GETUR VERIÐ ÓGNANDI AÐ FARA Í SITT FYRSTA TATTÚ

0

Tattú stofan Memoria Collective hefur verið á allra vörum upp á síðkastið en þar ríkir einstaklega þægilegt andrúmsloft. Stofan opnaði í ágúst í fyrra eftir langan aðdraganda en að sögn Kristjáns komu vinsældirnar þeim ekki á óvart.

Albumm.is náði tali af Kristjáni Gilbert einn af eigendum stofunnar og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um tattú og stofuna Memoria Collective.


Hvenær fórst þú að hafa áhuga á tattúum?

Þegar ég var mjög ungur, kannski 8 – 9 ára gamall. Afi var einn af þessum gömlu sjóurum með sjóara tattú erlendis frá og móðurbóðir minn var einn sá fyrsti að fá sér ermi á Íslandi. Ég sjálfur þurfti víst að bíða til 18 ára aldurs til þess að fá mér mitt fyrsta tattú sem var stjarna á olnbogann auðvitað.

Hvernig stíll heillar þig mest?

Erfitt að gera upp á milli þeirra þar sem þetta er allt list á sinn hátt. En ég sjálfur einhvern veginn endaði með mest allt í „traditional“ stíl og þykir mér mjög vænt um það.

Varstu lengi að verða flinkur með nálina og hvernig æfir maður sig að tattúa?

Ég hef lítið verið að flúra en þó eitthvað og hef mjög gaman af. En strákarnir á stofunni okkar sjá um það; Siggi, Haukur, Javi og Jason Thompson. Annars æfir maður sig bara að flúra vini og ættingja.

Nú ert þú einn af eigendum tattústofunnar Memoria Collective ásamt Hauki og Sigga. Hvenær opnaði hún og hvað kom til að þið opnuðu tattú stofu?

Við opnuðum stofuna byrjun ágúst 2016 eftir langan undirbúning. Allir höfum við mikinn áhuga á tattúum, ég elska tattú og með nokkur sjálfur en Haukur og Siggi vinna við þetta. Við vorum með fullt af góðum hugmyndum til að opna stofu með okkar eigin „concepti,“ sem að hefur tekist svona rosalega vel.

Memoria Collective hefur fengið glæsilegar viðtökur, kom það ykkur á óvart og af hverju helduru að það sé?

Nei eiginlega ekki. Allir sem hafa komið á stofuna okkar hafa verið mjög velkomnir og auðvitað líka þeir sem ekki enn hafa komið til okkar og erum við að gera okkar besta í að skapa sem þægilegasta stemmingu á stofunni og viljum við að öllum líði vel hjá okkur. Okkar tilfinning er sú að það getur verið ógnandi að fara inn á tattústofu í sitt fyrsta tattú og langar okkur að breyta því og það hefur verið að takast. Fyrir utan það eru strákarnir ótrúlega hæfileikaríkir og ekki skrítið að vinnan þeirra verði vinsæl.

Hvað er framundan hjá þér og Memoria Collective?

Það er nóg að gerast hjá okkur á næstunni. Fullt af frábærum og vinsælum gesta artistum eru á leiðinni til okkar. Hægt er að fylgjast með því á bæði Facebookinu okkar og Instagram. Einnig vorum við að eignast hlut í Mold skateboards sem eru íslensk handsmíðuð hjólabretti og er það mjög spennandi verkefni.

Eitthvað að lokum?

Við erum mjög þakklátir fyrir viðtökurnar og við munum halda áfram að gera okkar besta til að koma til móts við okkar viðskiptavini.

Skrifaðu ummæli