GERIR TÓNLIST ÚT FRÁ ÍSLENSKUM FUGLAHLJÓÐUM

0

Tónlistar og fjölmiðlamaðurinn Freyr Eyjólfsson er margt til lista lagt en hann var að senda frá sér afar forvitnilega plötu sem ber heitið Íslensk Fuglahljóð. Freyr notast við nafnið Geimfuglarnir á þessari flottu plötu en hann segir að tónlist og söngur fuglanna sé fegursta tónlist sem til er!

Albumm.is náði tali af Frey og svaraði hann nokkrum spurningum um plötuna.


Hvernig kom það til að þú réðst í gerð þessarar plötu og er hún búin að vera lengi í vinnslu?

Mig langaði að læra á almennilega sampler, sem er eitt merkilegasta hljóðfæri síðari tíma og þá kom upp þessi hugmynd að taka saman íslensk fuglahljóð og vinna tónlist út frá þeim. Búin að vera svona ár í vinnslu. Þetta er voða mikið svona bútasaumur.

Afhverju fuglar og hvernig og hvar er platan unnin?

Tónlist og söngur fuglanna er fegursta tónlist sem til er. Er til eitthvað betra en að liggja í íslenskri lyngbrekku og hlýða á fuglasöng? Það er gaman að hlusta og reyna skilja þessa tónlist. Hvað eru fuglarnir að syngja og hvers vegna? Við reynum að nálgast þessa tónlist, hugsa eins fuglar; styðja við sönginn, spila undir. Við búum til ný hljóð úr fuglasöngnum, teygjum hann upp og niður. Þetta er ambient tónlist sem er alltaf svoldið eins og að mála málverk. Enginn taktur eða tóntegund, meira svona hlutföll og samsetning.

Þetta er ansi frábrugðið þínum fyrri verkum er von á fleira efni frá þér í þessum dúr?

Ég og Þorkell erum í hljómsveit sem heitir Geirfuglarnir, sem er svona polka-harmonikkuband. Við höfum alltaf verið forfallnir áhugamenn um elektrónik og þess vegna lá beint við að gera hliðarbandið Geimfuglarnir. Keli er náttúrufræðingur og veit allt um fugla. Þessi plata er meira svona í anda Jean Michel Jarrre og Brian Eno, einföld og dálítið lagræn ambient/elektrónik. Ég hef alltaf verið forfallinn aðdáandi Future Sound Of London sem eru snillingar á þessu sviði. Kannski ef við komumst í mjög góða hljóðnema gerum við plötu með íslenskum skordýrum eða fiskum – það væri gaman.

Á að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi?

Nei, því miður. Mætir einhver á ambient tónleika? Nema maður sé á sýru? Ég bý í Frakklandi og Keli á Íslandi. Svo það er flókið.

Eitthvað að lokum?

Hlustið á tónlistina í kringum ykkur – hún er æði. Gatan, kliðurinn, vindurinn, fuglasöngurinn, suðið í flugunum. Þetta er gott stöff.

Skrifaðu ummæli