Fyrsta sólóplatan lítur dagsins ljós: „Ferlið er búið að vera nokkuð snúið”

0

Tónlistarmaðurinn Kristinn Kristinsson sendir í dag frá sér sína fyrstu sólóplötu, Module. Kristinn er búsettur í Berlín en hann segir borgina hafa örugglega einhver áhrif á sína tónlistarsköpun. Kristinn rekur einnig plötuútgáfuna Hout Records en hann og nokkrir vinir hans stofnuðu útgáfuna til að nýta kunnáttu sína á góðan hátt og sameiginlegt tengslanet sitt. Nóg er um að vera hjá Kappanum en hann er einnig meðlimur í hljómsveitinni Minua sem leggur bráðlega af stað í tónleikaferð!

Albumm.is náði tali af Kristinn og svaraði hann nokkrum spurningum um plötuna, lífið og framhaldið svo sumt sé nefnt.


Module er þín fyrsta sóló plata, er hún búin að vera lengi í vinnslu?

Ferlið er búið að vera nokkuð snúið. Hugmyndin kviknaði fyrir næstum tveim árum síðan og þróaðist svo út í eitthvað allt annað en ég ætlaði mér í byrjun, svo slysaðist ég inn á eitthvert sound sem er líklega nokkuð sérstakt.

Hvernig mundir þú lýsa tónlistinni þinni í einni setningu?

Þetta er svona konsept tónlist, minimalísk að mörgu leiti, tilraunakennd en mjög rótgróin.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Ætli það sé ekki bara hversdagslífið, svo er alveg rosalega mikið af tónlist og tónleikaupplifunum sem hafa haft áhrif á mig í gegnum tíðina.

Þú ert búsettur í Berlín, telurðu að borgin hafi einhver áhrif á þína listsköpun?

Já, alveg örugglega.

Þú rekur einnig plötuútgáfuna Hout Records, hvað er að gerast hjá útgáfunni og hvernig kom til að þú stofnaðir plötuútgáfu?

Við erum sjö vinir sem stofnuðum útgáfuna og erum í raun bara að sameina kunnáttu okkar og tengslanet innan ramma útgáfunnar. Okkur fannst vanta betra grundvöll fyrir jaðartónlist í Sviss, en ég var búsettur þar í fimm ár. Flestar minni plötuútgáfur taka gjarnan mikinn pening fyrir að gefa út tónlistina, en svo kemur oft lítið til baka. Hjá okkur er kostnaður í lágmarki svo þetta er meiri svona DIY stíll innan faglegs ramma. Við erum einnig í samstarfi við Radicalis sem er stærra pop-label í Basel. Í tilefni eins árs starfsafmælis stóðum við fyrir lítilli tónleikahátíð í Basel í september. Það er eitthvað sem við ætlum að gera meira af, svo stækkar þetta smámsaman, tónleikabókari var nýlega að bætast í teymið og nokkrar plötur eru í vændum!

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Ég mun klárlega koma fram á Íslandi og í Berlín við tækifæri, annars finnst mér ekkert sérstaklega spennandi að fara að túra eitthvað einn, en ég ætla að reyna að lauma inn sólósetti á eitthverjum af næstu tónleikum þar sem ég kem fram í öðrum verkefum.

Hvað er framyndan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það er nokkuð rólegt hjá mér eins og er, er aðallega að vinna að nýju efni þessa dagana. Í byrjun næsta árs þéttist svo dagskráin hjá mér. Þá kemur út ný plata með hljómsveitinni minni Minua og svo fylgja tónleikaferðir í kjölfarið.

Kristinnkristinsson.com

Houtrecords.com

Skrifaðu ummæli