FLYTUR ELSTA ÞEKKTA TÓNVERK VERALDAR SEM VARÐVEITT ER Á GRAFSTEINI

0

Ljósmynd/Aylin Gungor

Gyða Valtýsdóttir hefur nú bæst í hóp listamanna útgáfufyrirtækisins Figureight. Fyrirtækið mun gefa út plötu hennar, Epicycle á vínyl og stafrænu formi á heimsvísu nú í haust.

Epicycle kom áður út á geisladisk á Íslandi eingöngu á vegum Smekkleysu síðastliðið haust og hlaut þá Íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í opnum flokki og fyrir plötuumslag ársins, auk þess sem platan var valin ein af Kraumsplötum ársins.

Á plötunni Epicycle má m.a. finna elsta skráða tónverk sögunnar, „Grafskrift Seikilosar” eða „Seikilos Epitaph,“ en einnig nýrri verk eftir þekkt tónskáld á borð við Messiaen, Prokofiev, Crumb og Schumann. Gyða tekur fyrir hin ýmsu verk sem hafa sérstakt gildi fyrir hana og flytur þau eftir sinni eigin persónulegu túlkun. Á plötunni fær Gyða til liðs við sig frábæra listamenn á borð við Shahzad Ismaily, Danny Tunick, Hilmar Jensson, Julian Sartorius og Michael York.

Platan hefur vakið töluverða athygli og fengið frábæra dóma

„Sköpuð er tímalaus stemning sem er svo lokkandi að maður hreinlega hverfur inn í aðra veröld.“ – Jónas Sen, visir.is

„Hér er einhver óræður galdur í gangi sem hefur sig upp fyrir sjálfa tónlistina og hittir mann þráðbeint í hjartastað.“ – Arnar Eggert,  mbl.is

„Þetta er gripur sem gefur fyrirheit um betri heim.“ – Pétur Grétarsson,  ruv.is

„Það er hvergi veikan punkt að finna […] að mínu mati er þetta líklegast besta platan sem kom út á Íslandi á síðasta ári og þær voru margar góðar.” – Ingimar Bjarnason, Starafugl

Nú hefur hin virta tónlistarsíða Stereogum frumflutt lagið „Seikilos Epitaph,” sem er útgáfa Gyðu á elsta þekkta tónverki veraldar, sem varðveitt er á grafsteini.

Hér má sjá lagið spilað á útgáfutónleikum Gyðu í Dómkirkjunni frá því í mars.

Skrifaðu ummæli