FLYTUR PERLUR MAGNÚSAR ÞÓRS ÁSAMT LÚÐRASVEIT ÞORLÁKSHAFNAR

0

Rokksöngvarinn Stefán Jakobsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar flytja perlur Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Sá maður er örugglega vandfundinn sem myndi setja Stefán Jakobsson, söngvara Dimmu, og Lúðrasveit Þorlákshafnar í einhverskonar samhengi. En þessi ólíkindatól hafa leitt saman hesta sína og ætla að halda þrenna tónleika nú á næstu dögum, þar sem vel valdar perlur Magnúsar Þórs Sigmundssonar verða leiknar í nýjum útsetningum.

Sjálfur verður Magnús Þór kynnir á tónleikunum og mun segja sögur af þessum lögum og sínum langa og farsæla ferli sem tónlistarmaður. Það vita þeir sem þekkja að eftir Magnús liggja ógrynni laga og texta sem hafa verið samofin íslensku þjóðarsálinni í áratugi.

Flestir tengja ef til vill lúðrasveitir við mígandi blautar skrúðgöngur sem vaða polla í misglæsilegum lúðrasveitabúningum á tillidögum landsmanna, en sú lýsing eða upplifun gefur ekki rétta mynd af einni af stærstu fullorðins lúðrasveitum landsins en sú finnst í 1600 manna sjávarplássi á suðurströndinni, Þorlákshöfn. Þar koma saman um 35 manns í hverri viku til þess að spila saman tónlist úr ýmsum áttum og er lúðrasveitin mikill og ómetanlegur drifkraftur í menningarlífi þessa litla samfélags við ströndina. Lúðrasveitin hefur staðið fyrir mörgum fjölbreyttum tónleikum og fer oftar en ekki óhefðbundnar leiðir í efnisvali og framsetningu. Hún hefur í gegnum tíðina verið í samstarfi við ýmsa ólíka aðila og skemmst er að minnast samstarfs lúðrasveitarinnar við tónlistarmanninn Jónas Sigurðsson, en saman gáfu þau út plötuna Þar sem himin ber við haf árið 2012.

Með þessu nýja verkefni langaði Lúðrasveit Þorlákshafnar að setja sviðsljósið á þann hafsjó af ómetanlegum dægurlagaperlum sem Magnús Þór Sigmundsson hefur samið í gegnum tíðina. Auðvitað var ekki hægt að spila öll lögin en tólf þeirra urðu fyrir valinu. Þau voru svo látin í hendur ólíkra útsetjara þannig að útkoman er fjölbreytt og stíll laganna ólíkur. Sem dæmi um þá sem komu að útsetningum laganna eru tónlistarfólkið Sigrún Jónsdóttir, Samúel Jón Samúelsson, Einar Jónsson, Snorri Heimisson, Halldór Smárason og fleiri.

Lög sem tónleikagestir munu fá að heyra eru meðal annars Jörðin sem ég ann, Álfar, Ást, Ísland, Dag sem dimma nátt, Blue Jean Queen og Þú átt mig ein, sem Vilhjálmur Vilhjálmsson gerði ódauðlegt.

Lúðrasveitinni þótti söngvarinn Stefán Jakobsson, með sitt mikla og blæbrigðaríka raddsviði,  hvað vænlegastur til að gera þessum lögum góð skil með hljómsveitinni og hann var ekki lengi að ákveða að stökkva á þennan óvænta vagn þegar haft var samband við hann og hefur samstarfið verið stórskemmtilegt!

Að sjálfsögðu hvetur Lúðrasveit Þorlákshafnar allt tónlistaráhugafólk að koma og kíkja á þetta, sérstaklega þá sem hafa aldrei farið á lúðrasveitatónleika áður!

Tónleikarnir verða í Ráðhúsinu í Þorlákhöfn fimmtudagin 18. maí, Hótel Örk í Hvergerði föstudaginn 19. maí og í Gamla bíó sunnudaginn 21. maí. Þeir hefjast allir kl. 20.30. Miðasala er á midi.is og er miðaverð 3.500 kr.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá og heyra þá Stefán Jakobsson og Andra Ívars flytja lagið „Þú átt mig ein” eftir Magnús Þór, en þeir koma reglulega fram með föstudagslögin sín og eru á Rósenberg. Hægt er að nálgast miða á Miði.is

Verkefnið er styrkt af Nótnasjóði STEF, Menningarsjóði SASS og Menningarnefnd Ölfuss.

Skrifaðu ummæli