FULLORÐINS PLATA SEM GEYMIR MEÐAL ANNARS DRYKKJUSÖNG AF GAMLASKÓLANUM

0

Dölli er listamannanafn manns að nafni Sölvi Jónsson. Systir hans 10 árum yngri gaf honum þetta nafn þegar hún var að taka mál og sagði Dölli en ekki Sölvi. Dölli byrjaði að semja lög 21 árs gamall þegar hann fékk gítar í jólagjöf og er núna 21 ári seinna búinn að semja yfir 200 lög. Frumburður hans á tónlistarsviðinu leit nú samt ekki dagsins ljós fyrr en árið 2015, barnalagaplatan, Viltu vera memm?, sem var unnin í samstarfi við Kristinn H. Árnason gítarleikara. Áður hafði Dölli sent frá sér lagið, „Mín stærsta gæfa,“ sem er að finna á Youtube.

Nú er Dölli að senda frá sér plötu fyrir fullorðna sem nefnist, Upp upp mín sál – og mitt hjarta, milta, nýru, lungu og lifur með. Platan á að koma út í seinni hluta septembermánaðar og er Dölli búinn að setja fyrsta lagið af plötunni, „Ferðalagið II,“ ásamt myndbandi inn á Youtube.

Söfnun stendur yfir á Karolina Fund til að kosta útgáfu plötunnar. Tónlisarmennirnir Róbert Örn Hjálmtýsson (bassi, trommur, rafgítar, útsetningar) og Valgeir Gestsson (rafgítar) eru Dölla til halds og trausts á plötunni. Dölli spilar á kassagítar og syngur.

Upp upp mín sál, er undir sterkum áhrifum þjóðlagatónlistar. Hún skiptist í tvo skýrt afmarkaða hluta. Á fyrri hluta plötunnar er framhaldssagan, Ferðalagið. Þar segir í 7 lögum frá manni sem leggur upp í leit að konu sem hvergi er til nema í huga hans sjálfs. Lögin tengjast öll en innan hvers lags er sögð ein lítil örsaga þannig að lögin standa líka algjörlega óháð hvert öðru. Á seinni hluta plötunnar eru síðan aftur 7 lög sem fara út um víðan völl. Umfjöllunarefnið þar er m.a. dauðarefsingin, umhverfisspjöll, peningakerfið og þarna er líka drykkjusöngur af gamla skólanum. Elsta lagið á plötunni er frá fyrsta árinu þegar Dölli hóf lagasmíðar en á plötunni eru líka lög frá seinni árum.

Dölli hefur lítið komið fram opinberlega. Hann hefur hins vegar verið nokkuð duglegur við það að halda stofutónleika fyrir vini og kunningja. Inni á Karolina Fund söfnunarsíðunni er m.a. hægt að kaupa boðsmiða á stofutónleika með Dölla sem gildir fyrir tvo.

Skrifaðu ummæli