GEISLAR

0

Geislar_lower_resGeislar er ný hljómsveit sem er skipuð af úrvalsliði tónlistarmanna og kvenna en Geislar gáfu nýverið út plötuna Containing The Dark. Styrmir Sigurðsson og Magnús Tryggvason Eliassen kíktu í spjall hjá Albumm og sögðu okkur meðal annars frá nafninu Geislar, upptökuferlinu og Synthanum sem er búinn að vera í viðgerð í tólf ár.


Hvernig og hvenær urðu Geislar til?

Styrmir: Ég hóaði saman þessu fólki, dró svona einn og einn undir húsvegg og narraði það í þetta project.

Maggi: Já ok shit! Það var ekki þannig með mig sko, Þú bara hringdir í mig og ég sagði bara já.

Styrmir: Ég þekkti Ómar og Óskar áður og ég og Maggi vorum saman í skóla.

Maggi: Við spiluðum svo saman í útskriftinni þinni.

Styrmir: Já, svo langaði okkur að gera eitthvað meira með þetta. Við tókum upp grunnana fyrir um tveimur árum og síðan þá er þetta búið að vera að malla. Við höfum verið að spila eitthvað live en okkur langar að gera meira af því.

Maggi: Vandamálið með að spila live er að allir í þessari hljómsveit eru mjög active fólk, þannig það getur verið vesen að koma okkur saman.

Cd front

Þú ert náttúrulega í öðruhverju bandi

Maggi: Það er ekki rétt!

Þriðja hverju bandi?

Maggi: Ok við sættum okkur við það.

Styrmir: Hann er í flestum böndum hérna á höfuðborgarsvæðinu en það eru nokkur bönd úti á landi sem hann er ekki í.

Maggi: Það er reyndar ein hljómsveit úti á landi sem ég væri til í að vera í og það er Mafama frá Akureyri, nú flyt ég bara til Akureyrar.

Hvaðan varstu að útskrifast?

Styrmir: Ég og Maggi vorum saman í FÍH og ég held reyndar að allir meðlimir hafi verið þar á einhverjum tímapunkti. Ég hitti Magga þar og þau tóku þátt í útskriftinni með mér og það var í fyrsta sinn sem þessi hópur spilaði saman í þessari mynd.

Var svo bara ákveðið að henda í plötu og tók það alveg tvö ár? Hvernig gerðuð þið þetta?

Styrmir: Ég samdi tónlistina á frekar skömmum tíma en svo er þetta mikið unnið í samvinnu með bandinu. Mér finnst svo gaman að vinna með fólki eins og þeim sem hefur mjög afgerandi persónulegan stíl, fólki sem hefur smá svona jazz nálgun þó efnið sé ekkert endilega jazz, það er alltaf síbreytilegt. Þegar við komum saman og spilum þá er músíkin ekkert endilega eins og þegar við spiluðum saman seinast, það getur farið í allar áttir.

Maggi: Þetta er svona opin popp músík og það má fara útum víðan völl þótt fólk haldi sig við einhvern ákveðinn strúktúr

Er platan eins og þið hélduð að hún yrði?

Styrmir: Hún þróast náttúrulega töluvert á leiðinni en ég er mjög ánægður með hljóðheiminn á henni en platan er unnin í nánu samstarfi við Kjartan Kjartansson og hann á mikið í henni. Við fórum t.a.m. með allar rásir í gegnum allskonar prósessa, t.d. gegnum magnara og segulbönd og aftur til baka, til að gefa þessu rétta tóninn. Ég er mjög ánægður með útkomuna.

geislar med disk

Er þetta eins opið þegar þið spilið live?

Maggi: Þetta er svipað sko.

Styrmir: Þegar við vorum að vinna efnið, taka það upp og svona þá tók það mjög miklum breytingum frá einni töku yfir í aðra. Þá var þetta alltaf að breytast og mjög lífrænt. Það sem gerðist í kjölfarið voru lítils háttar óverdubb og svo strengjaútsetningarnar. Það er eitthvað við það hvernig þær leggjast við, að þetta verður þá pínu formalískt sem leggst yfir þetta lífræna sem mér finnst mjög gaman.

Hvaðan kemur nafnið Geislar?

Styrmir: Það erfiðasta og leiðinlegasta sem nokkur gerir sem stendur í svona er að finna hljómsveitarnafn. Mér fannst að nafnið þyrfti að vera heilt, fallegt og segja einhverja sögu. Það eru alls konar sjónarmið uppi þegar verið er að finna nafn. Eitt er hvort auðvelt sé að gúggla það en þá verða oft á tíðum mjög skrítin nöfn til. Þetta nafn kom einhvernvegin til mín og mér fannst það mjög fínt en svo sá ég að það var einu sinni til hljómsveit frá Akureyri sem hét Geislar þannig ég lagði þetta bara til hliðar og hélt leit minni áfram. Gat samt ekki hætt að hugsa um það og endaði með því að hringja norður í fyrrum meðlimi Geisla og fékk góðfúslegt leyfi til að nota það. Það var mjög fallega gert af þeim og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Maggi: Mikið væri gaman ef við og þeir mundum halda einhverntíman gigg saman, það væri geggjað!

28

Hvernig band var það?

Styrmir: Það var pínu hippa fílingur.

Maggi: Pínu sýru hippi.

Styrmir: Og pínu funk skotið, allavega það sem ég heyrði.

Hvernig er að semja allt efnið en fá svo hina með þér í lið?

Styrmir:  Þó svo að ég semji þetta að þá er þetta allt unnið í mjööög góðri samvinnu og það spila allir sinn part á sinn hátt. Það skiptir öllu máli hvað t.d. Ómar eða Maggi leggja til.

Maggi: Já algjörlega og grunnbandið, eða við sex höfum spilað svo rosalega mikið saman í hinum ýmsu verkefnum þannig það var mjög auðvelt að búa til góða stemmingu.

Styrmir: Það er alls ekki þannig að ég sé að mata viðkomandi á einhverju, mér myndi aldrei detta það í hug. Allir hafa sinn stíl t.d. hefur Maggi mjög afgerandi og fallegan stíl.

Maggi: Æ þakka þér fyrir.

Styrmir: Og það smitar útí allt.

Maggi: Í öllum svona skapandi prósess og líka þegar við spilum live að þá verður fólk kannski að leggja það á sig að ákveða að það er ekki til neitt rétt eða rangt. Ef einhver ákveður að gera eitthvað hvort sem það er live eða í upptöku sem fólk kannski efast um í fimm sekúndur en er síðan snilld, maður verður að loka á það að það er til eitthvað rétt eða rangt.

Styrmir: Svo skiptir líka þetta mennska element mjög miklu máli, brothætt, skrítið og mennskt. Þannig finnst mér þessi plata vera.

Þetta hljómar sem mjög kósý stemming?

Styrmir: Já og þetta er allt mjög persónulegt. Textarnir eru persónulegir og músíkin er mjög persónuleg.

Maggi: Já textarnir eru alveg fáránlega persónulegir.

Styrmir: Já þeir eru það. Ég er líka mjög ánægður með textana sem eru eftir Dóru Ísleifsdóttur. Þetta verður að vera frá hjartanu og þetta verður að vera persónulegt. Ég hef alveg átt það til að hrífast af einhverju sem mér finnst hljóma voða „clever“ eða „cool“. En þegar við vorum að gera þetta vildi ég passa að henda slíku í burt.

Maggi: Við tókum þetta upp í stúdíói þar sem mér var ekki hleypt inní sama herbergi og restin af bandinu en til að hafa þetta persónulegt að þá var stillt upp svona 18.000 tommu bíó skjá og cameru þannig þau sáu mig alltaf og ég sá þau alltaf, sem var mjög fínt.

Styrmir: Það var vissulega mjög tæknilegt.

Maggi: Ég hef aldrei séð annað eins.

Styrmir: Við tókum þetta upp í stúdíói sem heitir Bíóhljóð og er rekið af Kjartani Kjartanssyni. Við höfum unnið mikið saman í allskonar bíó verkefnum. Það var mjög gaman að fara með þetta þangað vegna þess að þetta er jú bíó. Við vorum með þrjá bíósali og camerur í þeim öllum þannig allir sáu alla uppá stóru tjaldi. Mjög góð aðstaða og Kjartan gerði sitt alveg frábærlega.

Var notast við mikið af græjum í upptökuferlinu?

Styrmir: Margir hafa þörf fyrir að hafa rosalega mikið af dóti í kringum sig en mér fannst einmitt skipta máli að hafa frekar lítið dót í kringum mig í þessu verki. Að hljóðheimurinn væri frekar takmarkaður. Ég spila mest bara á gamla píanóið sem afi gaf mér þegar ég var 8 ára. Mig langaði líka að nota einn gamlan synta sem er búinn að vera í viðgerð hjá Arnari Helga í tólf ár, Í alvörunni 12 ár (hlátur). Að vísu tók Arnar við honum fyrir sex árum en þá var hann búinn að vera annarstaðar í sex ár. Arnar hringdi í mig um daginn og hann er víst að detta í lag. Mig langaði allavega að nota hann í þetta.

Hvaða synthi er það?

Styrmir: Það er gamall Roland Jupiter-6, en fyrst hann var ekki kominn þá ákvað ég að nota soft syntha, Oberheim 4-Voice sem var nú að vísu alltaf keyrður í gegnum gítarmagnara og uppá teip og aftur til baka. Það er gaman að einangra sig frekar en að opna allt uppá gátt, svolítið svona skemmtilegt og hollt konsept finnst mér.

Maggi: Nánast öll hljóðfærin á plötunni eru melódíu hljóðfæri en það er nú yfirleitt ekki þannig. Það eru allir að spila melódíu og það klessukeyrist einhvernvegin saman, eins og bassalínan í Stone Cold Stone hefur mun meira að segja til að byrja með heldur en sönglínan en svo kemur náttúrulega Sigga (Sigríður Thorlacius) og bombar söngnum yfir og er geggjuð!

Jæja nú verð ég að reykja annars dey ég! Þú veist hvernig ég rúlla.

Eitthvað að lokum

Styrmir: Takk fyrir okkur!

Comments are closed.