fögnum saman á degi íslenskrar tónlistar!

0

Jón Ólafsson tekur við hvatningarverðlaununum í fyrra, 2017.

Í dag 6. desember er Dagur íslenskrar tónlistar og því ber að fagna! Gríðarleg gróska er í íslenskri tónlist og hafa allir heyrt tugguna „Miðað við hvað við erum fá er ótrúlega mikið af góðri tónlist á íslandi” en það er alveg dags satt! Þessi litla þjóð með þetta mikið af góðu tónlistarfólki er nánast ótrúlegt. Heimsbyggðin fylgist grant með og sveitir eins og Kaleo, Of Monsters And Men og GusGus svo afar fátt sé nefnt ferðast um heiminn og dreifa boðskapnum. Segja má að útrásin hafi byrjað með hljómsveitinni Sykurmolunum og í kjölfarið sigraði Björk heiminn. Þetta varpaði sprengju á heimsbyggðina og ísland var komið á kortið, humar eða frægð sagði einhver!

Í tilefni Degi íslenskrar tónlistar mun þjóðin syngja saman lögin Hossahossa með Amabadama, B.O.B.A með Jóipé X Króli og Vikivaka eftir Valgeir Guðjónsson við texta Jóhannesar úr Kötlum.

Útvarpsstöðvar munu flytja lögin og allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að taka undir; í vinnunni, Strætó, sturtunni, úti í búð, skólanum eða bara í stofunni heima. Í dag fá sérstakir velunnarar íslenskrar tónlistar hvatningarverðlaun á Skelfiskmarkaðnum en þar verða lögin að sjálfsögðu einnig flutt.

Skrifaðu ummæli