FLAMES OF HELL

0
Flames of Hell var stofnuð árið 1984 af þeim bræðrum Sigurði Nicolaison og Steinþóri Nicolaison ásamt trommaranum Jóhanni Richardsson frá Reykjavík. Þeir gáfu svo út plötuna Fire and steel árið 1987.

Hljómsveitin Flames of Hell er í tveimur orðum sagt dark sjitt! Ekki nóg með það þá er þetta líka eitt best varðveitta leyndarmál íslenskrar tónlistarsögu. Hljómsveitin var stofnuð í kringum 1984 og er óhætt að segja að Flames of Hell hafi verið á meðal fyrstu black metal hljómsveitanna á heimsvísu, já ég segi það, andskotinn hafi það!

Það er margt og eiginlega allt á huldu með hljómsveitina. Og það er eins og að meðlimir hafi ekkert viljað kannast við þessa einu plötu hljómsveitarinnar frá því hún var gefin út árið 1987. Þetta var tríó sem samanstóð af bræðrunum Sigurði og Steinþóri Nicolaisonum (já þeim sömu og ráku Nicolai bifreiðastillingar) og Jóhanni Richardson trommara. Þriðji Nicolai bróðirinn málaði svo þessa geðveiku mynd á umslagið.

Fyrir sirka tíu árum síðan reyndi ég að hafa upp á meðlimum Flames of Hell til þess að koma í útvarpsviðtal og ræða þessa mögnuðu plötu. Þurrari og skrítnari viðbrögð hef ég aldrei fengið, ég var ekki einu sinni viss um að ég væri að tala við réttu mennina. Ég fékk hvorki já eða nei, ekkert svart eða hvítt, þetta var eins og að spila frúnna í hamborg án þess að spyrja um peninga. Ég varð hálfhræddur. Þessi símtöl voru mjög erfið … hafandi verið búinn að hlusta á plötuna þeirra Fire and Steel átti ég bágt með að komast hjá þeirri tilhugsun að Nicolaibræður væru búnir að sitja á mig einhver satanísk álög bara sisvona og það í gegnum símann!!

Sagan segir að Flames of Hell hafi tekið upp plötuna Fire and Steel í stúdíói í eigu hersins á vellinum í Keflavík. Yfirmaður hersins á vellinum hafi runnið á þetta hrikalega garg og þessa satanísku tóna og ekki litist betur á blikuna en svo að hljóðverinu var lokað eftir veru Flames of Hell í því.

Í rauninni á ég það sameiginlegt með öllum öðrum sem reyna að fjalla um Flames of Hell að við vitum ekkert hvað í andskotanum við erum að tala um. Þess vegna gefst ég hér með upp en skil eftir tengil á þessa dularfullu plötu í fullri lengd!

Höfundur: Andri Freyr Viðarsson

Comments are closed.