GÆÐA KNÆPAN PALOMA, MUSTERI MENNINGARINNAR OG VAGGA Í SENN

0

sjon

Á morgun Fimmtudag 22. desember eru sérstök menningarkvöld í Gallerí Kjallara. Málverkasýningin Huglægt Landslag eftir Arnar Birgis prýðir veggina út desember.

Skarphéðinn Bergþóruson (Skarpi skáld & textahöfundur á 27) mætir til leiks á gömlu plómuna með velþroskað verk í farteskinu. Yfir 130 ný ljóð!! Næstum 300 blaðsíður!! Úr ræsinu uppí næstu rim þar fyrir ofan!! Garðaleiðir 2010-2016 eru bæði sjálf- og ósjálfstætt framhald þeirra Garðaleiða sem komu út árið 2010.

Sjón (Sigurjón B. Sigurðsson) fæddist í Reykjavík 27. ágúst 1962. Hann hóf rithöfundarferil sinn ungur sem ljóðskáld og kom fyrsta ljóðabók hans, Sýnir, út 1978 en fyrr sama ár gaf hann út einblöðung með þremur ljóðum. Sjón var einn af stofnendum súrrealistahópsins Medúsu og varð snemma áberandi í listalífi Reykvíkinga.

Sjón

Sjón

Sjón hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og skáldsögur, hefur skrifað leikrit og gefið út efni fyrir börn. Samhliða rithöfundarferlinum hefur Sjón tekið þátt í myndlistasýningum og tónlistarviðburðum af ýmsum toga. Hann hefur meðal annars starfað með Björk, samið með henni tónlist, texta og tónlistarmyndbönd, þar á meðal texta við tónlist hennar í mynd Lars Von Trier, Dancer in the Dark (2000). Hann bjó og starfaði um skeið í London.

Sjón var einn af þeim sem stóðu fyrir fyrstu listasmiðjunum fyrir börn í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi og hefur hann víðar unnið í ritsmiðjum með börnum og unglingum. Hann er einn af stofnendum útgáfufélagsins Smekkleysu.

Verk eftir Sjón hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2005 fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur.

Ég er sofandi hurð er framhald verðlaunaskáldsagnanna Augu þín sáu mig og Með titrandi tár. Saman mynda bækurnar einstakt skáldverk í íslenskum bókmenntum, þríleikinn CoDex 1962.

„Þetta er hans mikla verk … Hann hefur samtímann upp í goðsögulegar hæðir og það er afskaplega vel gert og það er mjög fallegt að sjá hvernig þræðirnir koma saman í þessu lokabindi … Að einhverju leyti er þetta sköpunarsaga Sjóns sjálfs … Mjög gott verk.“  (Eiríkur Guðmundsson / Kiljan)

Jófríður Ákadóttir

Jófríður Ákadóttir

Þorgerður Gefjun Sveinsdóttir (móðir, kennari & skáld) les upp frumsamin sem og eldgömul ljóð úr horfnum heimi.

Jófríður Ákadóttir (JFRD, Samaris, Pascal Pinon) mætir til leiks með tónlistaruppákomu á milli upplestraratriða.

Gunnar Jónsson (tón- & ritlistarmaður) les fyrir okkur litlar sögur; eitthvað sem í daglegu tali er oft kallað smá-sögur eða nóvellettítur!

Kynnir kvöldsins er Teitur Magnússon.

21:00 Fordrykkur & spjall
22:00 Uppákomur
00:00 Músík og Spjall
01:00 Fundi slitið

Meira um málverkasýninguna Huglægt landslag:

Fyrstur til að sýna í galleríinu er rythma gangsterinn og maleríistinn, Arnar Birgisson. Hæglyndur en ákveðinn drengur úr Breiðholtinu sem hefur komið víða við á sínum stutta ferli.

Myndlistin kom óvænt inn í líf Arnars árið 2012. Eftir fornám í Myndlistarskóla Reykjavíkur lá leið hans í LHÍ. Meðfram málaralistinni hefur hr. Birgis unnið sem leiðsögumaður auk þess að vera velvirkur í mörgum hljómsveitum; á bæði trommur & slagverk, hann hefur einnig framleitt tónlistamyndbönd m.a. fyrir lag Teits Magnússonar, Munaðarhóf.

Teitur Magnússon

Teitur Magnússon

Þetta mun vera hans fimmta einkasýning en einnig hefur hann tekið þátt í þremur samsýningum ásamt því að smokra málverkum sínum á ýmsa leynistaði Reykjavíkur.

Verkin á sýningunni, Huglægt landslag, opinbera hugarheim málarans. Sameiginlegur flötur liggur í landslaginu og tengingu við náttúruna. Þó sum verkanna sýni þessa eiginleika augljóslega, eiga önnur verk í mun meiri abstrakt tengingu við konseptin, hvort sem það liggur í hugmyndaferlinu eða sjálfri aðferðinni.

Þessi sýning byggir á landslagi, eitthvað sem er jú þekkt mótíf í íslenskri myndlistarhefð, en hjá Arnari eru fleiri leiðir að takmarkinu en bara að horfa og mála.

Meginmarkmiðið er nefnilega að mála í vissum transi og þannig ósjálfrátt, hvort það sé undirmeðvitundin sem skapi verkið eða bara þær hreyfingar sem listmálarinn mundar er svo að sjálfsögðu huglægt mat.

Skrifaðu ummæli