Grípandi popplag sem jafnvel hörðustu rokkarar ættu að geta dillað sér við

0

Tónlistarkonan MIMRA sendi fyrir skömmu frá sér lagið „Allt eða ekkert” en um er að ræða grípandi popplag sem jafnvel hörðustu rokkarar ættu að geta dillað sér við. Ástin og sumarið flæðir í gegnum lagið en það fjallar um manneskju sem leggur spilin á borðið og játar loks fyrir þeim sem hún er að hitta hvernig henni raunverulega líður. MIMRA á lag og texta og vann lagið í samvinnu við Daða Birgisson sem sá um hljóðhönnun og mix. Um hljómjöfnun sá svo Bjarni Bragi Kjartansson og útgáfan var styrkt af STEF.

MIMRA er listamannsheiti tónlistarkonunnar Maríu Magnúsdóttur sem hefur verið áberandi og látið mikið að sér kveða undanfarið. Nýlega kom frá henni stop-motion tónlistarmyndband við lagið Sinking Island af samnefndri plötu frá 2017. Myndbandið var listilega unnið af Andvara og fór hin 10 ára gamla Embla Steinunn með annað aðalhlutverkanna þar. Í júní síðastliðnum túraði MIMRA ásamt hljómsveit sinni um Ísland og héldu þau 11 tónleika á 13 dögum vítt og breitt um landið við góðar undirtektir.

Skrifaðu ummæli