FLÝJA RAUNVERULEIKANN OG SOFA SEM MEST

0

Tónlistarkonan Katrín Helga var að senda frá sér glænýja plötu sem ber heitið Svefn. Katrín er afar afkastamikil tónlistarkona en ásamt því að semja eigin tónlist ferðast hún um heiminn með tónlistarkonunni Sóley, er meðlimur hljómsveitanna Kriki og Reykjavíkurdætra svo sumt sé nefnt.

Svefn er búin að vera talsvert lengi í vinnslu eða um þrjú ár en elstu lögin eru allt að fimm ára gömul. Draumkennd, melankólísk og einlæg eru orðin sem Katrín notar til að lýsa plötunni en titillagið fjallar t.d. um að vilja flýja raunveruleikann og sofa sem mest.

Albumm.is náði tali af Katrínu og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um plötuna, áhrifavaldana og sumarið svo fátt sé nefnt!


Hvar og hvenær var platan tekin upp og var hún lengi í vinnslu?

Við tókum plötuna upp í Hljóðheimum með aðstoð Kára Einarssonar sem er að gera það gott með Ayia, Oyama, Útidúr og fleiri hljómsveitum. Elstu lögin á henni eru fimm ára gömul, en platan sjálf var þrjú ár í vinnslu, þannig að við erum mjög fegin að koma henni frá okkur.

Hvaðan sóttir þú innblástur fyrir þessa plötu og afhverju heitir hún Svefn?

Áhrifavaldar mínir eru allt frá klassískri tónlist að hip hoppi en það sem krika hefur helst verið líkt við er þema lagið í þáttunum Twin Peaks.

Platan heitir Svefn meðal annars vegna þess að þetta er tilvalin plata til að hlusta á undir sæng. Tónlistin er ljúf og mjúk, en líka melankólísk og titillagið fjallar um að vilja flýja raunveruleikann og sofa sem mest.

Lýstu tónlistinni á Svefn í þremur orðum.

Draumkennd, melankólísk, einlæg.

Þú ert afar afkastamikil en auk þess að gefa þessa plötu út ert þú í fjölmörgum sveitum eins og t.d. Sóley o.fl. Er ekkert erfitt að finna tíma fyrir þetta alltsaman?

Þetta gengur einhvernveginn alveg upp. Maður er mis aktívur í mismunandi verkefnum á mismunandi tímum. Stundum fer öll orkan í eitt, stundum í annað. Það væri alveg gaman að einbeita sér algjörlega að einhverju einu og gera það sjúklega vel, en mér finnst miklu skemmtilegra að hafa of mikið að gera heldur en að hafa of lítið gera.

Hvað á að gera í sumar og eitthvað að lokum?

Ég var að koma heim af þriggja vikna tónleikaferðalagi með Sóley og fer aftur út með henni í júlí. Svo fer ég eitthvað út með Reykjavíkurdætrum og spila með þeim hérna heima. Í þessari viku er ég að fara að spila á sýningu Ragnars Kjartanssonar í Listasafni Reykjavíkur til þess að safna mér fyrir útgáfukostnaði fyrir EP plötuna mína, „Ég hefði átt að fara í verkfræði” sem ég stefni á að gefa út á 7” vínyl og svo langar mig að gefa út nýtt lag og a.m.k eitt myndband með krika í sumar áður en Sindri flytur til Kaupmannahafnar í nám. Útgáfutónleikarnir okkar verða þar af leiðandi líklega líka síðustu tónleikarnir okkar í bili, en þeir verða á Húrra 15. júní og snillingarnir í RuGl hita upp.

Hér fyrir neðan má hlýða á plötuna Svefn í heild sinni.

Skrifaðu ummæli