FJÖLDI ÍSLENSKRA LISTAMANNA Á POP UP ART FESTIVAL Í BERLÍN

0

björk

Pop Up Art Festival er sannkallað lista og tónlistarfögnuður sem fram fer í Berlín dagana 12. – 16. Júlí. Eingöngu er einblínt á Íslenska list enda af nægu að taka! Dagskráin er alls ekki af verri endanum en herlegheitin byrja á morgun (þriðjudag) þar sem Geysir fær að gjósa fyrir framan skemmtistaðinn Ipse, alls ekki amarlegt það.

flyer_bakhlidI

Eins og fyrr hefur komið fram er dagskráin alls ekki af verri endanum en þar má t.d. nefna Cryptochrome, Lafontaine, KSF, Odee, Hjalti Parelius og Spessi svo fátt sé nefnt.

Albumm.is náði tali af listamanninum Odee og svaraði hann nokkrum spurningum.

Hvernig legst förin til Berlínar í þig og hvernig kom til að þú varst fenginn í þetta verkefni?

Ég er ótrúlega spenntur fyrir þessu verkefni. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er með sýningu á erlendri grundu og ég veit í raun ekkert við hverju ég á að búast. Hópurinn á bak við hátíðina er mjög öflugur, bæði hvað varðar framsetningu og kynningu ytra.

Við fengum mikinn meðbyr og áhuga að utan í tengslum við gengi íslenska karlalandliðsins á EM, þannig að við erum í rauninni í dauðafæri hvað varðar kynningu á íslenskri menningu í Berlín. Það er mikil eftirvænting fyrir þessari hátíð.

Oddur Eysteinn Friðriksson Odee

Oddur Eysteinn Friðriksson (Odee)

Ég tók þátt í Popart menningarhátíð sem var haldin í Hafnarfirði í ágúst 2015. Það var upphafið að hátíðinni ytra. Ingvar Björn kom þeirri hátíð á laggirnar og var hún hugsuð sem fjölmenningarhátíð, vettvangur fyrir listamenn úr öllum áttum til að kynnast og kynna sig saman. Hann sá mikinn styrk í því fyrir alla aðila að vinna saman. Áherslan var að hafa pop art list í forgrunni.

Eftir hátíðina í Hafnarfirði fóru að vakna upp hugmyndir um að halda hátíðina á alþjóðavettvangi. Ingvar hafði samband við okkur Hjalta Parelius til að bjóða okkur að taka þátt í verkefninu. Við þrír höfum verið í fararbroddi fyrir íslenska popart list undanfarin ár og haldið góðu sambandi.

Hvað ætlar þú að gera á Pop Up Art Festival og við hverju má fólk búast?

Við myndlistarmennirnir verðum með verk til sýnis út um allt á hátíðinni, bæði stór eftirprent sem verða til sýnis þar sem tónleikarnir verða og original listaverk í galleríi sem er þarna á svæðinu.

Photo 06-07-16 10 34 18

Fólk má búast vil stórri bombu af íslenskri menningu. Ekki bara tónlist og myndlist. Eitt af listaverkunum hátíðarinnar er Geysir sem verður ræstur í miðri á, í miðbæ Berlínar.

Fyrir hverju ert þú spenntur á festivalinu?

Ég er mjög spenntur að sjá allar hljómsveitirnar spila, sjá öll listaverkin okkar sem verða prentuð í risa stærðum og svo Geysirinn!

Eitthvað að lokum?

Ég vonast til að sjá sem flesta Íslendinga sem eru á ferðinni í Berlín þessa daga sem hátíðin er.

Kynnið ykkur dagskránna betur á Popupartfestival.de

Comments are closed.