Gallsúr örsaga úr handanheimum

0

Hljómsveitin Kólumkilli hefur sent frá sér tónlistarmyndband við titillag breiðskífu sveitarinnar, Untergang Blues. Það er fjöllistamaðurinn Trausti Skúlason sem hafði veg og vanda að gerð myndbandsins en hann lýsir því sem gallsúrri örsögu úr alls óskilgreindum handanheimi.

Myndbandið frá ferð tveggja félaga, Nykursins og Norna-Gests, frá útjaðri samfélagsins í átt til hinnar díabolsévísku stórborgar, Unterpólis, þar sem öllu er stjórnað af fullkomnum æðri verum. Í myndbandinu má finna allnokkrar vísanir í afþreyingarmenningu heimsins að fornu og nýju og geta glöggir áhorfendur skemmt sér við að koma auga á þær.

Trausti Skúlason hefur getið sér gott orð sem graffítílistamaður víða um heim undir nafninu Kez auk þess sem hann hefur unnið við gerð teiknimynda og auglýsinga á Íslandi og í Danmörku. Hljómsveitin Kólumkilli sendi frá sér sína fyrstu breiðskífu á vínylformi nú á vordögum og fæst hún í öllum helstu plötuverslunum. Tónlist sveitarinnar má einnig nálgast á helstu vefveitum eins og Youtube, GooglePlay og Spotify.

Skrifaðu ummæli