar við sögu. Ragnheiður Gröndal, Bogomil Font, KK, Helgi Hrafn Jónsson og Sigga Eyrún ásamt fleirum syngja lögin sem fjalla um ástir, söknuð, borgarlíf, veðrið og athyglisbrest svo eitthvað sé nefnt. Platan kemur út 22.október.

Nótnabókin inniheldur öll 14 lögin í tóntegundum fyrir háa og lága rödd og kemur hún út þann 14.september. Sama kvöld verður höfundurinn með útgáfutónleika í Hannesarholti þar sem hann syngur lögin uppúr bókinni og segir sögur þeim tengdum.

Þetta er fyrsta sólóplata Karls en hann hefur gefið út fjölda platna í samstarfi við aðra, til dæmis Happy Hour með Ragga Bjarna ásamt Karl Orgeltríó í fyrra og sólóplötu Helenu Eyjólfsdóttur sem kom út árið áður.

Þeir sem vilja styrkja útgáfu vínylplötunnar geta farið á karolinafund.com og fundið þar verkefnið Mitt bláa hjarta.

Skrifaðu ummæli