„GERÐUM OKKUR FERÐ ÚR MOSÓ TIL AÐ HLUSTA Á PLÖTUNA“

0

Jens og Kristó þenja raddböndin á tónleikunum!

Sannkölluð rokkmessa fer fram á Gauknum annað kvöld föstudag 8. September en þá verður rokksveitin Alice In Chains tekin fyrir! Alice In Chains var stofnuð árið 1987 í Seattle í Washington fylki Bandaríkjanna. Upp úr 1990 var hún leiðandi í grugg bylgjunni sem tröllreið heimsbyggðinni ásamt Nirvana, Pearl Jam, Soundgarden og fleiri sveitum.

Einvalalið tónlistarmanna koma fram á þessum frábæru tónleikum, en þeir eru: Jens Ólafsson (Brain Police) – Söngur, Kristófer Jensson (Lights On the Highway) – Söngur, Franz Gunnarsson (Dr. Spock) – Gítar, Helgi Reynir Jónsson (Dalí) – Gítar, Kristján B. Heiðarsson – Trommur(Skurk) og Jón Svanur Sveinsson (Nykur) – Trommur.

Albumm.is náði tali af Kristófer Jenssyni (Kristó) og Jens Ólafssyni en þeir einmitt þenja raddböndin á umræddum tónleikum.


Hvenær heyrðuð þið í Alice In Chains fyrst og hvað er það við sveitina sem heillar ykkur?

Jenni: Mín fyrsta minning af AIC er að heyra Dirt í fyrsta skiptið og þá lögin rooster og down in a hole. Held ég hafi verið 15 ára. Þetta var partur af grunge-inu sem sprakk í andlitið á manni á þessum tíma og ég drakk það upp eins og svampur, Nirvana, stone temple pilots, soundgarden meðal annars. Fyrstu lögin sem ég heyrði voru rooster og down in a hole. Það var eitthvað við grunge-ið sem greip mig. Þessi melancholy rebellion fílingur. Chris Cornell og Scott Wieland voru kanski meira mínir menn og þá sérstaklega Cornell, sem var ein stærsta ástæðan fyrir því að ég byrjaði að syngja, en þegar ég eignaðist double CD með AIC, Sap og Jar of flies þá kickaði eitthvað inn og ég kolféll ég fyrir AIC. Frábærar lagasmíðar og hvernig raddirnar keyrðu gerði bara eitthvað fyrir mig.

Kristó: Ég hef líklega verið um 13 ára þegar ég heyrði í þeim fyrst. Um það leyti sem Dirt kom út las ég um þá í einhverju tónlistartímariti (man ekki hvaða tímariti reyndar). Mig minnir að ég og Stjáni vinur minn höfum gert okkur ferð í bæinn úr Mosó til þess að hlusta á plötuna í plötubúð. Þeir höfðu eitthvað sound sem ég hafði aldrei heyrt áður, þung gítar riff og melódískar raddanir ofan í allt saman. Lane Staley var líka svalur frontmaður og geggjaður söngvari. Ég var lengi með plakat af honum uppi á vegg í herberginu mínu á þessum tíma. AIC er líklega ein af áhrifameiri sveitum á unglingsárin í mínu tilfelli.

Sveitin hefur sent frá sér fimm plötur á ferlinum, hvaða plata er best að ykkar mati og afhverju hún?

Jenni: Það er mjög erfitt fyrir mig að benda á einhverja eina plötu sem bestu plötu. Mér finnst allar góðar á sinn hátt. Kanski Facelift út af hún er fyrst og kanski meira hrá en hinar en samt ekki. Held að það sé kanski auðveldara að benda á soundið og röddina í Laney Staley.

Kristó: Dirt fyrir mér er heilt yfir meistarastykki og líklega lang áhrifamesta platan þeirra. Aftur á móti held ég mikið upp á Alice in Chains sem þeir gáfu út  1995, ég man að ég keypti hana í Skífuni niðri í Kringlu fyrsta daginn sem hún kom í búðir hérna heima, og var lengi búinn að bíða eftir því. Eins eru stuttskífurnar SAP og Jar of Flies í miklu uppáhaldi.

Hefur Alice In Cains haf einhver áhrif á ykkar tónlistarsköpun í gegnum tíðina?

Jenni: Já algjörlega, kanski meira heildar grunge pakkinn heldur en eitthvað eitt band. Þegar ég var 15 til 19 ára þá var ég svo móttækilegur að ég drakk allt upp eins og svampur. Einhvern vegin tónaði grunge-ið við mig og hef ég náð að nota þennan tón við nánast allt sem ég hef skapað eftir það. AIC skipar stóran sess í því.

Kristó: Það er alveg pottþétt þar sem hljómsveitin á óneitanlega stóran þátt í að móta mig sem einstakling.

Nú komið þið fram á heiðurstónleikum tileinkaðir sveitinni þann 8. September næstkomandi. Hvernig er að syngja þessi lög og við hverju á má fólk búast á tónleikunum?

Jenni: Mér finnst geðveikt gaman að gera þetta AIC tribute, við erum búnir að gera þetta nokkrum sinnum áður og mér finnst við gere þessu góð skil. Einhvern veginn finnst mér ég og Kristó tóna þetta vel saman og ég vona að gleðin sem við höfum af að gera þetta saman skína í gegn af sviðinu. Mér finnst bandið og við tveir skila þessu vel frá okkur. Við berum virðingu fyrir músíkinni og mér finnst crowdið alltaf skynja það. Þetta er veisla fyrir okkur og fyrir fólkið líka. Fólk má búast við að við reynum að skila þessu eins vel frá okkur eins og við mögulega getum.

Kristó: Það er alltaf mjög gaman að syngja þessi lög og að fá að gera það með vinum sínum reglulega, tala nú ekki um fyrir fullu húsi. Það myndast alltaf alveg ótrúleg stemming á þessum kvöldum.

Hvaða lag er skemmtilegast að syngja/spila og eitthvað að lokum?

Jenni: Það er ekkert eitt lag, heldur eru það mörg element sem spila saman og eins oft og við gerum þetta þá er það aldrei sama lagið sem situr eftir hjá mér sem skemmtilegast. Þetta eru allt geggjuð lög en samt eru alltaf einhver moment sem sitja eftir eftir hverja tónleika sem gera það að verkum að maður vill gera þetta aftur. Hver veit hvað það verður núna. Fólk ætti ekki að láta þetta fram hjá sér fara vegna þess að þetta gæti verið í síðasta skiptið sem við gerum þetta.

Kristó: Það eru nokkur lög. Mér þykir alltaf mjög gaman að syngja Brother með Jenna og svo þykir mér alltaf mjög gaman að syngja Love Hate Love þar sem það er mjög krefjandi lag. Vonast til að sjá sem flesta og gera þetta kvöld ógleymanlegt með okkur.

“You my friend I will defend, but if we change well I love you anyway”

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl 22:00 og hægt er að nálgast miða á Tix.is og við innganginn og er miðaverð í forsölu 2.500 kr og við hurð 3.000 kr.

Facebook viðburðinn má sjá hér.

Skrifaðu ummæli