FYRSTA BREIÐSKÍFA SVEITARINNAR MC BJÓR & BLAND

0

Í dag 5. Apríl kemur út fyrsta breiðskífa sveitarinnar MC Bjór & Bland sem ber heitið Ölæði. Til að halda upp á útgáfu verða tónleikar og gleði á HÚRRA. Fram Koma: Holy Hrafn, Blakkát!, ALYIAN, MC Bjór & Bland og Leynigestur.

ALYIAN er annar partur Tvíeykisins Doublethink Prism. Kappin er akkúrat á landinu meðan tónleikarnir verða og ætlar hann að heiðra oss með nærveru sinni. Stórfuðulegt og áhugavert project en sjálfur segist hann ætla að vera með „instrumental dirty hip hop set of songs.“

Holy Hrafn ætti að vera öllum kunnugur, en þessi rabbarbaraferski gaflari sýður saman súpu af ógrynni af tónlistarstefnum og rappar,dansar og syngur með. Eitursvalur performer!

MC Bjór er kynngimagnaður rappari sem hefur bruggað listrænan mjöð neðanjarðar um nokkurt skeið sem er nú loks farinn að freyða upp á yfirborðið. Bjórinn sýður magnaða orðasúpu úr naglaspýtum íslenskunnar þar sem súrrealískur húmor og leikrænir tilburðir eru kryddaðir með vænum skammti af virðingaleysi fyrir öllum helstu gildum samfélagsins.

Rennsli Bjórsins er ekki bundið hefðbundnum farvegum og flæðir ítrekað yfir alla mögulega bakka. Hann sækir innblástur og hugmyndafræði í andans jöfra 20. aldarinnar á borð við Old Dirty Bastard og Nate Dogg. Sér til halds og trausts á tónleikum hefur hann hljómsveitina Bland sem eltir orð Bjórsins uppi með funheitu fönki og almennum hrynhita.

Blakkátið maður! Blakkátið er alræmdur fylgifiskur bjórsins. Oftar en ekki fylgir blakkátið bjórnum tala nú ekki um þegar hans er notið í bland við funky dót. Þá tekur Blakkátið við með sitt rock n roll eins og nótt sem endar á Bar11 horfandi á gothara í sleik, umfjöllunarefnin ýmist óendurgoldin ást, firring nútímans og eitthvað djöfulsins rugl bara. Blakkátsmenn matreiða þennan seið á formi svonefnds „pabbarokks“ og er þar vísað til klassískrar rokktónlistar sem hljómsveitir 7. og 8. áratugarins þróuðu en Blakkátið hefur nú fullkomnað.

Verð er 1000 kr inn og byrjar herlegheitin kl 20:00.

Skrifaðu ummæli