FM BELFAST SENDIR FRÁ SÉR PLÖTUNA ISLAND BROADCAST

0

Hljómsveitin FM Belfast er löngu orðin þekkt fyrir litríka, sveitta og fjöruga tónleika. Síðastliðinn áratug hafa meðlimir hennar farið um víðan völl, allt frá Austin Texas til Tókýó og aftur heim.

Þessi líflega hljómsveit hefur loksins gefið sér tíma til að gefa út glænýja plötu og er hún sú fjórða í röðinni. Platan ber heitið Island Broadcast en hún kom út á föstudaginn 3. nóvember. Ellefu ný lög prýða hljómplötuna.

Í fyrstu var FM Belfast tvíeyki sem tók til starfa jólin 2005 þegar Árni Rúnar Hlöðversson og Lóa Hjálmtýsdóttir bjuggu til lag sem jólagjöf handa vinum sínum. Hljómsveitinni var upphaflega ekki ætlað að ferðast út úr stofunni heima hjá Árna en árið 2006 létu þau tilleiðast og fluttu fyrstu lögin fyrir framan áheyrendur í helli á listaopnun í Færeyjum. Síðar sama ár slógust Örvar Smárason og Árni Vilhjálmsson með í för og saman héldu þau sína fyrstu „alvöru“ tónleika á Iceland Airwaves 2006.

2007 náði hljómsveitin fótfestu sem vinsæl tónleikasveit og sama ár lokuðu þau Iceland Airwaves hátíðinni fyrir framan fjölda manns. Egill Eyjólfsson, Ívar Pétur Kjartansson og Borko bættust með í för og í gegnum árin hafa ýmsir listamenn stigið á stokk með sveitinni og má þar nefna Hermigervil, Björn Stefánsson, Ása Þórðarson en áfram mætti lengi telja.

Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar, How to Make Friends kom út 2008 og var valin ein af 100 bestu plötum íslandssögunnar í samnefndri bók. Síðan þá hafa komið út plöturnar Don’t want to sleep og Brighter Days ásamt ýmsum smáskífum og minni útgáfum.

Í gegnum tíðina hefur FM Belfast verið iðin við kolann þegar kemur að samstarfi við aðra listamenn og hafa meðal annars unnið með Martin Kohlstedt, Múm, Kasper Björke og Retro Stefson og gert remix fyrir Gus Gus, Prins Póló og Men. Sveitin hefur einnig átt lög í bíómyndum erlendis og heimafyrir og gert tónlist fyrir sjónvarpsþætti og auglýsingar.

Frá árinu 2008 og allar götur síðan hefur sveitin ferðast og spilað um víða veröld á tónleikahátíðum á borð við Hróarskelduhátíðina, Sónar Barcelona, SXSW.

Hægt er að versla plötuna á Fmbelfast.com

Skrifaðu ummæli