Frá sólinni í Mexíkó til hinna löngu vetrarnótta á Íslandi

0

Ljósmynd: Guðný Kristín Erlingsdóttir.

Snorri Hallgrímsson er tónskáld og framleiðandi (producer) menntaður í klassískum gítarleik og lauk BA-námi í tónsmíðum frá LHÍ árið 2013. Síðar lauk hann MA-námi í kvikmyndatónsmíðum frá Berklee College of Music í Valencia á Spáni árið 2014. Eftir nokkura ára búsetu á Spáni og í Mexíkó, sneri Snorri aftur til Íslands árið 2016. Sama ár skrifaði hann undir plötusamning við kanadíska útgáfufyrirtækið Moderna Records, sem nú gefur út fyrstu sólóplötu Snorra: Orbit.

Orbit byggir á klassískum bakgrunni Snorra, en við bætast áhrif af raf-, kór-, og kvikmyndatónlist. Útkoman er magnþrungin blanda af tregafullum strengjum, bjöguðum raftrommum, látlausum píanóum, og brothættri söngrödd Snorra sjálfs. Platan var að mestu leyti tekin upp í hljóðveri Ólafs Arnalds í Reykjavík, en einnig gegnir stóru hlutverki 25-manna strengjasveitin Budapest Art Orchestra.

Lögin á plötunni Orbit fjalla um þær áskoranir og tilfinningar sem fylgja því að flytja á milli mjög ólíkra staða: frá sólinni í Mexíkó til hinna löngu vetrarnótta á Íslandi. Orbit er einnig um fólkið sem verður á vegi manns á slíkum ferðalögum, og þann ljúfsára söknuð sem hellist yfir þegar ferðinni er haldið áfram. Hugtakið „heima“ verður stöðugt óskýrara, og í stað þess kemur sporbaugur sem Snorri ferðast á frá einum stað til annars.

Ljósmynd: Katrín Helena Jónsdóttir.

Þó Orbit sé fyrsta sólóplata Snorra, þá hefur tónlist hans slípast í gegnum margra ára reynslu af kvikmyndatónsmíðum. Þar má nefna tónlist við fjölmargar stuttmyndir, heimildaþáttaröðina Travel Global Think Local og heimildamyndina Out Of Thin Air.

Snorri hefur einnig unnið náið með tónlistarmanninum Ólafi Arnalds í mörg ár, og vann m.a. við plötur hans The Chopin Project og Island Songs, sem og bresku sjónvarpsþáttaraðirnar Electric Dreams og Broadchurch, sem Ólafur hlaut BAFTA-verðlaun fyrir árið 2014.

Orbit kemur út 15. júní 2018 hjá Moderna Records.

Skrifaðu ummæli