GUÐGEIR SÍMON STEFÁNSSON

0

gusssi venj

Guðgeir Símon Stefánsson er upprennandi BMX kappi frá Reykjavík en hann hefur hjólað í um tvö ár. Guðgeir var á BMX námskeiði hjá BMX snillingunum Antoni og Benna en hann vann aðal keppnina á því námskeiði. Einnig æfir hann BMX og snjóbretti hjá Brettafélagi Hafnarfjarðar og er greinilegt að jaðarinn á hug hanns allann. Guðgeir er viðmælandi Albumm þessa vikuna og sagði hann okkur frá draumatrikkinu sínu, Fyrirmyndum sínum og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.


Hvenær og af hverju byrjaðir þú á BMX

Ég byrjaði á fullu á BMX fyrir um tveimur árum síðan, en hef frá því ég man eftir mér hjólað mjög mikið, en ég var líka alltaf á hjólabretti þegar ég var yngri.  Ég æfði fótbolta í nokkur ár en fann mig aldrei almennilega í því, fékk svo mitt fyrsta BMX fyrir 5 árum og þá var ekki aftur snúið.  Þessu hjóli var því miður stolið og keypti ég mér þá dirt jump hjól í staðinn en hugur minn var alltaf hjá BMX og endaði ég á því að kaupa mér notað BMX hjól þar til ég hafði efni á því að kaupa mér almennilegt hjól fyrir ári síðan. Ég hef æft tvö sumur á BMX hjá Brettafélagi Hafnarfjarðar og nú í vetur hef ég einnig æft hjá þeim innanhús.

Hvað er það við BMX sem heillar þig og áttu þér einhverjar fyrirmyndir í sportinu?

BMX er fáránlega skemmtilegt sport, frelsið sem fylgir því, fjölbreytileikinn og trikkin sem maður gerir. Það eru ótrúlega flottir gaurar í þessu sporti og klárlega fylgist ég vel með gæjum eins Garrett Reynolds, Tyler Fernengel, Devon Smillie, Stevie Churchill og Brandon Begin.

guð

Hvað er uppáhalds trikkið þitt og hvað er drauma trikkið?

Uppáhalds trikkið mitt er bar spin, smith to feeble to hard one eighty.  Drauma trikkið er krank slide to hard one eighty og back flip.  Ég hef verið að prófa mig áfram í krank slide með ágætum árangri, ég stefni á að mastera það fljótlega.

Hvar er best að hjóla á Íslandi og hefurðu farið erlendis að hjóla?

Á Íslandi er best að hjóla í Reykjavík, ég á erfitt með að velja einn stað, ég hjóla bara út um allt. Ég hef ekki farið erlendis ennþá að hjóla en ég er á leið til Bandaríkjanna með nokkrum vinum mínum í júní í æfingabúðir fyrir BMX í Woodward í Pennsylvaniu, þetta eru sumarbúðir fyrir jaðarsport þar sem m.a. er hægt að æfa parkour, hjólabretti, fjallahjól, fimleika og fleira. Svo erum við fjölskyldan að stefna á útlönd í sumar og er ég búin að blikka foreldrana um að taka hjólið mitt með.

guð 2

Hvernig hjól áttu og er þetta dýrt sport?

Ég á Subrosa sem ég keypti frá Bretlandi og kostaði það hingað komið um 220.000 með aukahlutum.  Þetta sport er svipað dýrt og önnur sport en ef maður er heillaður af sportinu þá freistast maður til að kaupa sér dýrari og vandaðri hjól og svo eru það auðvitað allir þessir aukahlutir sem geta kostað sitt.  En maður kemst alveg upp með að vera á ódýrari hjóli.  Ég hef samt aðeins haldið verðinu niðri með því að panta parta og aukahluti erlendis frá og þá aðallega frá Bretlandi. Við vinirnir sem erum í þessu sporti höfum allir keypt okkar hjól erlendis frá og þá aðallega frá Bretlandi og Bandaríkjunum.

Þú varst á BMX námskeiði hjá Anton og Benna en þú vannst aðal keppnina þar, hvernig var að vera á námskeiði hjá þessum eðal mönnum og kom sigurinn þér á óvart?

Þetta námskeið er alveg frábært og Anton og Benni eru náttúrulega algjörir snillingar og hafa þeir kennt mér heilmikið.  Ég hlusta vel á fyrirmæli þeirra og reyni á þolmörkin hjá sjálfum mér svo ég vissi ég ætti kannski einhverja möguleika á að lenda ofarlega í keppninni, en að vinna hana var auðvitað enn betra og óvænt.

guð 4

Hvernig tónlist hlustar þú á og hvaða hljómsveitir / tónlistarmenn eru í uppáhaldi og ertu með eitthvað í eyrunum þegar þú ert að hjóla?

Ég hlusta mest á rapptónlist og þá aðila eins og Rae Sremmurd, Asap Ferg, Drake, Chief Keef, Jay Z, Emmsjé Gauta og Wiz Khalifa, ásamt fleirum. Ég er oftast með Spotify playlista í eyrunum þegar ég er að hjóla.

Er stefnan sett á atvinnumennskuna eða hefur sú hugsun aldrei læðst að þér?

Þetta er klárlega það skemmtilegasta sem ég geri og ég ætla að halda áfram að bæta mig og ögra og já ég stefni á atvinnumennskuna og að vinna við eitthvað tengt BMX í útlöndum.

guð 3

Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að hjóla og hvað er framundan hjá þér?

Ég hlusta mikið á tónlist, fer á snjóbretti en ég æfi einnig snjóbretti.  Einnig á ég fjórhjól sem ég fer á ef tími gefst og svo hangi ég mikið með vinum mínum. Framundan hjá mér er að klára þennan vetur í skólanum, æfa BMX og snjóbretti og svo er stefnan tekin á æfingabúðirnar í júní og eitthvað fleira skemmtilegt.

Comments are closed.