GUÐNI EINARSSON ER HJARTAÐ Á BAKVIÐ HLJÓÐHEIMA

0

Guðni Einarsson

Tónlistarmaðurinn Guðni Einarsson er hjartað á bakvið Hljóðheima en þar er hægt að læra allt sem viðkemur elektrónískri tónlist. Guðni er enginn nýgræðingur þegar kemur að tónlist en hann hefur komið víða við á löngum og viðburðarríkum ferli. Albumm.is náði tali af Guðna og sagði hann okkur allt um Hljóðheima!


Hvenær kviknaði áhuginn á raftónlist og hvernig kom það til?

Það var þannig að bróðir minn var mikill Drum&bass aðdáandi í gamla daga. Hann var duglegur að kaupa sér nýjustu plöturnar þannig að ég var alltaf að heyra eitthvað nýtt og spennandi. Síðar voru keyptir plötuspilara og mixer og þá hófst kannski áhuginn fyrir alvöru. Þá fór maður að setja saman mix-tape og pæla í hinu og þessu varðandi tónlistina. Það er mér í fersku minni þegar ég sat fyrir framan útvarpið og hlustaði á Party Zone, Skýjum ofar og hvað þetta hét nú allt saman, tók allt saman upp á  kassettu. Ég eyddi svo heilu dögunum í að finna út hvaða lög hétu hvað o.s.frv. Síðar, eða þegar ég var kominn í menntaskóla, fór maður að fikta við að búa til tónlist og hef ég verið í þessu allar götur síðan.

Albumm -IMG_2366

Hvað er það við rafgræjur (ef svo má kallast) sem heillar þig?

Það er ofboðslega margt og í rauninni svolítið erfitt að lýsa. Fyrst og fremst er þetta gríðarleg ástríða hjá mér og finnst mér ekkert skemmtilegra en að fikta tímunum saman við að búa til og skapa ný áhugaverð hljóð. Þetta er auðvita líka ákveðin söfnunarárátta og örugglega pínu fíkn líka, maður vill alltaf meira, fleiri græjur!

Nina Kraviz og Guðni Einarsson

Hvenær settir þú á laggirnar Hljóðheima og afhverju?

Ég stofnaði Hljóðheima árið 2012. Hugmyndin kviknaði hjá mér þegar ég var í námi í Hollandi. Það var hinsvegar þannig að þegar ég kom heim úr náminu fór ég að vinna við hljóðtengda vinnu kringum bíó og sjónvarp. Ég hinsvegar fann mig aldrei nægilega mikið á þeirri braut. Þetta var líka 5 mínútum eftir hrun, svo að vinna var að skornum skammti.

Ég ákvað því að setjast aftur á skólabekkinn og fór í hljóðtækninámið í Tækniskólanum. Það var síðan þannig að á meðan ég er í náminu byrja ég að rifja upp hugmyndina frá því í Hollandi. Ég fer síðan á fullt með að plana og skipuleggja. Mitt fyrsta verk eftir að ég klára námið var að stofna Hljóðheima. Megin ástæðan fyrir því að ég stofna Hljóðheima var einfaldlega sú að ég vildi búa til vettvang fyrir þá sem hefðu áhuga á að læra að búa til raftónlist, „hands on.”

Albumm -IMG_7169 copy

Hvað er Hljóðheimar og hver er starfsemin?

Starfsemi Hljóðheima er tvíþætt. Annarsvegar eru Hljóðheimar skóli þar sem fólk lærir undirstöðuatriðin í upptökum, hljóðblöndun, pródúseringu og skífuþeytingum og hinsvegar „production” stúdíó.

Albumm -IMG_7208 copy

Hvernig er námskeiðunum háttað og hvað er hægt að læra í Hljóðheimum?

Í kennslunni öðlast fólk dýpri þekkingar á pródúseringu á elektrónískri tónlist, hljóðblöndun og upptökum og er betur í stakk búið til þess að takast á við sín eigin verkefni. Það er margt í boði hjá okkur, fer allt eftir því hvað fólk er að hugsa. Vinsælustu námskeiðin eru í kringum pródúseringuna og má þar nefna haust, vor og sumar annirnar okkar og svo Ableton Live kúrsana. Einkakennslan hefur einnig verið vinsæl.  Þá hefur fólk oft á tíðum komið með ókláruð lög og klárað þau meðfram kennslunni. Sniðug leið fyrir þá sem vilja slá tvær flugur í einu höggi!

Eitthvað að lokum?

Já! Ekki semja tónlist fyrir harða diskinn, „get it out there.“

Ný námskeið eru að hefjast og ef þig langar að læra allt sem viðkemur elektrónískri tónlist ekki hika við að smella hér.

Comments are closed.