FLYTJA NÝ VERK Á NÝTT ÍSLENSKT HLJÓÐFÆRI

0

Listhópurinn Hlökk samanstendur af Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur, Lilju Maríu Ásmundsdóttur og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur en hljómsveitin mun koma fram á Myrkum músíkdögum laugardaginn, 27. Janúar. Hlökk mun flytja ný verk á nýtt íslenskt hljóðfæri sem smíðað var af meðlimi listhópsins sem er hljóð- og ljósskúlptúrinn Hulda þar sem tónlist, myndlist og ritlist mætast.

Hljóðfærið Hulda var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2017 en hljóðfærið er hljóð- og ljósskúlptúr eða strengjaharpa með innbyggðum ljósbúnaði sem stýrist af því hvernig spilað er á hljóðfærið. Þegar leikið er á skúlptúrinn fyllist rýmið umhverfis Huldu af hljóðum, munstrum og litum sem breytast í sífellu (spilað er á hljóðfærið í myrku herbergi, þegar strengur á Huldu er plokkaður kemur ljós úr hljóðfærinu, hægt er að forrita nýja litapallettu fyrir hvern flutning).

„Tónlistin er blanda af tilraunum með möguleikum Huldu sem hljóðfæris ásamt rafhljóðum sem lýsa hljóðheim Huldu. Á tónleikunum verða einnig vídeóverk eftir okkur.“ – Hlökk

Á tónleikunum mun tónlist, myndlist og ritlist mætast í frumsömdum verkum eftir meðlimi Hlakkar. Tónleikarnir verða laugardaginn næstkomandi, 27. janúar, kl. 15.00 í Norræna húsinu. Á tónleikana kostar 2000 kr. og eru allir velkomnir. Tónleikarnir ættu að höfða sérstaklega til þeirra sem hafa áhuga á nýsköpun í íslenskri tónlist. Hægt er að nálgast miða á Tix.is

Hlokkmusic.com

Skrifaðu ummæli