FRÁ MEXICO TIL ÍSLANDS OG FÆR INNBLÁSTUR ÚR SÍNU NÁNASTA UMHVERFI

0

Björn Árnason í Mexico.

Ljósmyndarinn Björn Árnason er nýkominn frá Mexico en þar tók hann þátt í sýningu til minningar um Mary Ellen Mark. Björn teiknaði, graffaði og málaði mikið en fyrir tólf árum hellti hann sér alfarið út í ljósmyndun. Umhverfið heillar Björn mest og hvað verður á hans vegi hverju sinni er hans viðfangsefni, hvort sem það er náttúra, byggingar eða mannlíf! Björn lýsir stílnum sínum sem minimalískum en hann hefur verið í stanslausri þróun frá því hann byrjaði að mynda. Albumm.is náði tala af Birni og sagði hann okkur allt um Mexicoferðina, hverjir eru hans helstu áhrifavaldar og og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.


Hvenær og hvernig fékkst þú áhuga á ljósmyndun?

Ég var mikið að teikna, graffa og mála þegar ég var yngri en var samt alltaf að hugsa í ljósmyndum þegar ég var að labba um einhversstaðar. Svo fyrir svona 12 árum fór ég algjörlega að hella mér í að taka myndir.

Hvernig ljósmyndir finnst þér skemmtilegast að taka og hvernig mundir þú lýsa þínum stíl?

Mér finnst skemmtilegast að mynda það sem verður á vegi mínum. Hvort sem það er landslag, borgarlandslag, eða mannlíf. Ég er með mjög minimalískan stíl. Stíl sem ég hef þróað nánast frá því að ég byrjaði að mynda. Hann er krefjandi og ég beyti sjálfum mig miklum aga þegar ég er að mynda.

Hvaðan færð þú innblástur og hver er þinn helsti áhrifavaldur?

Ég fæ minn helsta innblástur úr mínu nánasta umhverfi hverju sinni þegar ég er að mynda. Mannfólkið, byggingar og náttúran. En náttúran á Íslandi hefur alltaf haft mikil áhrif á mig og tel ég að hún eigi mikinn þátt í hvernig ég mynda og hugsa. En ljósmyndarar og listamenn sem hafa haft áhrif á mig í gegnum árin eru t.d. Rax, Mary Ellen Mark, Hrafnkell Sigurðsson, Einar Falur, Georg Guðni, Páll Stefánsson, Gregory Crewdson svona til byrja með.

Nú ert þú með sýningu í Mexico, hvernig kom það til?

Þetta er sýning til heiðurs Mary Ellen Mark. Mér og sex öðrum ljósmyndurum sem vorum öll góðir vinir hennar og fyrrverandi nemendum var boðið að halda þessa sýningu þegar við komum til Oaxaca í fyrra til að heiðra minningu hennar. Við höfðum öll verið nemendur hennar í Oaxaca í Mexico og á fleiri stöðum.

Hvers konar sýning er þetta og fá íslendingar að berja hana augum?

Við erum öll að sýna myndir sem við höfum myndað í Oaxaca ásamt myndum frá Mary Ellen sem er mikill heiður. Sýningin er haldin í Centro Fotográfico Álvarez Bravo sem er mjög fallegt safn sem er algjörlega tileinkað ljósmyndun og þar sem við komum alltaf saman á námskeiðunum sem Mary Ellen hélt þar. Ég á mikið efni frá þessum 4 árum sem ég hef myndað í Oaxaca og er ég búinn að vera að fara í gegnum efnið og ætla nú að fara finna stærra sýningarrými hér á Íslandi þar sem ég ætla að sýna myndirnar mínar og jafnvel setja saman í litla bók.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það er eitt og annað fyrir utan að koma Mexico sýningunni frá mér. Svo ég er með nokkur verkefni í gangi sem ég ætla að halda áfram með. Mig langar að hvetja Íslendinga að styrkja íslenska ljósmyndun hvort sem það er mín eða annara. Við erum mörgum árum á eftir þegar kemur að því að fólk kaupi og safni ljósmyndum líkt og myndlist. Við erum með marga mjög færa samtímaljósmyndara hér á landi sem eru að gera frábæra hluti.

Þið finnið Björn á Instagram.

http://www.bjornarnason.com

Skrifaðu ummæli