FRUMRAUN KID SUNE KOMIN ÚT OG VÍNYLL VÆNTANLEGUR

0

Þann 6. júní síðastliðinn kom út frumraun Kid Sune og er um að ræða sumarútgáfu Raftóna. Útgáfan 6 Tales með Kid Sune (Fannar Ásgrímsson) er sálarfull danstónlist, þar sem frágangur og hljóðvinnsla er algjörlega til fyrirmyndar.

Fannar Ásgrímsson er þekkt stærð í íslenska raftónlistarheiminum, sér í lagi fyrir hlutaðild hans í raftónlistarbandinu Asonat og raftvíeykinu Plastik Joy. Asonat gaf t.a.m. út stórgóða breiðskífu fyrir hartnær tveimur árum síðan og fékk sú skífa glimmrandi dóma hjá gagnrýnendum heima sem og ytra.

6 Tales hefur að geyma þrjú frumsamin lög með listamanninum og þrjár endurhljóðblandanir sem hann hefur unnið fyrir aðra. Um er að ræða endurhljóðblandanir fyrir frönsk/íslensku söngkonuna Olènu, japönsku indísveitina JIRI og loks íslenska rafundrið M-Band.

Vínylútgáfan verður svo fáanleg í öllum betri verslunum landsins frá og með 10. júlí næstkomandi.

Nafnið Kid Sune er leikur að japanska orðinu kitsune sem þýðir refur, en þeir eru vinsælt viðfangsefni í japönskum þjóðsögum – þá sér í lagi tenging þeirra við hið yfirnáttúrlega. Í þjóðsögunum er sagt að því fleiri skott sem refurinn hefur, því vitrari og öflugri hann er. Titill plötunnar, 6 Tales, vísar í þær sex sögur sem útgáfan inniheldur en er um leið óbein vísun í hve mörg skott refurinn hefur.

6 Tales er þrettánda útgáfa Raftóna, sem er alíslenskt útgáfufyrirtæki sem sérhæfir sig í hágæða raftónlist. Hægt er að nálgast stafræna útgáfuna á Bandcamp-síðu útgáfunnar, Juno og Beatport.
Einnig er möguleiki á að streyma útgáfuna á bæði Spotify og Tidal. Vínylútgáfan verður svo fáanleg í öllum betri verslunum landsins frá og með 10. júlí næstkomandi.

Skrifaðu ummæli