FRIÐRIK FRIÐRIKSSON

0

_DSC2910

Friðrik Friðriksson er einn ástsælasti leikari okkar Íslendinga en hann hefur leikið sig inn í hjörtu landsmanna í áraraðir. Friðrik er framkvæmdastjóri Sjálfstæðu Leikhúsanna og er um þessar mundir að leikstýra verkinu „4.48 Pshycosis“ sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu. Friðrik kom í viðtal hjá Albumm.is og sagði hann okkur frá hvernig hann byrjaði í leiklistinni, uppáhalds hlutverkum sínum og hvað er framundan.

Hvenær og hvernig byrjaði þinn leiklistaráhugi og var stefnan alltaf sett á leiklistina?

Leiklistaráhuginn kviknaði þegar ég var í framhaldsskóla, en fram að því hafði ég ekki sýnt því sérstakan áhuga að stíga á svið.  Þegar ég var 18 ára gamall skipti ég um skóla,  hætti í MS og hóf nám  í FS (Fjölbrautarskóla Suðurnesja).  Vinur minn hvatti mig til að taka áfanga í leiklist, því þar væru ekki tekin nein próf.  Þetta fannst mér að sjálfsögðu alveg frábært og valdi Leiklist 103.  Kennarinn í þeim áfanga var handviss um að ég hefði áralanga leiklistarreynslu og hrósaði mér óspart.  Þetta varð til að kveikja áhuga minn á leiklist og þaðan var ekki aftur snúið.  Tveimur árum eftir stúdentinn fékk ég svo inngöngu í Leiklistarskóla Íslands og síðan eru liðin 17 ár og ég er enn að.

_DSC2907

Nú ert þú einn ástsælasti leikari okkar Íslendinga, var erfitt að koma sér á framfæri og út frá hverju velur þú þér hlutverk?

Ég var svo heppinn að meðan ég var á lokaári mínu í Leiklistarskólanum þá bauð þáverandi Borgarleikhússtjóri, Þórhildur Þorleifs, mér að leika aðalhlutverkið í barnaleikritinu „Pétri Pan,“ sem ég  þáði.  Ég frumsýndi „Pétur Pan“ jólin eftir útskrift mína úr skólanum og svo tók við hvert aðalhlutverkið á fætur öðru.  Ég þurfti því ekki að hafa mikið fyrir því að koma sjálfum mér á framfæri og hef reyndar sjaldan þurft að taka upp símann og betla hlutverk.  Ég hef starfað lengi vel sem fastráðinn leikari hjá Þjóðleikhúsinu, en hef nýverið sagt upp störfum til að prófa annan starfsvettvang.  Í dag er ég framkvæmdarstjóri Sjálfstæðu Leikhúsanna sem er bandalag atvinnuleikhópa á Íslandi auk þess er ég í viðskipta- og stjórnunarnámi í HR.  Þegar mér er boðið hlutverk velti ég fyrir mér hversu spennandi persónan sé, hvort hún sé vel skrifuð? Er verkið gott og hópurinn og leikstjórinn sem ég kem til að vinna með?  Kveikir hlutverkið í mér og býður upp á nýjar áskoranir fyrir mig sem leikara?

_DSC2872

Nú hefur þú leikið fjöldann allan af hlutverkum í gegnum tíðina áttu þér eitthvað uppáhals hlutverk og ef svo er af hverju það?

Ætli ég hafi ekki leikið í kringum fjörutíu til fimmtíu hlutverk á ferli mínum og mörg þeirra mér mjög eftirminnileg.  Í sérstöku uppáhaldi er t.d. hlutverk og þátttaka mín í gamanleikritinu „Sjeikspír eins og hann leggur sig”  sem við sýndum í Loftkastalanum fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld.  Þar lék ég með tveimur vinum og frábærum gamanleikurum, Dóra Gylfa (Halldór Gylfason og Dóru Wonder (Halldóra Geirharðsdóttir).  Nú síðast lék ég í „Ofsa“ eftir Einar Kárason í Þjóðleikhúsinu með leikhópnum „Aldrei Óstelandi,“ það hlutverk er líka svolítið uppáhalds. Þar lék ég Gissur Þorvaldsson, ákveðinn og voldugan höfðingja úr Íslendingasögunum, í sýningu sem þótti nálgast þennan forna sagna-arf Íslendinga á nýstárlegan hátt.  Kannski eru það ekki hlutverkin í sjálfu sér sem hafa orðið uppáhalds heldur miklu frekar sýningarnar og fólkið sem ég hef unnið með.

_DSC2882

Nú er tvennt ólíkt að leika á sviði og að leika fyrir framan myndavélina, en hvort er skemmtilegra og hvernig er það ólíkt?

Undirbúningur leikarans undir hlutverkið er kannski svipaður í báðum tilfellum og kynnast henni vel. Leikarinn þarf að fara í gegnum sömu grunn-rannsóknarvinnu á persónu sinni og kynnast henni vel.  Vinnan við leikhúsið þykir mér þó heldur skemmtilegri, þar færðu að verja lengri tíma í að kynnast verkinu og fínpússa alla þætti áður en tjaldið er dregið frá. Hluti af ánægjunni við að leika á sviði felst svo einnig í því að upplifa viðbrögð áhorfenda sem eru meira instant og áþreifanlegri. Kvikmynda- og sjónvarpsleikurinn er öllu fínlegri, linsan grípur minnstu smáatriði og þar er áskorun leikarans að vinna með hið smáa, litla og fíngerða.  Þú færð aðeins örfá tækifæri til að “ná” því réttu.  Skemmtilegasta vinna mín fyrir framan linsuna var þó þegar ég gerði sjónvarpsþættina „Sigtið“ með vinum mínum Ragga Hans, Gunna Hans og Dóra Gylfa.  Þar blandaðist leikhúsið við sjónvarpið að því leyti að við unnum mikið með spuna,  spunnum stundum klukkutímum saman fyrir framan myndavélina og svo var öllu hent í aumingja klipparann sem fékk að greiða úr spunaflækjunni og búa til eitthvað áhorfanlegt.

Nú leikstýrir þú verkinu „4.48 Pshycosis“ sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu, hvernig er að sitja á leikstjórasætinu og er leikstjórn eitthvað sem þig langar að gera meira af?

Ég hef leikstýrt áhugasýningum, barnasýningum sem og verkunum „Húmanimal“ og „Verði þér að góðu“ sem ég vann með leikhópnum mínum „Ég og vinir mínir.” Þær sýningar voru frumraun mín í leikstjórn í atvinnuleikhúsi og fengu helling af tilnefningum til leiklistarverðlauna. Verklagið hjá “Mér og vinum mínum“ er reyndar mjög lýðræðislegt svo það er ekki klippt og skorið hver leikstýrði, samdi hreyfingar eða verkið sjálft. Undanfarin þrjú ár hef ég svo unnið náið með vinkonu minni og bekkjarsystur, Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, og leikhóp hennar „Aldrei Óstelandi.“ Sá hópur hefur líka fengið mikla athygli og tilnefningar til leiklistarverðlauna fyrir verkefnin sín. Þegar Edda Björg fékk svo hugmyndina um að setja upp „4.48 Psychosis“ var hún staðráin í því að ég myndi leikstýra henni og sótti það fast, sagðist ekki treysta neinum öðrum til að leiða sig í gegnum þetta erfiða ferðalag sem verkið er. Ég er þakklátur fyrir það traust og finn mig vel í leikstjórahlutverkinu, svo vel að ég hugsa að ég eigi eftir að sækja meira á þau mið í framtíðinni.

Verkið snertir á þunglyndi og tekur áhorfandann inn í þann heim, hvað geturðu sagt mér um verkið og kom þér eitthvað á óvart við vinnslu verksins?

Verkið er síðasta leikrit breska leikskáldsins Söruh Kane sem fyrirfór sér stuttu eftir að hún hafði lokið við að skrifa það aðeins 28 ára gömul. „4.48 Psychosis“ var svo frumsýnt árið 2000, einu ári eftir dauða Kane. Verkið hlaut frábærar viðtökur eins og hin fimm verk Söruh Kane og hefur verið leikið um allan heim allar götur síðan. Verkið fjallar um síðustu stundir og uppgjör þunglyndissjúklings við lífið í skugga geðsjúkdóms. Það er ágengt, tilfinningahlaðið og ljóðrænt. Það tók langan tíma fyrir okkur að “opna” verkið og ná fullum skilningi á því, þó kannski að fullur skilningur náist aldrei á eins flóknu verki og „Psychosis“ er.

_DSC2901

Ef það væri heimsendir á morgun og þú gætir einungis horft á eina kvikmynd hvaða kvikmynd yrði fyrir valinu og af hverju sú mynd?

Ef það væri t.d. Zombie heimsendir í nánd þá væri það snilld að horfa á „Shaun of the Dead,“  bæði til að létta lundina og svo gæti maður kannski lært eitthvað nytsamlegt til að berjast gegn yfirráðum Zombía. En ef heimsendir væri  í raun við það að bresta á þá væri það að horfa á bíómynd ekki það fyrsta sem mér dytti í hug.  Ætli ég myndi ekki verja síðustu stundunum í eitthvað merkingarfylltra eins og t.d. að vera með fjölskyldunni minni.

_DSC2883

Getur þú nefnt mér fimm Íslenskar hljómplötur sem eru í miklu uppáhaldi hjá þér og af hverju þessar plötur?

Ég er ekki mikill tónlistarunnandi í seinni tíð þ.e. ég kaupi sjaldan tónlist núorðið og hlusta mest tilneyddur á einhverjar barnaplötur, við eigum ekki einu sinni almennilega hátalara. Þau skipti þegar ég “verð fyrir” tónlist er þegar ég flakka milli stöðva í bílnum eða þegar ég skelli mér á dansgólfið og tek snúning á einhverju öldurhúsi bæjarins. En reynum:

Þursabit með Þursaflokknum frá 1978 – vínilplata sem var til á heimili mínu þegar ég var krakki og svo enduruppgötvaði þegar ég var í leiklistarskólanum og þar sem ég var í kór og söng m.a. Grafskrift og Stóðum tvö í túni.

Rottur Og Kettir með Langi Seli og skuggarnir  frá 1990 – átti þetta á kasettu sem ég spilaði óspart árið sem ég fékk bílpróf. Keyrði um á hvítri Lödu Sport með Breiðholtsbúggí á blasti.

Jinx með Quarashi – þegar ég var nýútskrifaður og uppá mitt besta í djamminu þá missti ég mig alveg á dansgólfinu með Quarashi.  Baseline er í sérstöku uppáhaldi og landhelgisgæslumyndband RÚV skemmtilega korný í dag.

Emotinal með Trabant frá 2005 –  held að Nasty Boy og María séu með betri stuð-partý lögum sem til eru.

Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubærinn og Karíus og Baktus eftir Egner.  Plötur og diskar sem eru til á öðru hverju heimili.  Lék líka í öllum Egner sýningunum Þjóðleikhússins frá 2003 og söng mörg þessara laga í nokkur hundruð skipti en fékk ekki leið á þeim. Ég hlusta enn þann dag í dag á Egner með börnunum mínum.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í leiklistinni og hvað er það sem þær hafa fram yfir aðra leikara?

Mínar fyrirmyndir breytast statt og stöðugt.  Þær eru allir þeir sem hafa hugrekki til að ganga lengra en áður hefur verið gengið, núna í augnablikinu er það hún bekkjarsystir mín og samstarfskona sem uppá eigin spýtur safnaði peningum og fólki til að setja upp draumasýningu sína 4.48 Psychosis og uppskar eins og hún sáði. Hún er hugrökk og óhrædd við að bera tilfinningar sínar á sviði og fá áhorfendur til að trúa og taka þátt í þeirri blekkingu sem leikhúsið er.

_DSC2911

Hvað er framundan hjá þér?

Ég er á fullu í MBA námi í Háskólanum í Reykjavík og nýt þess í botn að fara aftur í skóla og kynnast nýju fólki og nýjum hugmyndum. Ég sagði upp hjá Þjóðleikhúsinu og tók nýverið við starfi framkvæmdarstjóra Sjálfstæðu Leikhúsanna (SL),  það er spennandi starf og ótrúleg gróska hjá sjálfstætt starfandi atvinnuleikhópum.  Í fyrra fengu SL helming allra tilnefninga til Grímunnar leiklistarverðlauna, þriðjung allra áhorfenda, framleiða helming allra þeirra sýninga sem eru í boði á leikárinu en fá aðeins 8% af því opinbera fjármagni sem veitt er í sviðslistir. Ég stefni á að berjast fyrir bættum kjörum sjálfstætt starfandi sviðslistafólks þannig að grasrótin geti unnið við að minnsta kosti lágmarkslaunakjör. Þess utan er ég alltaf að reyna að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég er orðinn stór.

 

 

Comments are closed.