flæðandi óreiða með ögrandi skilaboðum

0

Hljómsveitin Hórmónar sendir í dag frá sér sína fyrstu plötu en hún ber heitið Nanananabúbú. Hórmónar var stofnuð árið 2015 en tónlist sveitarinnar má lýsa sem flæðandi óreiðu með ögrandi skilaboðum. Sveitarmeðlimir drekka í sig innblástur úr ólíkum áttum og má þar t.d nefna Blondie, John Zorn, Mínus og margt margt fleira! Einnig var að koma út frábært myndband við lagið „Glussi“ en Alma Mjöll Ólafsdóttir fer þar á kostum!

Albumm.is náði tali af Hórmónum og svaraði sveitin nokkrum skemmtilegum spurningum um plötuna og útgáfutónleikana sem fram fara í kvöld!


Hvenær er Hórmónar stofnuð og hvernig kom það til?

Hljómsveitin var stofnuð í Desember 2015. Við krakkarnir í bandinu erum öll bestu vinir og vorum það fyrir stofnun þess. Fjögur okkar voru í mjög vondu skapi eitt kvöldið og einhver minntist á það að stofna hljómsveit. Örn Gauti trommuleikari átti fullan bílskúr af hljóðfærum þannig að við brunuðum þangað og sögðum Hjalta, saxófónleikara, að drífa sig til okkar og taka saxófóninn með. Fæst okkar höfðu neinn grunn á hljóðfærin okkar en Örn Gauti var og er mjög klár á trommur. Hann heldur okkur svolítið saman. Okkur var svo bara rétt hljóðfæri og við reyndum að spila bara eftir eyranu. Við höfum þar af leiðandi aldrei gert í því að læra ”rétt” á hljóðfærin okkar heldur gefið okkur fullkomið rými til sköpunar.

Hvernig munduð þið lýsa tónlistinni ykkar í einni setningu og hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun?

Tónlistinni okkar er kannski best lýst sem flæðandi óreiðu með ögrandi skilaboðum. Við sækjum innblástur okkar helst í daglegt ströggl og frústrasjónir. Við tökum öll sérstakan innblástur sjálf inn í tónlistina okkar úr mismumandi áttum. Fyrir Brynhildi er það hljómsveitin Blondie, Hjalti nefnir saxófónleikarann John Zorn, Katrín hefur tengt mikið við The Cranberries, Örn Gauti sækir sinn innblástur í Mínus og Urður finnur tengingu við Pixies.

Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvernig semjið þið lög?

Platan sjálf hefur verið í vinnslu um það bil ár en lagasmíðarnar hafa átt sér stað frá því í desember 2015. Það er í raun enginn sérstakur sem semur lögin og engin sérstök aðferð í lagasmíðum. Við höfum gert það þannig að við prófum að spila bara eitthvað saman og stundum kemur eitthvað og stundum ekki. Þegar einhvers konar grunnur er kominn þá bætist við texti og þá annað hvort kemur eitthvað glænýtt frá Brynhildi eða þá að hún sækir pælingar í litlar bækur sem hún hefur skrifað í svo árum skiptir.

Þið eruð að halda heljarinnar útgáfutónleika í kvöld. Við hverju má fólk búast á tónleikunum í kvöld og á að gera allt truflað?

Góðu kareoke, mikilli gleði, sprengikrafti, klikkuðum tónleikum og að dansa með okkur á eftir við diskótónlist. Svo að sjálfsögðu verðum við með varning til sölu á tónleikunum t.d. Flíkur merktar Hórmónum og plötuna sjálfa.

Hvað er framundan hjá ykkur og eitthvað að lokum?

Eftir útgáfutónleikana hefst forframleiðsla á vínylútgáfu. Svo ætlum við líka að spila á Iceland Airwaves núna í nóvember. Svo bara vonumst við til að sjá sem flesta á tónleikunum í kvöld og fagna með okkur!

Tónleikarnir fara fram á Gauknum og hefjast stundvíslega kl: 20:30. Það kostar litlar 1.000 kr inn og hægt er að nálgast miða á Tix.is

Skrifaðu ummæli