GOGGI Í SIGUR RÓS

0

3095526464_9f6733dd92_o

Georg Hólm er bassaleikari Sigur Rós einnar vinsælustu hljómsveitar íslands á heimsvísu. Goggi segir okkur frá því hvernig Sigur Rós byrjaði, tónleikum sem hann mun aldrei gleyma og hvernig það er að túra út um allan heim.


Hver er Georg Hólm

Ég er KR-ingur, tónlistarmaður í hljómsveitinni Sigur Rós og er einnig lærður kvikmyndagerðarmaður en hef aldrei gert neitt í því (hlátur) en jújú við höfum gert tvær kvikmyndir. Ég lærði í Evrópska kvikmyndaskólaum í Danmörku, var þar frá 1996 til 1997.

Hvenær er Sigur Rós stofnuð

Við stofnuðum Sigur Rós nákvæmlega 4. janúar árið 1994. Við munum dagsetninguna rosalega vel. Það var ég, Jónsi og Gústi sem var trommuleikarinn þá. Ég og Gústi vorum saman í hljómsveit og Jónsi var í öðru bandi en við vorum allir vinir og vorum stundum að spila saman, semsagt fyrir 4. janúar. Við ákváðum að fara með lag saman í stúdíó sem var í Fellahelli. Lagið heitir „Fljúgðu“ og var á plötunni smekkleysa í hálfa öld. Við höfðum semsagt bókað stúdíóið 4. janúar árið 1994. Við stofnuðum hljómsveitina strax eftir að við tókum upp þetta lag. Okkur fannst þetta ekkert galið, þannig við ákvöðum að halda áfram. Við stofnuðum þá Sigur Rós með handabandi, það var alltaf þannig á þessum aldri, Þá er þetta orðinn sáttmáli. Nú erum við hljómsveit! Það eru bráðum 21 ár síðan við ákváðum að þetta yrði hljómsveit sem er ótrúlegur líftími.

Er alltaf jafn góður mórall í bandinu

Já það er það skrítna við það og mórallinn verður bara alltaf betri og betri. Þegar við vorum búnir að vera í bandi saman í tíu ár þá var mórallinn ekkert hundrað prósent en svo lærir maður, eldist  og þroskast og þá batnar mórallinn á móti. Ég man þegar við vorum að taka upp sviga plötuna það var mjög erfiður tími innan hljómsveitarinnar. Það var búið að vera svolítið þungt og við vorum búnir að vera að túra alveg none stop í einhver þrjú til fjögur ár, maður var aldrei heima hjá sér og orðin svolítið þreyttur á þessu rútulífi. Öll lögin á þeirri plötu voru samin þegar við vorum að túra Ágætis Byrjun. Hálfa leiðina á Ágætis Byrjun túrnum vorum við komnir með svo mikið leið á þeim lögum að við vorum farnir að semja ný lög og vorum sem sagt ekkert að spila Ágætis Byrjun á Ágætis Byrjun túrnum. Við vorum sem sagt að prófa nýju lögin (hlátur). Þegar við fórum síðan í stúdíó að taka upp þá plötu var svolítið erfitt að taka upp lög sem við vorum búnir að spila þrjúhundruð sinnum og reina að ná þeim einhvernvegin rétt. Núna í dag kunnum við að túra í langan tíma án þess að það slettist upp á móralinn. Síðasti túr sem við fórum í var 18 mánuðir og ég man ekki eftir neinum leiðinlegum atvikum, bara yndislegt allan tímann. Maður lærir þetta með tímanum.

11062778364_81e20bcc69_z

Eru túrarnir ykkar ekki orðnir mjög umfangsmiklir

Jú þetta er orðið svolítið ýkt! Þegar við vorum að túra Bandaríkin seinast þá voru allir tónleikarnir á hokkí eða körfubolta leikvöngum og á bakvið eru bílastæði fyrir trukkana. Ég stóð þar eitt skiptið með kaffibolla og fór bara að hlæja að þessu, þetta voru fjórir trukkar og fjórar rútur þannig þetta voru átta risa bílar, sjö tonn af græjum og sextíu manns að vinna fyrir okkur en alls um þrjúhundruð manns sem voru að vinna að einum tónleikum á einu kvöldi, þetta er orðið svolítið ýkt! Svolítið fyndið að segja frá því að maður var stundum farinn að díla við svona lúxus vandamál, maður var farinn að spyrja t.d. „hvað eru margir í kvöld, það er næstum því uppselt, það eru fjögur þúsund og tvö hundruð“ og maður var alveg „ha fjögur þúsund og tvö hundruð“, maður var farinn að kvarta yfir því, „af hverju er ekki tíu þúsund“ (hlátur) þá var maður farinn að segja við sjálfan sig „æ Georg þegiðu“ (hlátur). Ég man eftir einu öðru svona atriði, ég var nýkominn inn á hótelherbergi og ég var kominn með nettan túra-leiða, labbaði inn og henti töskunni frá mér, dró frá glugganum og þetta var rosa stór gluggi og ég stóð og horfði útum gluggann frekar súr eitthvað en þá bara allt í einu kviknaði á einhverri peru. „Nei heyrðu ég stend inn á mjög nice hótelherbergi og er að horfa á óperuhúsið í Sidney, ef ég kvarta núna þá er ég hálfviti“ (hlátur).

9660467341_de2856798a_z

Finnst þér alltaf jafn skemmtilegt að fara í tónleikaferðir

Já mér finnst það og seinasti túr er örugglega skemmtilegasti túr sem ég hef farið á. Við hugsum þetta alltaf í svona kubbum. Við förum ekki í stutta túra heldur eru þetta átján mánuðir. Þetta er í rauninni eins og eitt campain. Síðasti túr sem var átján mánuðir var alveg frábær. Held við höfum aldrei verið jafn vel spilandi, nánast perfect á hverju einasta kvöldi og mjög skemmtilegt fólk með okkur. Kjartan Sveinsson hætti í bandinu og við fengum Óbó (Óli Björn) til að spila á píanó, slagverk og allskonar dóterí. Kjartan bróðir minn var fenginn á gítar og allskonar dót og þeir voru svona lykilmennirnir okkar. Við hefðum ekki getað spilað án þeirra  allavega ekki eins og við gerðum. Þegar Kjartan fer þá þarf að hugsa allt upp á nýtt sérstaklega þar sem Kjartan gerði svo mikið. Við vorum líka með strengi og brass og allt fólkið alveg frábært.

Hvað eru þið mörg á sviðinu

Við erum ellefu og hálfur (hlátur). Það eru allskonar aukahljóð á plötunum okkar sem er mjög erfitt að endurskapa á sviði, jú það er hægt að ýta á play á einhverri græju á sviðinu en það viljum við ekki gera. Það var semsagt gaur við hliðin á sviðinu sem heitir Mark og hann er með græju sem við köllum ráðagóði róbótinn (hlátur) og það er alveg mögnuð græja. Við röðum lögunum oft rétt fyrir tónleika og á sviðinu eru margar græjur sem eru midi tengdar og það þarf mjög oft að skipta um hljóð í þeim og í staðin fyrir að manneskjan sem er að spila þurfi að gera það þá er það allt gert með ráðagóða róbótanum við hliðin á sviðinu þannig við á sviðinu þurfum ekkert að spá í því. Þetta er alveg ótrúlega þægilegt. Það tók hálft ár að æfa og græja þetta en það er alveg þess virði.

sigur ros hneigja

Hvað er það skemmtilegasta við að vera í Sigur Rós

Að vera í fríi (hlátur). Það sem er svona rosalega gaman hjá okkur akkúrat núna er að það er allt rosalega opið akkúrat núna. Við höfum aldrei verið jafn frjálsir. Við erum búnir að klára plötusamningana okkar og það sem við erum búnir að vinna svona lengi og erum í þessari stöðu þá þurfum við ekki plötusamninga og viljum helst ekki plötusamninga þannig að við erum alveg frjálsir, gerum nákvæmlega það sem við viljum, við þurfum ekki að gera neitt en okkur langar að gera ýmislegt. Við erum reyndar að vinna mjög hægt í nokkrum mjög spennandi verkefnum en ég má ekki segja orð. Við erum búnir að skrifa undir loka samning sem er mjög spennandi en kemur svo betur í ljós á næsta ári hvað það er, en okkar hlið á því kemur öruglega ekkert í ljós fyrr en 2016 þó að þetta verkefni mun líta dagsins ljós seinna á næsta ári ef allt gengur upp. Þannig það er allt mjög öðruvísi það sem við erum að gera í dag. Jónsi er á fullu að gera hitt og þetta tónlistarlega séð bæði í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Ég og Orri höfum ekkert verið að troða okkur neitt rosalega inn í það. Það er líka rosalega mikil vinna og við erum ekki alveg tilbúnir í þann pakka akkúrat núna. Túrinn tildurlega nýbúinn, eða tæpt ár síðan hann kláraðist (hlátur) en það tekur alveg þennan tíma að jafna sig og vinna það upp fjölskyldulega séð.

7985066281_d23b69a601_z

Hvernig er að tvinna saman Sigur Rós og fjölskyldulífinu

Það er ekkert auðvelt og alls ekkert grín. Ég held samt að það lærist alveg eins og það lærist að túra og það er ekki bara ég sem læri það heldur líka fjölskyldan. Ef ég lít á síðasta túr hjá okkur þá gekk það allt frekar vel, en það getur verið rosalega erfitt ef að barnið manns þarf að fara til læknis útaf einhverju og maður er fastur út í heimi t.d. í Singapore sem er mjög langt í burtu og það er ekkert sem maður getur gert. Annað en Danmörk sem er rétt hjá, þar getur maður hoppað upp í næstu vel og beint heim, og svo á móti mjög erfitt fyrir konuna mína hún er bara ein. Hún er að klára Háskólanám og tvinna það saman líka, það getur verið mjög erfitt, svo eitt barn á leikskóla annað í skóla og svo líka sjálf í skóla en þetta gengur samt furðu vel.

1400526_10152107192414124_1614897909_o

Þú hefur ferðast út um allan heim, hver er þinn uppáhalds staður

Ég mundi segja að þeir væru svolítið margir, það er svolítið erfitt að gera upp á milli þeirra, en svo fer eftir því hvað ég er að fara að gera. Það eru sumir staðir sem ég elska að koma á bara til að spila, það er rosalega gaman að spila á mörgum stöðum en það er sérstaklega gaman að spila á Írlandi krádið þar er alveg einstakt. Það er rosalega gaman að spila í Portúgal og mjög gaman að koma til þessara staða líka (hlátur). Svo eru staðir eins og Japan sem er alltaf gaman að koma til, ég get ekki sagt endilega að það sé uppáhalds staðurinn minn til að spila á, síðast þegar við spiluðum þar var frekar sérstök stemmning en það er alltaf sérstök stemmning á festivölum … nei ég reyndar lýg því, það var reyndar einstakt síðast en við spiluðum í Budokan og það var uppselt í Budokan þetta var alveg einstakt og alveg geggjuð stemmning og ég hef aldrei upplifað Japani taka svona vel á móti okkur. Þeir eru venjulega svona frekar til baka og maður fær ekkert rosalega mikið út úr því en þarna voru þeir alveg þver öfugt bara alveg eins og að koma til Dublin (hlátur). En uppáhalds staður, ég held að það sé einn svona uppáhalds uppáhalds staður á hnettinum og það er Maldives eyjar algjör paradís á jörðu eins og þegar maður horfir á einhverja James Bond mynd og hann er að spóka sig á fallegri strönd þá er það örugglega tekið á Maldives (hlátur). Við vorum að spila í Singapore og kuala lumpur og ég hafði verið að skoðað landakort af því áður og ég hugsaði „já Kuala lumpur og þarna mitt á milli er Maldives eyjar“ og ég hafi sagt við konuna mína að ég mundi einhvern daginn bjóða henni þangað og ég hugsaði „hey ég er nánast við hliðin á Maldives“ þannig að ég tók þá ákvörðun að ég mundi fljúga henni til Kula lumpur og við mundum fljúga saman til Maldives eyjar og vera þar í viku og við gerðum það en þannig tvinnar maður stundum saman túra-lífið og fjölskyldulífið.

11158474066_8bdba3ba8d_z

Er Sigur Rós ekki komnir með nýja aðstöðu úti á Granda

Jú þetta er svona Man cave (hlátur). Við seldum sundlaugina og það eru öruglega komin sjö eða átta ár síðan við seldum okkur út úr því. Kjartan hélt sínum hlut í stúdíóinu, hann keypti okkur í rauninni út, hann og Biggi sundlaugarvörður keyptu það saman. Ég persónulega hafði engan áhuga á að reka stúdíó lengur. Á þeim tíma sá ég aldrei fyrir mér að við mundum nota það sem stúdíó það var kominn smá leiði á að vinna inn í því. Okkur langaði frekar að leigja stúdíó í 10 daga í New York einhverstaðar og taka upp þar en það fyndna við það höfum við notað þetta stúdíó mest af öllum í heiminum (hlátur). Alveg síðan þá höfum við vitað að við þurftum að eignast eitthvað athvarf. Við höfum verið að leigja húsnæði og alltaf á leiðinni að kaupa eitthvað og svo einhvernvegin eftir þennan túr þá var komið að því og við vorum alltaf að leita að einhverju þar sem við mundum koma fyrir öllum þessum flight cases og öllum græjunum en svo er þetta orðið svo nice þarna út á Granda að við viljum ekkert hafa þessi flight case, þannig að við enduðum á að leigja geymslu undir þau (hlátur). Við þurfum að hafa eitthvað nice þar sem við nennum að koma og hittast og spila tónlist og jafnvel bara ekki spila tónlist, halda matarboð eða eitthvað.

8040384789_27c78c4746_z

Hvar sérðu ykkur eftir 10 ár

Vá ég veit það ekki það er svolítið erfitt að segja. Við grínuðumst alltaf með það fyrir nokkrum árum síðan „við hljótum að hætta þessu áður en við erum búnir að vera í hljómsveit í tuttugu ár og orðnir fertugir“ svo einhvernvegin er það bara að renna upp og mér líður ekkert að maður þurfi að hætta því bara til að hætta því. Við höfum sagt alltaf líka „við gerum þetta á meðan þetta er gaman“ og þetta er ennþá rosalega gaman og ef eitthvað, þá er þetta bara skemmtilegra en einhverntíman áður. Við erum alltaf svo hægir í gang. Ég lýsi þessu sem gufulest svona eimreið þegar hún er komin í gang þá spólar hún fyrst í sporinu, svo þegar hún er komin á hraða þá er erfitt að stoppa hana. Þannig við erum svolítið þannig eins og gömul eimreið. Við förum í gang aftur en þessi tónlistarheimur er svo breyttur, en ég er ekkert hundrað prósent viss um að við séum að fara að vinna í nýrri plötu. Sá heimur er bara svolítið dáinn held ég. Það gæti vel verið fljótlega en tek það fram að við erum ekki byrjaðar á neinu. Það gæti vel verið að við mundum gefa út lag og kannski gerum við það í framtíðinni, lag og lag þegar okkur sýnist. Svo erum við innan gæsalappa að vinna í verkefnum. Svo er að koma út endurútgáfa af eldra efni eins og „Ágætis Byrjun“ og svoleiðis. Það kemur út fljótlega á næsta ári, svona afmælisútgáfa. Á næsta ári eru liðin 15 ár síðan „Ágætis Byrjun“ kom út.

sigur-ros-stormur

Eftir Ágætis Byrjun gerðist allt frekar hratt er það ekki

Jú frekar. Við spiluðum á fyrstu Iceland Airwaves í flugskýlinu ef ég man rétt og þar voru einhver plötufyrirtæki sem komu og töluðu við okkur og vildu gefa okkur út. Við vorum allt í einu komnir til London að spila á tónleikum, vorum farnir að hitta puplishing og rosalega mikið af fundum á lögfræðiskrifstofum til að fara yfir samninga. Við vildum vita allt og vildum vita hvað allar klausur þíddu. Þetta var algjör vitleysa við áttum bara að treysta lögfræðingunum. En kannski var þetta gott því við lærðum ýmislegt í lögfræði (hlátur) æ maður fattaði allt í einu „er ég í hljómsveit eða er ég lögfræðingur“ en svo þíðir heldur ekkert bara „ég er í hljómsveit og ég trúi öllu sem mér er sagt“ og skrifa svo undir, Þannig endar maður illa í því. Því lengur sem maður er í þessu og vinnur með sama fólkinu þá fer maður algjörlega að treysta því. Í dag er ég algjörlega farinn að skrifa blindandi undir samninga sem umboðsmennirnir okkar koma með því ég treysti þeim bara og þeir vita alveg hvað ég vil líka.

Hver er þín fyrsta tónlistar minning

Ég veit ekki alveg hvort ég hafi alltaf viljað vera tónlistarmaður. Pabbi átti klassískan kassagítar með nælon strengjum en hann kunni samt ekkert að spila á hann en langaði alltaf að spila á gítar en hann lærði svo á gítar og spilar á gítar í dag. Ég man oft þegar ég var lítill þá var ég að fikta, lemja strengina, plokka stundum einn og einn streng þá fattaði maður „já maður getur búið til lög“ svo átti ég lítið hljómborð sem maður gat sett svona kubb í sem kenndi manni að spila og það kom svona ljós (hlátur) ég man rosa mikið eftir þessu og það var líka rosa mikil tónlist á heimilinu og í bílnum. Ég var alltaf keyrður á morgnanna í leikskólann því við bjuggum frekar langt frá en ég man það var alltaf kassetta með Leonard Cohen í bílnum, en já ég á nokkrar sterkar tónlistarminningar úr æsku. Ég man líka eftir þegar ég stofnaði fyrstu hljómsveitina mína, svona í kringum 13 ára með Gústa einmitt. Þá fékk ég lánaðan gítar frá frænda mínum þetta var eiginlega spýta með strengjum og mundi eiginlega ekki kalla þetta gítar (hlátur) en ég kunni ekkert á gítar og var eiginlega ekkert að flýta mér að læra gripin þannig ég var eiginlega bara að lemja hann alveg eins og þegar ég var fjögra ára (hlátur). Gústi átti trommusett og var eitthvað að berja það en svo kom þetta bara hægt og rólega.

Það var alltaf mikil tónlist í kringum þig þegar þú varst að alast upp, telur þú að það hafi haft áhrif á að þú fórst sjálfur út í tónlist

Já, alveg án efa ég var alltaf að hlusta á tónlist en fyndið að segja frá því að í dag finnst mér ekkert rosalega gaman að hlusta á tónlist (hlátur) kannski af því maður er svo mikið í kringum tónlist. Maður er alltaf að spila og eitthvað og þegar maður er ekki að túra, semja eða taka upp plötu þá er ég ekkert svakalega mikið að pæla í tónlist. Ég enda alltaf á því að spila eitthvað gamalt, það sama og ég var að hlusta á þegar ég var tólf eða þrettán ára. Led Zeppelin, Niel Young og Leonard Cohen og eitthvað svoleiðis dóterí. Ég á ennþá allar vínyl plöturnar sem pabbi átti og ég set þær ennþá á fóninn og þær eru orðnar alveg vel slitnar. Stundum finn ég nýja tónlist sem ég fíla en ég fæ leið á henni mjög hratt (hlátur). Tónlist í dag er oft í svona tveimur flokkum það er annarsvegar mjög catchy og verður brjálað hitt sem maður fær svo leið á mjög fljótt eða þá bara svona tónlist sem er voða mikið BLEH!! (Hlátur) og fólk er oft að segja við mig „þetta er geggjuð plata, geggjað lag“ og ég er bara ekki að skilja hvað það er sem fólk er að heyra í þessu. Ég hrífst oft með það sem er catchy, ég hef mjög gaman af melódíum en svo er það spilað svo rosalega mikið í útvarpinu að maður fær bara leið á því.  Mér finnst Íslensk tónlist hins vegar mjög skemmtileg og alveg ótrúlega mikið af góðri tónlist í gangi. Það er eins og íslendingar séu óhræddir við að reyna bara það sem það vill og er alveg sama hvort þú ert að fíla það eða ekki. Það er attitude í íslenskri tónlist og mér finnst það töff!

8199573090_7f2254f726_z

Er einhver ein plata sem þú getur alltaf sett á fóninn og færð aldrei leið á?

Það eru frekar margar, en ég get alltaf hlustað á Led Zeppelin ég held þeir hafi aldrei gert leiðinlegt lag, ég held ekki sko, meira að segja síðasta stuff sem þeir gerðu fannst mér gott. Svo eru plötur eins og „Harvest“ með Niel Young, það er einhvernvegin alltaf hægt að hlusta á hana. Síðan flest stuff með Leonard Cohen en ég hef ekkert verið alveg brjálæðislega hrifin af því nýjasta sem er kannski útaf pródúseringunni á því og hljómurinn, það fer eitthvað í taugarnar á mér við það þó svo að hann er ótrúlegur en ég mundi vilja að þetta væri frekar bók með textunum og lesa textana (hlátur). Svo gekk eitthvað æði á Facebook að allir ættu að skrifa topp tíu lögin úr æsku sinni og ég er ekki ennþá búin að gera það, þetta er eitthvað svona challenge. Ég sat einmitt með konunni minni og við vorum að tala um þetta þá var hún búin að gera svona lista, þá var maður alveg ok tíu plötur er frekar lítið það er alveg hellingur af plötum sem ég elska, Pixies, Nirvana, allar þessar plötur frá þeim tíma, rosalega mikið af þessu 90´s stuffi sem fylgir manni sem maður er líka bara búin að gleyma en ætti að hlusta meira á.

Áttu eitthvað guilty pleasure lag sem þér finnst alveg geðveikt en þorir ekki að viðurkenna það?

(Hlátur) alveg helling af þeim, eiginlega of mörg til að telja. Ég hlusta ekkert rosalega mikið á tónlist þannig séð en ég er alæta á tónlist. Alveg frá því ég var krakki þá er ég að tala um yngri en tíu ára þá átti ég svona guilty pleasure lag sem hét „Sailing“ með Rod Stewart en allir vinir mínir skildu það ekki og voru alveg „af hverju Rod Stewart“ (hlátur) en þá voru allir að hlusta á Kiss og Duran Duran, en mér fannst þetta geðveikt lag alveg ótrúlega flott. Ég þóttist alltaf hlusta á Duran Duran, Wham og allar þessar hljómsveitir með svitaböndin sem var voða vinsælt en það fyndna við það að ég fýlaði þær aldrei (hlátur) ég vildi frekar hlusta á Leonard Cohen og Rod Stewart (hlátur). Svo man ég alltaf þegar ég kom heim til Ömmu og hlustaði alltaf á gömlu plöturnar með Roger whittaker „Mexican Whistler“ mér fannst þetta miklu flottara en að hlusta á Duran Duran (hlátur) ég var bara ungur að fylgja straumnum. Svo finnst mér fullt af lögum með U2 flott og það þykir ekkert rosalega cool að hlusta á U2. Bono á víst að vera algjör asni, reyndar segja Írarnir það sjálfir, þeir þola hann ekki (hlátur). Ég man að eitt skipti þegar við vorum að spila þá stóð hann við hliðin á sviðinu, ætli það hafi ekki einmitt verið í Írlandi, ég náði ekki að hitta hann en restin af bandinu náði að hitta hann og hann sagði víst við gítartekkinn okkar „djöfull er þessi bassaleikari töff“ þannig ég elska Bono í dag (hlátur) en mér finnst margt gott með U2 hef ekkert á móti honum.

7985075910_ce89f49dba_z

Áttu einhverjar fyrirmyndir í tónlist t.d. bassaleikari sem þú hefur litið upp til og fengið innblástur frá?

Jájá, það er svolítið fyndið ég hef alltaf litið upp til John Paul Jones í Led Zeppelin sem er mjög fyndið því hann er mjög tekknískur og svona bussy bassaleikari sem ég er í rauninni ekki ég er eiginlega alveg andstæðan á því en samt hefur mér alltaf fundist hann ótrúlegur en bassaleikarar sem mér finnst góðir eru t.d. Jonathan Richard Guy „Jonny“ Greenwood í Radiohead mér finnst hann ótrúlegur. Hann gerir rosalega einfalda hluti en melódíska, mér finnst það ótrúlega flott. Ég er ekki mjög hrifin af svona show off Bassaleikurum mér finnst Bassi ekki vera þannig hljóðfæri. Ef þú ætlar að gera eitthvað annað sem að gítarinn er að gera þá á það að vera eitthvað fallegt og melódískt og á aldrei vera of bussy.

Komdu með eina góða túr sögu að lokum

(Hlátur) Þær eru orðnar ansi margar, fullt af sögum ég veit ekki hvort ég ætti að vera að segja þær (hlátur). Nú dettur manni allt það versta í hug (hlátur). Ég á eina góða, þetta er móment sem ég mun aldrei gleyma og öruglega ekki gítartekkinn okkar heldur. Við vorum að spila þrenna tónleika í röð í Brixton Academy í London. Fyrstu tónleikarnir gengu rosalega vel, alveg frábærir. það var búið að ganga einhver gubbupest innan túrsins þetta var alveg langur leggur af túr held við vorum búnir að vera í fjórar vikur on the road og það var alveg um tíu dagar síðan síðasta manneskja var með gubbupest og ég hugsa „jess ég er sloppinn.“ Svo fara seinni tónleikarnir í gang og það er svona ritual innan hljómsveitarinnar sem við gerum alltaf áður en við stígum á svið, það er skálað og rétt áður en við göngum á svið þá gengur á milli okkar svona Wiskyflaska og allir fá sér bara eitt skot og ég fæ mér einn sopa og svo löbbum við upp á svið og byrjum að spila. Stuttu seinna fer mér að líða eitthvað undarlega og er eitthvað skrítinn og var bara í hálfgerðu móki og hugsaði „bíddu þetta er ekki alveg í lagi“ og fæ mér vatn og eitthvað en er oftast með bjór upp á sviði en næ aldrei að drekka hann því það er alltaf nóg að gera, maður nær kannski einstaka sinnum að fá sér sopa. Þarna var ég farinn að fara alltaf í vatnið og Adam gítaraekkinn tók eftir að ég var orðin svolítið skrítinn „hann fær sér aldrei sopa af bjórnum hann fær sér alltaf vatn, hvað er að honum“ (hlátur). Ég man eiginlega ekkert eftir þessum tónleikum ég var í algjöru móki en ég man að það kemur eitt móment sem ég þarf að skipta um Bassa, og ég skipti um bassa og horfi á Adam og segi: „Mér er orðið svaka flökurt það er eitthvað að“ hann segir: „hérna er fata bara svona til öryggis ef eitthvað skyldi gerast.“  Inní tónleikunum er stopp og það er algjör þögn í smástund og ég hleyp af sviðinu og þá syngur Jónsi eitthvað aðeins og þá æli ég eins og brjálæðingur, hef aldrei ælt svona mikið á ævinni en svo stoppar Jónsi aftur og þá held ég í mér annars mundi heyrast í mér ælandi yfir allt og þarna beið hann alveg extra lengi en byrjaði svo aftur og þá bara hélt ég áfram að æla. Svona gekk þetta alla tónleikana, alltaf milli laga hljóp ég við hliðin á sviðinu og ældi en ég náði að klára alla tónleikana og var mjög stoltur að hafa púllað það. Það tók enginn eftir þessu, enginn á sviðinu eða neitt, alveg magnað.

 

Comments are closed.