GUÐRÚN ANNA MAGNÚSDÓTTIR OPNAR MYNDLISTARSÝNINGU Í GALLERY ORANGE

0

ORANGE 4

Guðrún Anna Magnúsdóttir opnar myndlistasýninguna „með mínum augum“ í Gallery Orange Ármúla 6, laugardaginn 17. október næstkomandi kl. 16.
Söngatriði með óperusöngkonunni Elínu Ósk Óskardóttir með undirleik Kjartans Ólafssonar.
Guðrún Anna er sjötti listamaðurinn sem sýnir hjá Gallery Orange. Áður hafa þar sýnt Guðmundur Hilmar, Ólöf Benediktsdóttir, Þorsteinn Óli Sigurðson, Arnar Birgis og núna síðast Margeir Dire.
Gallery ORANGE mun svo setja upp sölusýningu með verkum frá öllum ofantöldum listamönnum og fleirum til styrktar góðgerðarmála.
Guðrún Anna útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1987 og hefur síðan starfað sem grafískur hönnuður. Lengst af hefur Guðrún Anna rekið sína eigin auglýsingastofu, Grafika /auglýsingastofa Guðrúnar Önnu. Guðrún Anna hefur allan sinn starfsferil lagt áherslu á endurnýjun þekkingar og hefur menntað sig í markaðsfræðum frá HR og sótt fjölmörg námskeið í tengslum við grafíska hönnun.

ORANGE 3
Listræn sýn er samkvæmt Guðrúnu Önnu nauðsynleg í grafískri hönnun og listræn sýn hennar sjálfrar endurspeglast í málverkum hennar.
Guðrún Anna hefur fengist við margvísleg verkefni um æfina. Hún hefur víðtæka reynslu af hvers konar auglýsingahönnun og hefur einnig rekið innflutningsfyrirtæki samhliða auglýsingastofunni.
Um þessar mundir er Guðrún að fást við fjölbreytt grafísk hönnunarverkefni ásamt því að mála og undirbúa málverkasýningu. Einnig er hún liðtæk í kórstarfi og stofnaði nýverið kvennakórinn Rósir með Elínu Ósk Óskarsdóttur óperusöngkonu sem mun syngja við opnunina við undirleik Kjartans Ólafssonar.

ORANGE 2
Listasýningin „með mínum augum“ er önnur einkasýning Guðrúnar en áður hefur hún sýnt myndverk eftir sjálfa sig í Bókasafni Kópavogs.
Guðrún Anna málar landslagsmyndir með stórum strokum og í björtum litum. Myndefnið er ýmist séð úr fjarlægð með talsverðri raunsæju eða afar nálægt og jafnvel bjagað þannig að úr verður abstrakt litasamspil.
Guðrún er óhrædd við að fást við nýja hluti og hefur alltaf stigið í takt við samtímann. Lífssýn Guðrúnar er eitthvað sem aðrir mættu læra af.
Sýningin verður svo opin alla virka daga frá kl. 9 – 17 og aðgangur er ókeypis. Hægt er að panta sérstaklega kynningu fyrir hópa eða félagasamtök um helgar eftir frekara samkomulagi án auka gjalds nema ánægjunnar.
Öll verkin á sýningunni eru til sölu.

Comments are closed.