GAUKUR ÚLFARSSON

0

Gaukur-27

Tónlistar og kvikmyndagerðarmaðurinn Gaukur Úlfarsson er margt til lista lagt en hann hefur gert ótrúlega margt og komið víða við á viðburðarríkum ferli. Hver kannast ekki við Silvíu Nótt, heimildarmyndina Gnarr og sjónvarpsþættina Bresti svo fátt sé nefnt. Gaukur er um þessar mundir að leggja lokahönd á sjónvarpsþætti um Íslenskt rapp sem nefnist „Rapp Í Reykjavík.“ Þættina vann hann ásamt Dóra DNA og verður fyrsti þátturinn sýndur næstkomandi sunnudagskvöld 24. Apríl kl 21:25. Gaukur er viðmælandi vikunnar á Albumm.is en hann sagði okkur frá hvernig hann byrjaði í tónlist og kvikmyndagerð, af hverju hann valdi bassann sem aðal hljóðfæri og að sjálfsögðu um Rapp Í Reykjavík!


Nú ert þú búinn að vera viðloðinn tónlist í dágóðann tíma. Hvernig kom sá áhugi til og hvenær byrjaðir þú í hljómsveitarbraski?

Þegar maður er ungur og heimskur að þá er það heilbrigðasta sem maður getur gert er að reyna að skapa eitthvað. Ég heillaðist mjög ungur að öllu sem viðkemur tónlist og kynntist fljótlega fólki sem ég fór að búa til tónlist með.

Gaukur-5

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Þú ert bassaleikari og hefur plokkað bassann í hljómsveitum eins og t.d. 2001 og Quarashi. Afhverju valdirðu bassann sem þitt aðal hljóðfæri? 

Það komu bara tvö hljóðfæri til greina hjá mér, trommur eða bassi. Rythminn er í blóðinu sjáðu.

Hvenær byrjaði áhuginn á kvikmynda og þáttargerð og hvernig kom sá áhugi til? 

Það var hrein tilviljun. Ég hitti vin minn hann Vidda í Trabant í strætó nítján hundruð og níutíu og eitthvað og var eitthvað að væla í honum hvað mér leiddist í vinnunni minni. Viddi var þá hljóðmaður hjá RUV. Hálftíma seinna var hringt í mig þaðan og ég spurður hvort mig langaði ekki að prófa að vinna sem aðstoðartökumaður í þáttum sem hétu þá „Dagsljós.“ Eftir það var ekki aftur snúið, ég heillaðist gersamlega af þessum heimi.

Gaukur-9

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Þú gerðir allt brjálað með Silvíu Nótt, hefur gert slatta af tónlistarmyndböndum og  heimildarmyndum eins og Gnarr svo fátt eitt sé nefnt. Er eitthvað eitt verkefni sem stendur upp úr og ef svo er af hverju það? 

Það er erfitt að gera upp á milli þessara verkefna. Silvía var auðvitað sturlað dót sem var ógleymanlega gaman að búa til. Við Ágústa skemmtum okkur svakalega mikið við að gera það. Einnig var líka fáránlega gaman að gera öll músíkvídeóin og Gnarr ævintýrið var líka fullkomlega súrrealískt því það var svo mikið „think fast“ dót. En svo hugsa ég mjög oft til heimildarmyndar sem ég gerði um Quarashi sem heitir „Um landið á lyfjum“ og var í svona „mockumentary“ stíl. Ástæða þess að ég hugsa oft til hennar er að hún er týnd og ég auglýsi hér með eftir því hvort einhver eigi eintak af þeirri mynd. Mig minnir að hún hafi verið mjög skemmtileg.

Gaukur-15

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Þú hefur verið að gera sjónvarpsþætti um Íslenskt rapp sem nefnast „Rapp Í Reykjavík.“ Hvernig kom það til og hefur eitthvað komið þér á óvart við gerð þáttanna? 

Það voru Mikael Torfason og Þór Birgisson sem upphaflega voru með þessa hugmynd í maganum og þeir kveiktu áhuga minn á þessari ótrúlegu senu sem er í gangi hérna núna. Þegar ég fór að skoða þetta betur fór ég að sjá að það er engu líkara  en að Ísland sé búið að búa til einhverskonar æsku af superhuman listamönnum. Þetta er fullkomlega klikkaður hópur af krökkum. Ég fullyrði að sköpunarkrafturinn hefur aldrei verið á þessu leveli. Þetta eru superhuman kids.

Rapp í Reykjavík:

Telur þú að rapp menningin á Íslandi hafi breyst mikið frá því hún kom fyrst uppá yfirborðið?

Já, hún hefur gert það gríðarlega mikið. Ég var aldrei mikill rapp-fan einfaldlega vegna þess að mér þóttu reglur rappsins vera of stífar. Þú varst að vera í ákveðnum fötum og eiga allar Wu Tang plöturnar. Ég hafði sjálfur alist upp þegar þungarokkið varð vinsælt á Íslandi og þá voru nákvæmlega eins reglur í kringum allt. Ég gaf frænda mínum allt þungarokksafnið mitt þegar ég var 14 ára því mér fannst þetta svo kjánalegt. Í dag finn ég fyrir því að það má allt. Við tókum viðtal við Sturlu Atlas um daginn og þar fann maður hvað þetta er alveg laust við allar reglur. Þeir klæða sig eins og þeim sýnist og nefna Justin Beiber sem áhrifavald á tónlist sína. Það er svo geðveikt hressandi að finna svoleiðis attitjúd. Minnir mig á þegar að ég vogaði mér að segja við þungarokks vini mína þegar ég var unglingur að mér finnist Stevie Wonder vera snillingur.

Gaukur-18

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvernig mundir þú lýsa Íslensku rapp senunni í dag og hverjir eru þínir uppáhalds rapp listamenn? 

Nú seturðu mig í mjög erfiða stöðu því ég má alls ekki segjast fíla eitt meira en annað þegar ég er að vinna að svona þáttum en ég get þó sagt það að ég er búinn að hlusta á Sturlu Atlas plötuna til óbóta og mjög mikið á Gísla Pálma líka.

Gaukur

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Við búm á Íslandi og rapparar ganga ekki með byssur á sér og fremja kannski ekki mjög alvarlega glæpi, eða hvað? Eru til alvöru gangster rapparar á Íslandi? 

Nei, en það eru tvímælalaust ákveðinn hópur þarna sem er að dansa á línu hins löglega. Þeir eru óhræddir við að miðla því til okkar í gegnum textana sína. Svo eru líka aðrir sem að segjast bara vera með byssur í sínum textum. Við höfum tekið þá í viðtöl og þeir virka á mig eins og heilir og góðir drengir.

Gaukur ásamt hljómsveitinni Quarashi í Ástralíu árið 2002:

Hvar og hvenær verða þættirnir sýndir og við hverju má fólk búast? 

Fyrsti þáttur fer í loftið 24 apríl. Ég held að margir eigi eftir að fá smá sjokk því nánast allir þessir listamenn eru mjög „forward“ og segja bara allt, láta allt vaða og er skítsama hvað öðrum finnst. Að því leitinu held ég að mörgum eigi eftir að bregða mikið við að sjá þættina.

Hvað er framundan hjá þér?

Kaffi!

Rapp í Reykjavík:

Comments are closed.